Eiðurinn og eitthvaðVið drifum okkur í gærkvöldi á Eiðinn og eitthvað sem leikhópurinn GRAL hefur sýnt undanfarið í Tjarnarbíó. Leikritið er eftir Guðberg Bergsson og það er skáldið sjálft sem er í miðju verksins, leikið af Erling Jóhannessyni. Hann hermir nett eftir sérstæðum talanda Guðbergs, rödd hans, áherslum og tóni, og okkur fannst það vel gert og vel við hæfi. Leikstjóri er Bergur Þór Ingólfsson, Grindvíkingur eins og skáldið. Persóna skáldsins hefur fulla stjórn á framvindunni í byrjun leiks og skipar persónum fram og aftur.

Þær eru þrjár, maður nr. 1 (Sveinn Ólafur Gunnarsson), maður nr. 2 (Benedikt Karl Gröndal) og ein kona (Sólveig Guðmundsdóttir) sem þó er tvíein því hún fær fyrst töluna eitt á bakið og síðan töluna tvo. Skáldið hefur sérstaka unun af því að ráðskast með hana, ögra henni og stríða. Það kemur ekki á óvart þegar Guðbergur á í hlut! Þessi fyrsti partur verksins var býsna skondinn og minnti mig á uppsetningu Baldvins Halldórssonar á leikriti eftir Thor Vilhjálmsson sem ég tók þátt í fyrir u.þ.b. hálfri öld þar sem aðalgrínið fólst í því að lesa sviðsleiðbeiningar Thors enda voru þær morðfyndnar.

Í seinni hluta sýningarinnar taka persónurnar ráðin af höfundi, binda hann niður í stól og haga sér eins og þær kjósa sjálfar. Þá fannst mér dofna yfir verkinu þó að enn væru mörg tilsvör fyndin og djúp. Inn á milli og í og með var svo þráður um Ragnheiði Brynjólfsdóttur biskups eins og titill verksins bendir til. Sá þráður virtist vera undir áhrifum frá Megasi (“það var helvítið hann Brynjólfur …”) – með þeirri breytingu þó að Guðbergur lætur Ragnheiði girnast föður sinn og fleka hann í dulargervi mjaltastúlku sem Brynjólfur hélt við. Ég hafði ekki smekk fyrir þessum þætti textans en Sólveig gerði eins gott úr honum og hægt var.

Það er gamaldags fáránleikastemning yfir þessari sýningu sem fer henni vel. Guðbergur kann enn sem fyrr að búa til hnyttin, mótsagnakennd og ögrandi tilsvör, enda skemmtu áhorfendur sér greinilega vel í gærkvöldi.

Silja Aðalsteinsdóttir