HreinsunÍ gærkvöld var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu leikritið Hreinsun eftir Sofi Oksanen undir stjórn Stefáns Jónssonar. Leikritið var fyrst sýnt í Finnska þjóðleikhúsinu 2007 og í framhaldi af því samdi höfundur skáldsögu með sama nafni um sömu persónur, og hún hefur farið eins og logi yfir evrópskan bókmenntaakur síðan. Sigurður Karlsson þýddi bæði leikverkið og skáldsöguna prýðilega. Sem útgáfustjóri Sofi Oksanen á Íslandi ætti ég kannski ekki að dæma leiksýninguna en get alls ekki stillt mig.

Leikritið skilar ótrúlega miklu af efni bókarinnar þó að texti þess sé eðlilega mun styttri. Ýmislegt vantar auðvitað, til dæmis minnisstæðar útlistanir á fyrirlitningunni sem Aliide verður fyrir eftir að hún giftist Rússadindlinum Martin – og fyrirlitningu hennar á sjálfri sér fyrir það sama. Og eistnesk pólitík á 20. öld, svo flókin sem hún er, verður líklega þeim sem ekki þekkja til óljós eftir kvöldið. En svikin og sárindin, ástríðurnar og afbrýðisemin urðu skýr og lifandi á sviðinu. Og manni varð vel ljóst að það er sama hvort er stríð eða friður, konur verða alltaf illa úti.

 

Hreinsun er dýrmætt stykki ekki síst vegna þess að í því eru þrjú stór kvenhlutverk sem gera nærri ofurmannlegar kröfur til þeirra sem taka þau að sér. Það var mikil reynsla að verða vitni að því í leikhúsinu í gær hvernig leikkonurnar þrjár tóku á verkefni sínu, hver á sinn hátt en allar þannig að seint gleymist. Margrét Helga Jóhannsdóttir leikur Aliide í samtímanum (nánar tiltekið á tíunda áratugnum), gamla beiska konu sem er hundelt af óknyttastrákum í nágrenninu vegna sambands síns við Rússadindla í fortíðinni. Margrét Helga varð risastór í hlutverkinu, ógnþrungin, bar með sér hverja mínútu alla sína sögu, glæpina sem hún hafði framið, allt það sem hún hafði gengið í gegnum um ævina og sem við sjáum í fyrsta og óhugnanlegasta atriði leiksins. Það er hreinn sjokkeffekt.

Arnbjörg Hlíf Valsdóttir leikur Zöru, stúlkuna sem Aliide finnur í garðinum sínum, hörmulega á sig komna. Zara reynir að ljúga sig út úr aðstæðunum en fljótlega kemur fram að hún er á flótta undir ofbeldismanni sem hefur gert hana út og á fótum sínum fjör að launa. Arnbjörg hlífði okkur ekki við angist og kvöl persónunnar heldur gaf rækilega í og leyfði henni svo að þróast þaðan í þá sterku og þolgóðu stúlku sem hún er.

Vigdís Hrefna Pálsdóttir leikur Aliide unga sem varð þegar leið á verkið aðalpersóna þess – þegar fortíðin er svipt hulu sinni og saga þessarar hrjáðu konu kemur smám saman fram. Vigdís Hrefna vann hlutverkið fádæma vel uns hún gekk manni algerlega að hjarta. Það er mikil gæfa íslensku leikhúsi að eiga listamenn á borð við þessar þrjár leikkonur.

Hreinsun

Karlmennirnir stóðu þeim heldur ekki að baki þótt ekki reyndi eins mikið á þá. Stefán Hallur Stefánsson leikur Hans Pekk, manninn sem Aliide elskar hamslaust þótt hann sé mágur hennar og felur hann árum saman í byrgi í húsi sínu. Stefán bjó til skýra persónu úr þessum manni sem kaupir lífið of dýru verði, og samspil þeirra Vigdísar, þar sem annað elskar en ekki hitt, var nístandi. Þorsteinn Bachmann leikur Martin Truu, eiginmann Aliide, og var sú viðurstyggð lifandi komin! Pasha pimpara leikur Ólafur Egill Egilsson og bjó til svo óvænta týpu að ég þurfti að rýna í leikskrána til að gá hver það væri sem léki. Þó var hann ekki í neinu teljandi gervi, ekki með hárkollu eða neitt, hann var bara nýr. Og ógeðslega áhrifamikill. Pálmi Gestsson leikur Lavrenti aðstoðarmann hans og var alveg eins aumleg týpa og hann átti að vera.

Sviðið sem Ilmur Stefánsdóttir ber ábyrgð á kemur á óvart. Ég átti von á þrengslum en ekki víðernum en þau virkuðu afar vel. Og allir smáhlutirnir innan dyra sem mér skilst að komi beint frá Eystrasaltslöndum stálu athygli manns alltaf þegar færi gafst. Tónlist Pauls Corley var áhrifamikil. Búningar Þórunnar Maríu Jónsdóttur úthugsaðir. Það gefur auga leið að Stefán Jónsson hefur fulla stjórn á sínu öndvegisliði hvaða hlutverk sem það fær.

Ég ítreka að Sofi Oksanen samdi leikritið á undan skáldsögunni þannig að það þarf ekki að lesa hana fyrst (þó að það geri ekkert til). En þeir sem ekki hafa lesið söguna ættu að gera það eftir sýninguna. Þá fá þeir ennþá meira til að hugsa um.

 

Silja Aðalsteinsdóttir