MannsröddinÞað er rúm hálf öld síðan ég sá fyrst leikverk þar sem aðalpersónan var tvöföld á sviðinu og talaði við sjálfa sig. Það var fyndni harmleikurinn Philadelphia, Here I Come eftir Írann Brian Friel í Gaiety leikhúsinu í Dublin. Minnisstæðast slíkra verka er Ofvitinn hans Kjartans Ragnarssonar í Iðnó þar sem tveir leikarar á ólíkum aldri léku Þórberg Þórðarson. Uppsetning Brynhildar Guðjónsdóttur og Íslensku óperunnar á Mannsröddinni í Kaldalóni Hörpu í gærkvöldi er ekki alveg af sama tagi og þessar tvær sýningar en vissulega er persóna verksins tvöföld á sviðinu. Annar helmingurinn syngur á frönsku, hinn talar á íslensku og einstaka sinnum höfðu konurnar ákveðin samskipti sín á milli.

Hér splæsir Brynhildur af hugkvæmni saman tveim listaverkum um sama efni. Fyrst kom einþáttungurinn La voix humaine eða Mannsröddin eftir Jean Cocteau, frumsýndur 1930, og tæpum þrjátíu árum seinna stutt ópera sem Francis Poulenc samdi upp úr honum. Verkin leyfa okkur að fylgjast með símtali sem kona á við ástmann sinn til fimm ára. Hann hefur nú yfirgefið hana og við komumst að því meðan við hlustum að hann ætlar að giftast sinni nýju ástkonu daginn eftir og er raunar hjá henni þegar hann hringir í gömlu kærustuna. Hvort tveggja eykur til muna sorg og örvæntingu konunnar á sviðinu sem reynir að hemja sig, ergja manninn ekki með of miklum æsingi en ræður ekki við sig og sveiflast öfganna á milli. Við heyrum aldrei í viðmælandanum en við getum ráðið viðbrögð hans af hljómum píanósins sem Eva Þyri Hilmarsdóttir sló af innlifun og krafti.

Bæði verkin eru stutt en ná saman um klukkustundar lengd og það er snjallt af Íslensku óperunni að bjóða upp á svona sælgætismola inn á milli stórra sýninga. Framan af fannst mér Auður Gunnarsdóttir fá meiri tíma fyrir túlkun sína á Poulenc en Elva Ósk Ólafsdóttir fékk fyrir leikþátt Cocteau en það getur einfaldlega stafað af því að ég skildi ekki franska textann hjá Auði og var farin að bíða eftir að Elva Ósk segði mér á íslensku hvað hún væari að syngja um. En Auður söng þessa fögru og áhrifamiklu tónlist listavel og smám saman fór ég að njóta hennar á hennar eigin forsendum. Það breytti þó ekki því að Elva Ósk hafði beinni og skilvirkari áhrif á tilfinningalífið, bæði með textanum sem var vel orðaður af Kristjáni Þórði Hrafnssyni og þó einkum með sterkum leik sínum og útgeislun á sviðinu.

Helga I. Stefánsdóttir klæðir konurnar þrjár, söngkonuna, leikkonuna og píanóleikarann, í eins búninga, þægilega, smekklega og mjög „franska“, lausar, síðar silkiskyrtur og buxur við. Hún gerir líka leikmyndina sem er einföld en notadrjúg. Þar er gamaldags svartur skífusími í aðalhlutverki og vekur margar minningar með tilvist sinni einni saman.

Silja Aðalsteinsdóttir