Það var fremur dapurlegt að koma í Hörpu í gærkvöldi – þetta glaða hús liggur nú í eins konar dvala. Þó ekki steinsofandi því að ungir kraftar frumsýndu um helgina í Kaldalóni ameríska söngleikinn Fimm ár eftir Jason Robert Brown, tuttugu ára gamlan söngleik sem hefur verið sýndur víða um heim. Satt að segja dálítið skrítið að hann skuli ekki hafa ratað hingað fyrr (mér vitanlega). Jóhann Axel Andersen þýðir verkið sem er nánast að öllu leyti sungið; Vala Kristín Eiríksdóttir leikstýrir, einkar vel skipaður kvartett leikur með á sviðinu en tónlistarstjóri er Sigurður Halldórsson sem líka leikur á selló og bassa.

Hugmyndin að verkinu er snjall leikur að tíma. Það fjallar um ástarsamband (og hjónaband) Jamie (Rúnar Kristinn Rúnarsson) og Cathy (Viktoría Sigurðardóttir) sem stendur í fimm ár frá því að þau kynnast og þar til öllu er lokið. Það snjalla er að hann fær að segja söguna frá upphafi til enda en hún fer öfuga leið. Þegar verkið hefst er Cathy að taka saman dótið sitt á sameiginlegu heimili þeirra og syngur á meðan sorgarlag um að Jamie sé farinn („Brotin“), fallegt lag sem Viktoría söng af innlifun og skilningi. Jamie hringir hins vegar í mömmu sína til að segja henni frá stúlkunni sem hann er nýbúinn að kynnast og alveg vitlaus í. Mamma er ekkert yfir sig hrifin, Cathy er ekki Gyðingur eins og Jamie, en þetta ágreiningsefni heyrði ég aldrei nefnt aftur í verkinu. Svo hugsar Cathy sig aftur á bak ár fyrir ár en Jamie heldur áfram í réttri tímaröð og í miðjunni mætast þau í undurfögrum dúett („Augnablikið“) þar sem hann biður hennar og þau lofa að elska hvort annað „um eilífð“. Í lokin er svo Jamie að dæsa yfir skilnaðinum en Cathy logandi spennt fyrir stráknum sem hún var að kynnast og syngur um tilhlökkun sína eftir komandi degi.

Persónurnar eru báðar listamenn. Jamie er rithöfundur, ungur og upprennandi, og við fáum að fylgjast með (svimandi hraðri) sigurgöngu hans. Við fáum meira að segja heila sögu eftir hann sungna („Kvæðið um Schmuel“) sem hann gefur kærustunni í jólagjöf. Cathy er leikkona, sömuleiðis ung og upprennandi, en sigurganga hennar í starfi verður skrykkjóttari. Hún hefur framan af gaman af að vera eiginkona rithöfundarins, fylgja honum á bókakynningar og áritanir en svo verður það ófullnægjandi, hún verður öfundsjúk út í velgengni hans en finnst hún þó vera hluti af henni og syngur afhjúpandi brag um það. Hún leikur úti á landi og reynir að gera grín að leiða sínum og gremju þótt henni sé ekki hlátur í hug („Sumar í Ohio“). Hún fer í prufur sem ganga æ verr, það voru ansi vel hugsuð atriði og snaggaralega útfærð; á meðan breiðir hann úr sér af vaxandi sjálfstrausti. Eins og sjá má vantar allt jafnvægi í sambandið og þetta getur varla farið öðruvísi en illa.

Viktoría og Rúnar Kristinn eru bæði sérmenntuð í að syngja í söngleikjum og þau syngja reglulega vel. Viktoría er í góðri þjálfun þessa dagana því hún er líka í Fuglabjarginu í Borgarleikhúsinu og mér finnst hún njóta þess, hún er létt og kvik á sviðinu, eins og heima hjá sér. Rúnar slakaði ekki eins vel á, hreyfingarnar voru þunglamalegri en túlkun hans á lögunum var innileg og sannfærandi. Tónlistin hentar vel báðum söngvurum og hljómsveitin var fín; hún gerði líka meira en að spila því hún lék gesti í útgáfupartýum og gerði það af góðum húmor. Stundum fannst mér hljómsveitin leika aðeins of sterkt og kæfa textann, en það gat líka stafað af því að hátalararnir á söngvurunum væru ekki rétt stilltir. Þýðing Jóhanns Axels er stirð á stöku stað en ágætlega skýr.

Sviðið í Kaldalóni er ekki ákjósanlegur staður fyrir sýningu af þessu tagi, það er ansi kuldalegt og stóra kistan á miðju gólfi gerði ekkert til að gera það hlýlegra eða lífga upp á það. Búningarnir bættu heldur ekki lit í leikinn. Við mæðgur veltum því fyrir okkur á eftir hvort ekki hefði farið betur um sýninguna í Tjarnarbíó.

Silja Aðalsteinsdóttir