Síðastliðinn föstudag var leikritið Prinsessuleikarnir eftir Elfriede Jelinek frumsýnt í Borgarleikhúsinu í leikstjórn Unu Þorleifsdóttur. Raunar voru það ekki nema þrír fimmtu hlutar af verki Jelinek sem rötuðu á Nýja sviðið. Verkið, sem heitir Prinzessendramaen á frummálinu og byggir á skáldsögu höfundarins, Dauðinn og stúlkan, fjallar um fimm prinsessur, Mjallhvíti, Þyrnirós, Jackie Kennedy, Díönu og Rosamunde.

Þær þrjár „prinsessur“ úr verki Jelinek sem hér stíga fram eiga margt sameiginlegt. Það er ekkert sældarlíf að vera prinsessa, hvort sem henni hlotnast draumaprinsinn eða ekki. Fyrsti hluti verksins er helgaður Mjallhvíti. Birgitta Birgisdóttir birtist okkur í gervi hennar sem rímar fullkomlega við þá ímynd sem við höfum flest af henni og Walt Disney á höfundarétt að. Mjallhvít vaknar ein í sinni glerkistu í ævintýraskógi, sem ólíkt því sem gerist í teiknimyndinni og flestum útgáfum sögunnar er fullur af dauða. Dýrin sem hún kjassar og klappar eru uppstoppuð og lífvana og dvergarnir hvergi sjáanlegir. Í sögu hennar er enginn prins, aðeins veiðimaðurinn, fulltrúi dauðans eða kannski dauðinn sjálfur eins og kemur á daginn. Bergur Þór Ingólfsson er í hlutverki veiðimannsins og tekst vel að búa til úr honum ísmeygilega og svolítið klúra mynd.

Gervi Völu Kristínar Eiríksdóttur í hlutverki Þyrnirósar er um sumt keimlíkt gervi Mjallhvítar. Hún er glansmynd af prinsessu svo stappar nærri skopstælingu. Ólíkt Mjallhvíti fær Þyrnirós sinn draumaprins sem leikinn er af Jörundi Ragnarssyni. En þar með er ekki allt fengið. Prinsinn reynist vera bæði narsissískur og kynóður og minnir raunar ekki lítið á Prince Charming úr teiknimyndunum um Shrek – þótt sjálfum þyki honum nærtækara að líkja sér við guð almáttugan. Prinsinn er kómískasta hlutverkið í sýningunni og Jörundur er þar á algerum heimavelli. Hann birtist okkur aftur í lokahluta verksins í gjörólíku hlutverki Johns F. Kennedy, bæði sem líks og afturgöngu.

Þar sem dauðinn er yfir og allt um kring í sögu Mjallhvítar tekur kynlífið öll völd í heimi Þyrnirósar og prinsins. Í þriðja hluta verksins, þeim sem helgaður er Jackie Kennedy, má segja að þessi tvö þemu komi saman, dauðinn og kynlífið. Sólveig Arnarsdóttir í hlutverki Jackiear snýr baki í áhorfendur í upphafi síns þáttar. Hún er aðeins klædd í undirföt og nauðasköllótt, gervið gefur tilfinningu fyrir nekt og berskjöldun sem Jackie reynir síðan hvað hún getur til að klæða af sér. Hér, líkt og í öðrum hlutum sýningarinnar, vinna búningar, leikbrúður og sviðsmynd með textanum, dýpka hann og bæta við hann.

Þessi hluti verksins er raunsæislegastur og hér verða tilfinningarnar meiri og raunverulegri. Jackie lýsir sér og eiginmanninum, ásamt þekktustu hjákonu hans, Marilyn Monroe, af umtalsverðri grimmd og miskunnarleysi. Sá prins sem henni hlotnaðist og sem heimurinn, ekki síst aðrar konur, elskuðu reynist hafa verið samviskulaus svikari sem jafnvel bar ábyrgð á dauða barna þeirra, fæddra og ófæddra.

Texti Jelinek er ekki auðveldur viðfangs. Hann er flókinn, blæbrigðaríkur og oft abstrakt í afbragðs þýðingu Bjarna Jónssonar. Textinn einkennist af orðaleikjum og margræðni sem hann leysir vel. Í verkinu eru engin samtöl heldur felst hann allur í einræðum sem persónurnar halda yfir sjálfum sér, hver annarri og áhorfendum. Mjallhvít og Þyrnirós fá mótleikara, veiðimanninn og prinsinn, sem líka halda einræður en Jackie hefur ein orðið í sinni sögu, mótleikarinn er enda ekki lengur á meðal hinna lifandi eins og myndbandið af morðinu á John F. Kennedy, sem er spilað í sífellu á skjá á sviðinu í upphafi þáttarins, minnir okkur á.

Það mæðir eðlilega mest á leikkonunum þremur sem flytja sínar lotulöngu einræður með glæsibrag en hlutverkin eru ólík. Hlutverk Mjallhvítar og Þyrnirósar eins og þau eru lögð upp hér bjóða upp á ýktan og kómískan leik, en þær eru ævintýrapersónur og tilfinningar þeirra verða aldrei verulega mannlegar. Birgitta og Vala skila þessum hlutverkum vel. Eftir hlé skiptir sýningin allhraustlega um gír og á sviðinu birtast atburðir og persónur sem eiga sér raunverulegar og þekktar fyrirmyndir. Og það verður að segjast að Sólveig Arnarsdóttir er algerlega mögnuð í hlutverki Jackiear. Hennar þáttur er lengstur, rúmlega klukkutími að lengd, og hún hefur orðið allan tímann. Hún nær að búa til persónu sem er mótuð af umhverfi sínu, feðraveldi og valdakerfi sem hún gengur inn í eins og henni er ætlað, án þess að gera uppreisn. Sólveig birtir okkur bæði yfirborð og innra byrði þessarar konu – hvort hún eigi sér einhvern kjarna er svo annað mál. Lýsing hennar á lífi sínu vekur óhjákvæmilega samlíðan áhorfandans en hún er líka uppfull af stéttarhroka og yfirdrepsskap svo manni getur auðveldlega ofboðið. Þótt eiginmaðurinn og það kerfi sem hann stendur fyrir sé stóri skúrkurinn í sögunni hlífir höfundurinn henni ekki. Meðferð Sólveigar á textanum ein og sér er afrek, en allt fas hennar og ekki síst samband hennar við salinn gerir að verkum að það er ekki hægt að kalla frammistöðu hennar annað en leiksigur.

Prinsessuleikarnir eru ekkert léttmeti. Hér er tekist á við stórar spurningar. Goðsögur, gamlar og nýjar, sem móta skilning okkar á heiminum og ekki síst hlutverki kynja og stétta í honum, eru tættar í sundur og afbyggðar markvisst og miskunnarlaust. Frammistaða leikaranna allra er frábær, og einnig  heildarmyndin sem sköpuð er af leikstjóranum Unu Þorleifsdóttur; Mirek Kaczmarek sem ber ábyrgð á leikmynd, búningum, lýsingu og leikgervum; Gísla Galdri Þorgeirssyni sem semur tónlistina og hljóðmynd ásamt Jóni Erni Eiríkssyni.

Jón Yngvi Jóhannsson