Þjóðleikhúsið býður nú upp á hádegisleikhús í Þjóðleikhúskjallaranum, nýbreytni sem ber að fagna. Fyrsta verkið á dagskrá er Út að borða með Ester eftir Bjarna Jónsson, hálftímalangt stykki sem gerist á veitingahúsi þannig að við áhorfendur erum eðlilegt umhverfi leikaranna. Boðið er upp á súpu og brauð sem hvort tveggja var vel útilátið á sýningunni í dag.

Haukur (Sigurður Sigurjónsson) hefur boðið Ester (Guðrún S. Gísladóttir) í hádegismat. Þau þekkjast frá Kanarí og það má reikna út að þau hafi lengi verið svolítið spennt hvort fyrir öðru, hann þó spenntari fyrir henni en hún honum. Hún var gift en er nú orðin ekkja og á greinilega erfitt með að sleppa minningunni um manninn sinn heitinn, hann Jóa. Það gerir Hauk – sem á annars konar helsi í sinni fortíð – rosalega pirraðan að Ester skuli stilla upp þriðja stól við borðið, handa Jóa. Hann skilur ekki hvað Ester heldur fast í Jóa, eins og hún var djörf að bylta lífsvenjum sínum þegar hún gerðist vegan á gamals aldri. Má ekki á milli sjá hvort ergir Hauk meira, veganisminn eða þriðji stóllinn! Hann er sjálfur ástríðufull kjötæta og verður beinlínis ljóðrænn þegar hann talar um nautalundir.

Þetta er bráðskemmtilegt verk sem teiknar upp forvitnilegar myndir af tveim gömlum kunningjum sem eru stödd á ákveðnum krossgötum í lífinu og spurning hvert þau halda að máltíðinni lokinni. Sigurður og Guðrún léku sér að þessum persónum á listilega lipran hátt og voru eins og heima hjá sér á þessu óvenjulega sviði. Gréta Kristín Ómarsdóttir hefur líklega ekki þurft að hafa mikið fyrir því að stýra þeim. Sviðið var á dansgólfinu í Kjallaranum með áhorfendur allt í kring, einfalt og þægilegt þótt ég missti af einstaka svip og hreyfingu leikaranna þegar þau lentu á bak við súlu frá mér séð. Eva Signý Berger sá um leikmyndina og búningana líka sem voru mettaðir sólskini eins og þessir sólarstrandabúar sem óvart eru fastir á Íslandi um hríð.

Silja Aðalsteinsdóttir