Nei, Dorrit!Mánudagsleikhúsið fór af stað með hvelli í Iðnó í gærkvöldi. Þá var fyrsta og eina sýningin á leikritinu Nei, Dorrit! sem Þórarinn Leifsson byggði á frægu viðtali Joshua Hammer við íslensku forsetahjónin frá því snemma árs 2009; Auður Jónsdóttir stýrði. Nú er viðtal eiginlega leikrit og þetta viðtal er nógu djúsí til að standa lítt breytt sem slíkt enda virðist Þórarinn fyrst og fremst stytta það til að koma því í ákveðinn ramma. Það væri þó ólíkt Þórarni að skipta sér ekki pínulítið af og hann gefur hundinum Sámi mál þegar mikið liggur við – sem vakti innilega hrifingu áhorfenda.

Þetta viðtal vakti athygli þegar það var birt fyrst en drukknaði í atburðunum sem þá fóru í hönd, búsáhaldabyltingu með tilheyrandi látum og eftirköstum. Það er verulega vel til fundið að rifja það upp fyrir okkur núna þegar heildarskýrslan yfir efnahagshrunið er komin út. Viðtalið er eins konar neðanmálsgrein við hana, mjög merk og athyglisverð neðanmálsgrein. Maður sveiflast milli undrunar og hneykslunar lengi vel en fyllist smám saman af meðaumkun um leið og maður hlær. Þetta fólk á eiginlega bágt þrátt fyrir hlægilega íburðarmikla ímyndina sem þau reyna að skapa af sér.

Forsetahjónin voru túlkuð af myndlistarmönnunum Snorra Ásmundssyni (sem einu sinni bauð sig fram til forseta, sællar minningar) og Ásdísi Sif Gunnarsdóttur. Mikill munur var á leikhæfileikum þeirra og getu til að læra texta utanbókar. Snorri hvarf í skuggann nema í einstaka setningum þegar Ólafur skammaði konu sína en Ásdís Sif var prýðileg Dorrit og uppskar mikinn hlátur og fögnuð í húsinu. Davíð Þór Jónsson tónlistarmaður lék Hammer og gerði það myndarlega, einkum borðaði hann veislumatinn á Bessastöðum af innilegri lyst. Guðrún Ásmundsdóttir lék þögult hlutverk þernunnar af stakri snilld en stjarnan í sýningunni var þó Kristín Anna Valtýsdóttir í hlutverki Sáms.  Hljóðmynd Ragnars Kjartanssonar var verulega truflandi á köflum (eins og hún átti eflaust að vera).

Þetta var gleðistund í gamla leikhúsinu eftir þjáningarfullan dag, þann fyrsta í skýrslu. Vonandi er Mánudagsleikhúsið ekki bundið við hann.

 

Silja Aðalsteinsdóttir