Bíddu bara

Það var mikið hlegið í Gaflaraleikhúsinu í gær á frumsýningunni á Bíddu bara, samtali með söngvum eftir leikkonurnar þrjár sem flytja það, Björk Jakobsdóttur, Selmu Björnsdóttur og Sölku Sól Eyfeld, enda allar framúrskarandi gamanleikkonur. Kostulegir söngtextarnir eru líka eftir leikkonurnar en Karl Olgeirs kom að samningu flestra laganna með þeim. Leikstjóri er Ágústa Skúladóttir sem hefur löngu sannað hvað hún hefur óbrigðulan smekk fyrir kímni. Leikmynd Þórunnar Maríu Jónsdóttur er einföld – baktjald sem minnir á fóður í konfektkassa og tók á sig ótal litbrigði eftir þörfum efnisins og langur, rauður „bekkur“ í tveim hlutum sem ýmist var sæti eða söngpallur. Búningarnir voru líka einfaldir en þénugir, hvít blússa eða mussa og svart vesti.

Þær koma hreint fram í sýningunni; þær heita Björk, Selma og Salka Sól og eru þær sem þær eru. Þær eru fæddar með um það bil tíu ára millibili, plús mínus, þannig að saman gefa þær nokkuð breiða mynd af kvenlegu hlutskipti. Og þær segja frá lífi sínu eins og það kemur þeim fyrir sjónir en ýkja það, teygja og toga í allar áttir á hinn stórkarlalegasta hátt! Og af því að þær eru allar fallegar og hæfileikaríkar konur sem aðrar konur öfunda vinna þær ötullega að því að sýna okkur bakhliðina á þeirri glæsilegu mynd:

Salka Sól er ólétt að öðru barni sínu og segir frá draumum sínum um að vera gellumamma með fullkominn líkama eftir fullkomna fæðingu en í rauninni er hún gyllinæðarmamma sem felur sig bak við slæðu og sólgleraugu í apótekinu af því hvað það er óþægilegt að biðja um réttu lyfin þegar maður er hún.

Selma hefur náttúrlega verið stjarna frá því hún lék Sandy í Grease fyrir rúmum tuttugu árum og enn les maður forvitinn fréttir af ævintýrum hennar en hún miklar sig ekki hér af sigrum sínum heldur lýsir skilnaði við barnsföður sinn og lífi sínu sem einstæð móðir sem þarf að vera í sex vinnum til að láta enda mætast. „Mömmulag“ hennar við gífurlega orðmargan og makalaust snjallan texta Bjarkar var beinlínis afrek. Enda ætlaði þakið af húsinu, slíkur var fögnuður áhorfenda!

Björk átti erfiðast með að sannfæra okkur um að það gæti verið leiðinleg bakhlið á skemmtilegu og skapandi lífi hennar með gleðigjafanum Gunnari Helgasyni enda reyndi hún það ekki af neinni alvöru. Lýsing hennar á „rómantísku kvöldi gamalla hjóna“ var þó drepfyndið.

Nokkur lögin í sýningunni ættu virkilega skilið að verða langlíf. Fyrir utan „Mömmulag“ var til dæmis „Kvíðalag“ þeirra Sölku og Selmu merkilega upplýsandi um allt sem getur hrjáð kvenfólkið og „Foreldralagið“, lagið um erfðamálin sem Salka flutti af óviðeigandi innlifun við andstyggilegan texta Bjarkar var einstæð upplifun!

Niðurstaðan sem leikhúsgestir draga af þessari afhjúpun er sú að líklega sé svona bakhlið víða að finna á snotru og stílhreinu instagram-lífunum sem við sjáum á netinu, ef við fengjum bara tækifæri til að kíkja á bak við. Ásamt frelsandi hlátrinum gerir þetta Bíddu bara að ákaflega hollri skemmtun.

 

Silja Aðalsteinsdóttir