HetjaÞað eru rúm níu ár síðan ég sá Hjartaspaða í Gaflaraleikhúsinu, fyrstu leiksýninguna sem ég hafði séð þar sem leikið var með heilgrímur. Þó að afar vel tækist til hefur leikurinn ekki verið endurtekinn, svo ég viti til – fyrr en nú og þá af sömu aðilum, Skýjasmiðjunni. Hún frumsýndi um síðustu helgi verkið Hetju í Tjarnarbíó undir öruggri stjórn Ágústu Skúladóttur, sem fyrr, og þátttakendur eru Aldís Davíðsdóttir leik- og grímugerðarkona og leikararnir Stefán Benedikt Vilhelmsson og Orri Huginn Ágústsson, enn sem fyrr, auk leikaranna Ellenar Margrétar Bæhrenz og Fjölnis Gíslasonar.

Heilgrímur þýðir nákvæmlega það, gríman hylur allt höfuðið þannig að ekki heyrist talað orð heldur „tala“ þátttakendur með líkama sínum, hreyfingum og látbragði. En látbragðsleikurinn verður auðvitað sérlega snúinn þegar ekki er hægt að beita svipbrigðum að vild.

Hjartaspaðar gerðust á elliheimili, Hetja gerist á spítala. Þar er mikill erill allan sólarhringinn, spítalinn er greinilega undirmannaður og þegar unglæknir (Ellen Margrét) kemur á sína fyrstu vakt ætlar að líða yfir hana þegar hún skoðar fyrsta verkefni sitt. Það sér yfirlæknirinn (Orri Huginn) og sýnir henni strax skilning og samúð, hann tekur erfiða verkefnið af henni og lætur hana hafa annað auðveldara. Þannig er ljóst frá upphafi að þetta er mannúðleg stofnun þó að allir vinni undir ómanneskjulegu álagi. Þegar læknirinn sýndi merki um vondan verk í vinstri öxl og handlegg fann ég svo til með honum að ég fékk sáran verk sjálf á sama stað! En þótt hann sýni okkur áhorfendum þessi merki um vanlíðan gætir hann þess vel að þau sjái enginn samstarfsmaður.

Eina drumbslega manneskjan á þessum spítala er matráðskonan (Aldís) en jafnvel hún mýkist mjög þegar hún verður skotin í húsverðinum (Fjölnir) og þau eiga saman elskulega hliðarsögu í allri geðveikinni.

Atið og patið verður allsráðandi þegar rauða ljósið blikkar og hávaðinn í sjúkraþyrlu glymur um sviðið – rosa flott þegar skugginn af þyrlunni líður yfir baksviðið. Þá má ímynda sér að álagið fari frá því að vera mikið í að verða ofurmannlegt og fólk þýtur í allar áttir þannig að við fáum tilfinningu fyrir stórum stað þótt sviðið sé lítið.

HetjaEn í kringum einn sjúkling á spítalanum ríkir ástúðleg ró og hlýja. Barnið (Aldís) er langveikt og gefið er í skyn að það sé langt leitt. Á því eru gerðar rannsóknir til að fylgjast með áhrifum meðferðar og lyfja en depurðin og svartsýnin eru augljós í fasi yfirlæknisins þegar niðurstöður eru skoðaðar. En öll passa þau vel að láta barnið ekki verða vart við óttann heldur reyna að gera allt til að láta því líða sem best – annar unglæknirinn (Stefán Benedikt) leikur við hann og hinn (Ellen Margrét) dansar listdans fyrir hann. Það var undurfallega gert. Ekki var síst heillandi atriðið þegar gólfmoppurnar breyttust í káta hvolpa!

Barnið tekur sjálft til sinna sérstöku ráða einsamalt og einmana að næturlagi þegar það fær spegilmynd sína til við sig; það var ólýsanlega áhrifamikið atriði.

Sviðsmyndin er einföld en þénug. Á bakvegg er hurð sem oftast er fyrir lyftudyrum en innan við hana getur líka verið rannsóknartæki. Inn og út úr lyftunni er ekið rúmi barnsins en einnig má fara út af sviðinu báðum megin. Hljóðheimurinn er myndaður bæði úr tónlist og kunnuglegum sjúkrahúshljóðum sem undirstrikuðu efnið og áhrifin.

Orðleysið er ekki vandamál. Við vitum hvað persónurnar eru að hugsa þótt ekki heyrist þær segja neitt. Og merkilegt er hvað grímurnar taka á sig fjölbreytt svipbrigði þó að auðvitað séu þær með fasta andlitsdrætti. Með hreyfingum sínum stjórna leikararnir því hvernig ljósið fellur á grímurnar og maður efast ekki um að ýmist séu þeir ánægðir eða sorgmæddir, fúlir eða glaðbeittir. Þetta er mikil list og skemmtileg og Hetja er dálítil kraftaverkasýning, ólík öllu öðru á fjölunum.

 

Silja Aðalsteinsdóttir