Stefán rísEnn á ný býður Gaflaraleikhúsið upp á eldfjöruga unglingaskemmtun fyrir alla fjölskylduna. Stefán rís eftir þá Arnór Björnsson og Óla Gunnar Gunnarsson var frumsýnt í gærkvöldi undir stjórn Bjarkar Jakobsdóttur fyrir troðfullu og ákaflega hamingjusömu húsi. Þeir félagar voru 14 og 15 ára þegar þeir frumsýndu Unglinginn á sama stað í október 2013 þannig að núna eru þeir 17 og 18 ára – og hafa gefið út eina bók í millitíðinni með Bryndísi Björgvinsdóttur. Ekki letin á þeim bæjum.

Í þetta sinn leika Arnór og Óli Gunnar ekki persónur í eigin verki eins og síðast heldur höfunda. En af því þeir byrja ekki að semja verkið fyrr en þeir sjá að salurinn er orðinn fullur af áhorfendum þá eru þeir á sviðinu mestallan tímann að ræðast við og rífast og ráðskast með persónur sínar. Þeir koma sér fljótlega niður á aðalpersónu, Stefán (Grettir Valsson) sem er að byrja í 10. bekk, gefa honum einstæða, vinnulúna mömmu, Höllu (Rán Ragnarsdóttir), og pabbann Júlíus sem býr í Kanada (Vilberg Andri Pálsson). – Það má minna á að Stefán Júlíusson er fornfrægt hafnfirskt nafn. – Þeir gefa honum líka bestu vinina Eyva (Ágúst Örn Wigum) og Rán (Diljá Pétursdóttir). Kringum þau þrjú raða sér svo bekkjarfélagarnir, hópur bráðlipurra og velsyngjandi unglinga.

En hvað á að gerast í lífi Stefáns? Eftir nokkra baráttu um það hvort hann eigi að geta flogið eða ekki sættast þeir á að drengurinn verði heiftarlega hrifinn af nýju stelpunni í bekknum, Svandísi (Agla Bríet Einarsdóttir). Þeir semja svo æ stórkarlalegri ráð til að Stefáni takist að heilla þessa þokkadís en einhvern veginn mistakast þau hvert af öðru. Til dæmis verður Eyvi eftirlæti stelpnanna fyrir atriðið sem þeir félagar ætluðu að vera með saman á hæfileikakeppninni í skólanum en Stefáni tekst afleitlega til með atriðið sem hann valdi í staðinn (það varð þó afar fyndið fyrir áhorfendur). En mistökin stafa vitanlega af því að Stefán fær ekki að vera hann sjálfur. Þegar hann losar sig við höfunda sína og verður sjálfstæð persóna fer allt að ganga honum í vil.

Það er ekki tilviljun að aðstandendur sýningarinnar velja Gretti Valsson í aðalhlutverkið. Grettir hefur orðið mikla þjálfun í leik og hefur raunar frá fyrstu tíð verið eins og heima hjá sér á sviði. Honum varð ekki skotaskuld úr því að gera Stefán að heillandi unglingi. Félagar hans í sýningunni standa sig líka með miklum ágætum, bæði unglingar og fullorðnir. Einkum langar mig að nefna Rán Ragnarsdóttur sem lék vel og söng alveg yndislega. Í sýningunni eru margir söngvar sem koma héðan og þaðan en eru flestir með nýjum textum á íslensku sem væntanlega eru eftir höfundana því ekki er annars getið í leikskrá. Þórunn Lárusdóttir er söngstjóri og Unnur Elísabet Gunnarsdóttir semur dansa og enn og aftur verður maður alveg forviða á hvað slíkur hópur ungmenna getur dansað og sungið af mikilli fagmennsku.

Leikmynd Bjarkar Jakobsdóttur er skemmtileg og vel nýtt sú aðferð sem Gaflaraleikhúsið hefur svolítið gert að sinni að láta persónur og atriði birtast á baktjaldi eins og í kvikmynd en reynist þó vera leikið á staðnum og stundinni. Þar reynir á ljósahönnuðinn sem er Sindri Þór Hannesson.

Ekki er að efa að þessi sýning á eftir að verða eins vinsæl og fyrri unglingasýningar Gaflaraleikhússins sem hafa nú þegar alið upp fjölda færra leikara, söngvara og dansara og sömuleiðis áhorfenda, það er ekki minnst virði.

Silja Aðalsteinsdóttir