Það var mikið húrrað og bravóað í Tjarnarbíó í gærkvöldi að lokinni frumsýningu Árna Péturs Guðjónssonar á einleiknum Svikaranum undir stjórn Rúnars Guðbrandssonar enda sannarlega mikið sjónarspil sem áhorfendur höfðu orðið vitni að. Árni Pétur hafði þá sungið og dansað, æpt og stunið, skipað og skammað, hlegið og grátið samfellt í fimm korter, líka skipt stöðugt og föt enda var að hann að leika þrjár konur, jafnvel líka karlmann að leika þrjár konur, svo ekki veitti af.

SvikarinnMeðan hreppsnefndarmenn voru almennt karlkyns sagði einhver að ef maður vildi koma heilli sveit til að hlæja sig máttlausa væri nóg að klæða hreppsnefndina í kvenmannsföt og setja hana upp á svið. En það var ekkert sérstaklega hlægilegt að horfa á Árna Pétur í flottu kjólunum hennar Filippíu Elísdóttur sem hann kom aldrei að sér í bakið eða gagnsæju undirfötunum, eiginlega vakti það fremur aðdáun manns hvað hann var ótrúlega öruggur á ofurhælunum og hreyfði sig lipurlega í dansatriðunum. Efnið er heldur ekkert til að hlæja að. Verkið byggja þeir Árni Pétur og Rúnar á Vinnukonunum eftir Jean Genet sem í stuttu máli sagt fjallar um tvær systur sem þjóna fínni frú og þrá ekkert heitar en koma henni fyrir kattarnef. Þegar hún er ekki heima leika þær morðið á henni aftur og aftur en eru samt aldrei “búnar” þegar hún kemur heim og truflar leikinn.

Því fer fjarri að Árni Pétur fylgi atburðarás Vinnukvennanna í Svikaranum og eiginlega var ég litlu nær um það leikrit að sýningu lokinni. Þetta sem við sjáum er eins konar túlkun á því en líka úrvinnsla á kynnum hans af leikritinu og öðrum verkum Genets frá því að hann var unglingur, aðdáun hans á honum og jafnvel úrvinnsla á eigin minningum úr bernsku. Við vitum í sjálfu sér aldrei fyrir víst hvenær hann er að leika texta Genets (nema ef til vill þeir sem þekkja það verk vel), við vitum heldur ekki hvenær hann er að leika þessa systurina og hvenær hina því hann hélt þeim ekki endilega aðgreindum með fasi eða rödd, og óvíst fannst mér líka hvort við sæjum frúna einhvern tíma sjálfa eða hvort það var önnur hvor systirin sem var að leika hana þegar hún birtist á sviðinu.

Fólk ætti því ekki að fara í Tjarnarbíó með þær væntingar að sjá leikritið Vinnukonurnar eftir Jean Genet. Í staðinn á það að fara til að sjá karl stríplast á sviði og láta öllum látum við að leika tvær konur sem langar til að drepa þá þriðju.

Sviðsmynd Filippíu er falleg og snjöll og á sinn þátt í því að líklega verða stakar myndir úr sýningunni lífseigastar í minningunni, til dæmis af miðaldra karlmanni í hvítum síðkjól með glæsilegu fjaðraskrauti sem grætur fjórfaldur – því speglarnir eru þrír – á miðju gólfi sem þakið er stórum litríkum blómum. Svo elegant – og svo átakanlegt. Jean Genet hefði fílað það.

 

Silja Aðalsteinsdóttir