Það er ys og þys í Ævintýraskóginum í Tjarnarbíó þar sem Leikhópurinn Lotta frumsýndi í dag Rauðhettu sína, tíu árum eftir að hún var fyrst sýnd í Elliðaárdalnum. Enn er Rauðhetta litla (Andrea Ösp Karlsdóttir) að reyna að komast til ömmu sinnar (Anna Bergljót Thorarensen) með kökur og vín en úlfurinn slyngi (Árni Beinteinn Árnason) hefur áhuga á að éta allt nestið sjálfur og ömmu og Rauðhettu í ofanálag.

Og Rauðhetta er sannarlega ekki ein á ferli í skóginum þennan dag. Þar er líka veiðimaðurinn (Stefán Benedikt Vilhelmsson) ásamt börnum sínum þeim Hans (Sigsteinn Sigurbergsson) og Grétu (Anna Bergljót). Veiðimaðurinn býr við slíkt konuríki að hann hefur verið rekinn á skóg til að reyna að losna við krakkana af fóðrum því ekkert er til að éta í kotinu. Úlfurinn sýnir þeim systkinum lítinn áhuga, hann girnist mun meira grísina þrjá, Grís (Anna Bergljót), Grís (Sigsteinn) og Grís (Stefán Benedikt) sem reyna í flýti að koma sér upp húsum til að fá skjól fyrir honum. Sú saga endar í áróðri fyrir múrsteinum sem byggingarefni.

Nornin (Andrea Ösp) hefur mun meiri áhuga á börnum veiðimannsins og er komin með Hans í búr og Grétu í ráðskonustarfið þegar úlfurinn nær tveim grísum með því að blása húsin þeirra um koll. Það var sjón að sjá hann éta þá! En hann er eins og Gípa, fær aldrei nóg. Þó þarf hann að leggja sig í rúm ömmu þegar hann hefur líka sporðrennt gömlu konunni („ekkert jafnast á við rauðvínsleginn eldri borgara“) og slafrað í sig stelpuna innan úr rauðu hettukápunni! Þar finnur veiðimaðurinn hann á heimleið með börnin sín og hið fornkveðna sannast: Það reddast alltaf allt fyrir rest – nema auðvitað fyrir úlfinn.

Hér er sem sé unnið með þrjú ævintýri, Rauðhettu, Grísina þrjá og Hans og Grétu. Með því að hafa veiðimanninn úr Rauðhettu pabba systkinanna getur úlfurinn tengt allar sögurnar, það er minni háttar svindl sem kemur vel út. Tilfinningin er virkilega að hér í skóginum séu „öll ævintýrin að gerast“ eins og segir í Skilaboðaskjóðunni hans Þorvalds Þorsteinssonar.
Handritið að upprunalegu sýningunni er eftir Snæbjörn Ragnarsson en ýmislegt hefur bæst við núna áratug seinna, meðal annars ótal vísanir í samtímann. Félagar mínir, Arnmundur og Aðalsteinn, sem þekkja vel diskinn með gömlu sýningunni sögðu að einkum hefði texti úlfsins fitnað á árunum á milli sýninga. Úlfurinn hafði líka fengið ýmis hjálpartæki sem ekki voru til þá, til dæmis dróna til að leita að Rauðhettu í skóginum og hjól undir afturlappirnar til að komast fljótar yfir. Árni Beinteinn er nýr í hópnum (enda nýútskrifaður leikari frá LHÍ) en var eins og fiskur í vatni, skemmti sér ekki síður en börnin í salnum.

Að venju er fjöldi söngva í sýningunni, þeir eru eftir Snæbjörn, Baldur Ragnarsson og Gunnar Ben. Söngtextana eiga þeir líka ásamt Önnu Bergljótu. Allt saman bráðlipur lög en ekki sérlega minnisstæð. Dansar Berglindar Ýrar Karlsdóttur og Ágústu Skúladóttur leikstjóra voru flestir einfaldir og nokkuð staðlaðir; best tókst dans grísanna og Rauðhettu, þótti mér, og svo bráðskemmtilegir dansleikir úlfsins.

Leikmyndin er eftir Andreu Ösp, Ágústu og Sigstein og hún er bæði einföld og þénug. Það er hægt að búa til ótrúlega margt í hvelli úr hreyfanlegum staurum. Auk þeirra svifu inn á sviðið dúkkuhús þegar við vorum heima hjá veiðimanninum og norninni og afar skemmtilega var skipt yfir í leikbrúður þegar þurfti til dæmis að stinga norninni inn í bakaraofn. Búningar og leikgervi Rósu Ásgeirsdóttur voru litrík, allgrótesk mörg en mikið fyrir augað og það er alveg með ólíkindum hvað leikararnir voru fljótir að skipta um gervi – þegar Hans og Gréta urðu á einni mínútu gersamlega óþekkjanlegir grísir, til dæmis! Ljósahönnun Ólafs Ágústs Stefánssonar var vel heppnuð og hljóðmynd Þórðar Gunnars Þorvaldssonar fín og stundum verulega flott.
Rauðhetta Leikhópsins Lottu er dillandi skemmtileg sýning og hæfilega hættuleg. Þó er hún varla fyrir yngri en fjögurra ára nema viðkomandi sé þegar vanur leikhúsi. Textinn er fyndinn, bæði fyrir börn OG fullorðna, og músíkin áheyrileg. Stuðboltinn Ágústa leikstjóri sér um að allir fái að njóta sín og sinna sérstöku hæfileika á sviðinu og í salnum leiðist sannarlega engum.

-Silja Aðalsteinsdóttir