Aspas

Alltaf upplifir maður eitthvað nýtt! Í gærdag sá ég leiksýningu sem vissulega er á vegum Þjóðleikhússins en sýnd í Krónunni á Granda. Leikritið heitir Aspas og er eftir rúmenska leikskáldið Gianinu Cărbunariu. Það gerist í enskum stórmarkaði og leyfir okkur að fylgjast með hugsunum tveggja viðskiptavina, annars vegar eldri borgarans Georgs (Eggert Þorleifsson) og hins vegar farandverkamannsins Dani frá Rúmeníu (Snorri Engilbertsson).

Þeir þekkjast ekki en hafa sést áður á þessum stað og þeir vita heilmikið hvor um annan þótt þeir hafi aldrei talað saman, enda eiga þeir margt sameiginlegt. Umfram allt það að báðir eru örsnauðir. Þó er annar innfæddur íbúi í vestræna gósenlandinu en hinn fyrirlitið innflutt varavinnuafl á álagstímum, til dæmis á uppskerutíma aspasins. Þeir þvælast um grænmetisdeildina og bíða eftir að vörur sem eru að renna út verði settar á tilboðsverð rétt fyrir lokun og á meðan hlýðum við á hugsanir þeirra – um leið og við stingum vörum ofan í körfuna okkar. Þeir eru fullir af beiskju og fordómum hvor um annan, allt annað fólk sem er ekki nákvæmlega eins og þeir (og jafnvel það líka) og heiminn allan. Textinn er hnífskarpur, afhjúpandi og óþægilegur.

Það er snilldarlegt að setja verkið upp í stórmarkaði þar sem það gerist og mér skilst á viðtölum að þetta hafi ekki verið gert fyrr en hér núna. Guðrún S. Gísladóttir þýðir verkið og stýrir því líka. Hún nær góðum áhrifum úr textanum en þó datt mér stundum í hug að betra hefði verið að ívið meiri munur hefði verið á röddum þeirra Eggerts og Snorra – nema ætlunin hafi beinlínis verið að láta þær renna saman á vissum stöðum. Filippía I. Elísdóttir klæðir persónurnar og sér um umgjörðina og hún mun líka eiga hugmyndina að því að setja leikritið upp á vettvangi. Gísli Galdur Þorgeirsson á tónlistina og skapar mergjaða hljóðmyndina ásamt Aroni Þór Arnarssyni.

Það var býsna skemmtileg reynsla að vera í senn einn af mergðinni í Krónunni á annatíma og líka sérstakur. Allir sem hafa náð sér í miða á sýninguna (þeir eru ókeypis en fágætir) fá heyrnartól sem skilja þá frá öðrum viðskiptavinum. Þeir eru vissulega margir með heyrnartól á hausnum en þau eru öðruvísi. Manni leið svolítið eins og dýri í dýragarði framan af og fékk að kynnast því eina örskotsstund hvernig það er að vera leikari á sviði!

 

Silja Aðalsteinsdóttir