KonubörnÞað er alveg einstök lífsreynsla – sem við höfum nú átt þrisvar sinnum – að sitja í troðfullum tvöhundruð manna sal með unglingum og ungmennum og hlæja og gráta með þeim að frumsömdum leikverkum jafnaldra þeirra á sviðinu. Í gærkvöldi sáum við nýjasta afreksverkið í Gaflaraleikhúsinu í Hafnarfirði, Konubörn, sem sex dásamlegar rétt rúmlega tvítugar stúlkur hafa samið og leika fyrir okkur undir kraftmikilli en þó agaðri stjórn Bjarkar Jakobsdóttur. Björk er orðin langreynd í því að aga ungmenni því hún stýrði líka fyrri sýningunum tveim, Unglingnum og Heili, hjarta, typpi, svo að gneistaði af.

Konubörnin sex taka fyrir lífsskilyrði ungra kvenna á okkar dögum í mörgum stuttum og snörpum sketsum þar sem hæfileikar hverrar um sig fengu að blómstra auk þess sem þær sýndu afbragðsgóða samhæfingu í hópatriðum, til dæmis dönsunum í upphafi og lok sýningar – einkum var lokaatriðið minnisstætt og vekjandi fyrir þann stóra hóp ungra kvenna sem fyllti áhorfendasalinn. Þar nota þær m.a. lagið „All about that bass“ til að koma brýnum skilaboðum áleiðis til kynsystra sinna, þar á meðal þeim sem notuð eru í titlinum hér fyrir ofan.

Sketsurnar fjalla auðvitað um allt milli himins og jarðar eins og eðlilegt er þegar svona fjörugir hugir skapa. Útlitið, auðvitað, spurninguna um líkamsfitu, hvalalæri sem Eygló hafði þungar áhyggjur af, brjóst eða ekki brjóst, áhyggjuefni Áshildar. Sambúð, auðvitað. Heimsóknin til vinkonunnar sem er farin að búa og farin að rækta basilíku í glugganum var mjög fyndin. Samræðurnar um femínisma ætluðu mig lifandi að drepa úr hlátri. Merkileg var pælingin um hvað væri hægt að segja niðrandi um karlmenn – ekkert af því komst nálægt því sem hægt er að segja um afstyrmis-konubörnin. Skondnar vangaveltur Söru um samkynhneigð og þjakandi skilning og umburðarlyndi foreldra! Sex and the city-sjónvarpsþættina. Sjálfstæði – þar fór Áshildur á slíkum kostum að allt ætlaði vitlaust að verða í salnum. Sambandsslit – eintal Dísu um það var í senn grátlegt og fyndið.

Allar voru stelpurnar sláandi öruggar á sviði og slakar í sambandi sínu við salinn en líka makalaust flottar, fallegar og vel máli farnar. Roskinn samferðamaður minn greindi að vísu ekki alltaf orðaskil þegar textinn var fluttur á hæstu tónum, samt var ómissandi að það væri stundum gert. Textinn þeirra var auðugur, skemmtilegur, beittur. Ég vona að sem allra flestir, ungir og gamlir, kvenbörn og karlbörn, fái að njóta þessarar sýningar. Til hamingju allar!

Það er mikið leikhúsuppeldisstarf sem Gaflaraleikhúsið stundar með þessari nýju Ungmennadeild sinni eins og ég hef áður rausað um. Hér er ekki aðeins verið að ala upp stóran fjölda leikhúsáhugamanna heldur líka leikskáld framtíðarinnar. Við veltum því aðeins fyrir okkur á eftir, hjónin, hvers vegna stóru leikhúsin gerðu ekki svona. Starf af þessu tagi myndi fara Borgarleikhúsi og Þjóðleikhúsi vel. En það er Gaflaraleikhúsið sem lét sér detta þetta í hug og hafði vilja og orku til að framkvæma hugmyndina. Þeirra sómi er þeim mun meiri fyrir vikið.

Silja Aðalsteinsdóttir