Það var sannarlega gaman að sjá þær saman á sviði í Tjarnarbíó í gærkvöldi Margréti Guðmundsdóttur, Önnu Kristínu Arngrímsdóttur, Guðbjörgu Thoroddsen (Bauju) og Halldóru Björnsdóttur. Nokkur tími er síðan þessar konur sáust leika en þær hafa að sjálfsögðu engu gleymt. Sýningin var á Róðaríi, nýju fjölskyldudrama eftir Hrund Ólafsdóttur, og leikstjóri var Erling Jóhannesson.

Konurnar fjórar leika mæðgur; Margrét er móðirin Kristbjörg á tíræðisaldri og systurnar þrjár eru Sigríður (Anna Kristín), Hrafnhildur (Bauja) og Snædís (Halldóra). Þær virðast hafa lítið samband sín á milli og við móður sína en faðirinn er dáinn. Helst er það Hrafnhildur sem reynir að fylgjast með því hvernig hennar nánustu líður en það er ekki alltaf auðvelt. Viljinn til ættrækni er lítill. Systurnar eiga raunar bróður, Patrek Helga (Kolbeinn Arnbjörnsson), sem býr á æskuheimili systkinanna í sveitinni, þau Snædís eru yngst og voru náin í æsku.

Róðarí

Mynd: Kvennablaðið

Það rekur Hrafnhildi í byrjun leiks til að hafa samband við móður sína og systkini að Sigríður er orðin ansi illa farin á líkama og þó einkum sál. Sigríður er skjalaþýðandi en hefur misst vinnuna og er full af heift út í allt og alla. Leikurinn gerist heima hjá henni og hún er í miðju verksins mestallan tímann. Hún vill ekkert af sínu fólki vita þegar það kemur til að vitja um hana en Hrafnhildur er ákveðin og Snædís vill gjarnan taka á sig ábyrgð með henni. Móðirin er komin hálf út úr heiminum og veit ekki nema stundum hvaða fólk er í kringum hana. Þetta fullorðna fólk getur ekki verið blessuð litlu börnin sem henni þótti einu sinni svo falleg og góð. En ef hún er köld við börn sín eru börnin ekki síður köld við hana – enda kemur smám saman fram að þeim finnst hún hafa svikið þau þegar mest á reyndi í sambúðinni við föðurinn sem var ofbeldismaður. Sárar minningar tengdar honum skjóta upp kollinum í samtölum systkinanna og valda miklum sviða og jafnvel æsingi svo að stundum var erfitt að heyra orðaskil. Það þarf að laga.

Samspil og leikur kvennanna fjögurra var góður, stundum mjög áhrifamikill. Anna Kristín lék sína hrjáðu persónu afburðavel og vakti einlæga samúð. Margrét dró upp skýra mynd af konu sem lifir ekki lengur í raunveruleikanum nema að hluta. Hrafnhildur og Snædís eru báðar sterkar konur en hvor á sinn hátt eins og kom vel fram hjá Bauju og Halldóru. En galli fannst mér á sýningunni þegar á leið hvað hún var hæg. Stundum var hún eins og óráðin í því hvert hún væri að fara og það sótti á mann óöryggi úti í áhorfendasal. Þetta á eflaust eftir að lagast við fleiri rennsli. Leikmynd Frosta Friðrikssonar var fremur óhentug; það er erfitt fyrir fólk að vera sífellt að príla upp og niður kassa. Búningar Þórunnar Maríu Jónsdóttur voru allir mjög ljósir sem gaf sýningunni snotran heildarblæ en mér fannst óhreinindablettirnir helst til áberandi tákn og hljóðmynd Garðars Borgþórssonar var líka dálítið uppáþrengjandi.

Það er mikill fengur að verki með fjórum bitstæðum kvenhlutverkum og ástæða til þess bæði að hvetja leikhúsáhugamenn að sjá sýninguna og Hrund til frekari skrifa.

Silja Aðalsteinsdóttir