Dæmdar konur fyrri alda fá nú uppreist æru hver af annarri. Bubbi Morthens söng um þær í titillagi plötunnar 18 konur og nefndi þar sérstaklega Þórdísi Halldórsdóttur sem vígði Drekkingarhyl árið 1618. Þórdís fékk svo um sig heila skáldsögu síðastliðið haust þegar Þóra Karítas Árnadóttir gaf út Blóðberg. Og nú hefur leikflokkurinn Svipir tekið upp mál Sunnefu Jónsdóttur, sem var tvívegis dæmd til drekkingar fyrir sifjaspell, og frumsýndi heimildaleikverkið Sunnefu – hetju, fórnarlamb eða tæfu eftir Árna Friðriksson og leikhópinn í Tjarnarbíó í gærkvöldi. Sunnefa lifði í fangavist í tæp tuttugu ár en ekki er vitað hvort henni var á endanum drekkt eða hvort hún lést á sóttarsæng áður en því var komið í verk.

„Konum sem áttu sér enga vörn / var drekkt fyrir það eitt að eignast börn,“ söng Bubbi og okkur finnst auðvitað gersamlega út í hött að telja það dauðasök. Sunnefa var blásnauð alþýðustúlka í Borgarfirði eystri og aðeins sextán ára þegar hún ól fyrsta barn sitt árið 1739; sjálf barn og sá sem var dæmdur til að hálshöggvast fyrir faðernið var fjórtán ára hálfbróðir hennar, Jón. Leikskáldið og leikkonurnar Tinna Sverrisdóttir og Margrét Kristín Sigurðardóttir koma á framfæri sterkum efasemdum um að þetta hafi verið sannleikanum samkvæmt, og benda bæði á stjúpa Sunnefu sem mögulegan sökudólg og bóndann á næsta bæ sem gekkst við barninu en tók þá játningu til baka þegar Sunnefa vildi ekki giftast honum.

Systkinin eru tekin til fanga af Jens Wium sýslumanni og dæmd til dauða en þegar Hans Wium tekur við embættinu af föður sínum, ungur og ókvæntur, vill hann biðja kóng að náða þau vegna ungs aldurs og fávisku þannig að það dregst úr hömlu að fullnægja dómnum. Þá verður Sunnefa ólétt í annað sinn, í fangavistinni, og þótt hún lýsi bróður sinn einnig föður að því barni tekur hún þá játningu til baka á Alþingi og segist hafa sagt þetta af ótta við sýslumann; raunar sé Hans Wium sjálfur faðir að þessu seinna barni.

Við taka ein af þessum endalausu málaferlum sem virðast hafa verið svo furðulega algeng áður fyrr (og ekki óþekkt á okkar dögum heldur) og eru þau systkinin höfð í haldi bæði hér og þar á meðan. Sunnefa á meira að segja nokkur sældarár hjá Jóni Hjaltalín sýslumanni í Reykjavík og Mette konu hans, en hún endar samt að lokum aftur hjá Hans Wium þegar hann hefur endurheimt æru sína og embætti.

Sunnefumálin eru spennandi efni og þær Tinna og Margrét Kristín leggja sig fram við að kveikja með áheyrendum bæði skilning á kjörum hennar og persónu og samúð með henni sem því saklausa barni sem hún var þegar hún er dæmd og þeirri skynugu og sterku konu sem vogaði sér að lýsa sjálfan sýslumanninn föður að barni sínu. Tinna túlkar Sunnefu af einlægni og hita og hikar ekki við að gefa henni drætti uppreisnargjarnrar nútímastúlku þegar hún flytur blóðskammarþuluna í stíl Reykjavíkurdætra!

Sviðið er verk Egils Ingibergssonar sem einnig lýsir sýninguna. Það sýnir vinnustofu þeirra stallsystra með hljóðfærum af ýmsu tagi, þeirra á meðal bæði langspili og trommusetti, sem Margrét leikur á af list. Þær eru líka með bækur og skjöl sem þær leita í eftir staðreyndum við rannsókn sína og lesa úr þegar þörf krefur. Egill og Móeiður Helgadóttur fjölga leikurum með bráðvel gerðum teiknuðum hreyfimyndum og léku þær Tinna og Margrét oft snilldarlega á þær, jafnvel svo að hálf persóna var lifandi, hálf teiknuð. Þénuga og viðeigandi búninga  gerði Beate Stormo en fjölbreytt og skemmtileg tónlistin var verk Margrétar. Leikstjóri var Þór Tulinius og samhæfði allar þessar ólíku aðferðir svo að útkoman er virkilega gott leikhús um verðugt viðfangsefni.

Silja Aðalsteinsdóttir

PS Í leikverkinu er ekki getið um örlög Jóns, bróður Sunnefu, en samkvæmt Íslandi í aldanna rás var hann sendur í Slaveríið í Kaupmannahöfn og þaðan til Finnmerkur ásamt fleiri íslenskum föngum. Þar er talið að þeir hafi lifað sem frjálsir menn og miðað við frjósemi og kvenhylli Jóns (í haldi hjá sýslumanninum í Skaftafellssýslu barnaði hann bæði vinnukonu og dóttur sýslumanns) má mikið vera ef þar eru ekki afkomendur hans enn finnanlegir!