Ubbi kóngur

Jæja, aldrei fór það svo að maður fengi ekki að sjá leikritið um Ubba kóng áður en yfir lyki. Þetta ríflega aldargamla leikrit franska symbólistans Alfreds Jarry hefur verið „household word“ á Íslandi síðan Davíð Oddsson komst fyrst til valda á Íslandi en Davíð lék Ubba eða kónginn sem þá hét Bubbi í frægri uppsetningu Herranætur árið 1969. Var löngum vinsælt að kenna Davíð við hlutverkið hvort sem menn höfðu einhverja hugmynd um út á hvað það gekk eða ekki.

Nú er Leikfélag Hafnarfjarðar að sýna þetta verk í Gaflaraleikhúsinu og það er alveg þess virði að skreppa í Fjörðinn til að sjá það. Steingrímur Gautur Kristjánsson hefur endurskoðað þýðingu sína frá 1969 og Karl Ágúst Úlfsson hefur bætt nokkrum söngtextum við þá gömlu sem Þórarinn Eldjárn, skólabróðir Davíðs, þýddi á sínum tíma. Eyvindur Karlsson sér um tónlistina. Ágústa Skúladóttir setur verkið upp og tekur það „á fávitaganginum“ eins og segir í leikskrá. Við gætum verið stödd í geymsluhúsnæði fávitahælis eins og þau gerðust fyrir hundrað árum eða svo þar sem vistmenn eru að setja upp leikrit – verk sem leyfir þeim að haga sér eins og þeim er eðlilegast: láta öllum illum látum. Búningar Sigríðar Rósu Bjarnadóttur og gervi taka mið af þessu, flestir eru í pokalegum samfestingum, og þegar menn hafa étið talsvert af skít og kastað ótal klósettrúllum í fallbyssukúlna stað þá er sviðið og fólkið á því orðið eins subbulegt og hægt er að hugsa sér!

Ubbi kóngur fær söguþráðinn að nokkru leyti frá Makbeð Shakespeares. Ubbi (Halldór Magnússon) er hátt settur í her Venzislálfs konungs í Póllandi (Stefán H. Jóhannesson) en frú Ubba (Huld Óskarsdóttir) er ekki nógu ánægð með það. Hún vill að Ubbi verði sjálfur kóngur en til þess þarf að drepa Venzisláf. Ubbi er svolítið tregur framan af en sér fljótlega kostina við þetta og lætur til skarar skríða. Það finnst Ubbu líklega nóg en Ubba ekki. Það þarf að útrýma allri ætt Venzisláfs og það tekst því sem næst; yngsti sonurinn, Búgruláfur (Sigurveig M. Tómasdóttir) kemst af og tekst í lokin að snúa dæminu við. Þá hefur Ubbi farið myrðandi hendi um samfélagið og þar á ofan stolið miklum auði frá þjóðinni sem Ubba stelur af honum þegar Ubbi er farinn í stríð gegn Rússum. Í lokin flýja þau hjón með tryggustu þjónum sínum í snilldarlega uppsettu atriði, þau eru ekki alveg viss um hvert þau ætla að fara en sennilega verður Skagafjörður fyrir valinu …

Alfred Jarry hafði mörg dæmi í mannkynssögunni um spillta og gráðuga valdsmenn sem skirrðust ekki við að myrða og ræna ef það kom þeim vel en varla hefur hann grunað árið 1896, þegar Ubu roi/Ubbi kóngur var frumsýndur, hvað verk hans átti eftir að passa grimmilega vel við marga á næstu öld, þeirri tuttugustu. Þetta er vissulega skrípaleikur en sá skrípaleikur hefur oft verið óþægilega raunverulegur, jafnvel í minni þeirra sem enn lifa.

Sýningin er grótesk í anda verksins og aldrei slegið af. Leikararnir ganga glaðir og hressir inn í þennan leikstíl sem ekki er auðveldur. Hann hentar þó áhugaleikurum að vissu leyti vel því að hann gefur góða kosti á að draga fram styrk hvers og eins en breiða yfir veikleika. Halldór er hrikalega fínn Ubbi, stór og mikill og rauðskeggjaður, en Huld er jafnvel ennþá betri Ubba, lipur og nett en svo geislandi af orku og smitandi kæti að það var erfitt að horfa ekki á hana ef hún var á sviðinu. Sýningin er enn ein rósin í barm Ágústu sem var nú allsæmilega skreyttur fyrir!

Silja Aðalsteinsdóttir