Íslenska óperan frumsýndi í gærkvöldi vinsæla óperu Puccinis frá 1904, Madama Butterfly, með kóresku sópransöngkonunni Hye-Youn Lee í aðalhlutverki. Leikstjórinn Michiel Dijkema gerði einnig leikmyndina sem var eins og klassísk smámynd frá Japan í gamla daga með hænsnastiga og bonsai-tré og allt. Hljómsveitarstjóri var Levente Török, Magnús Ragnarsson stjórnaði kórnum, María Th. Ólafsdóttir skapaði öllum viðeigandi búning og Þórður Orri Pétursson sá um lýsinguna sem var töfrandi þegar mikið lá við. Til dæmis var alger galdur að fylgjast með dagrenningunni undir forleiknum í upphafi þriðja þáttar og sjá hvernig ljósið umbreytti öllu umhverfinu áfram og áfram.

Margar sögur hafa verið sagðar gegnum tíðina af ástarævintýrum bandarískra hermanna og kvenna í löndum sem þeir hafa hersetið, sumar þeirra mjög frægar, ég minni bara á South Pacific. Þessar sögur verða sérstaklega átakanlegar þegar menningarmunurinn er mikill (meiri en til dæmis milli bandarískra hermanna og íslenskra kvenna) og þegar viðföng hermannanna eru börn eins og stúlkan Cio-Cio San (Hye-Youn Lee) í Madama Butterfly. Hún er aðeins fimmtán ára þegar hjónabandsmiðlarinn Goro (Snorri Wium) útvegar Pinkerton sjóliðsforingja (Egill Árni Pálsson) hana sem „brúði“. Butterfly tekur samband þeirra háalvarlega, gengur af trú forfeðranna og tekur kristni og veit ekki betur en hjónaband þeirra sé gilt samkvæmt bandarískum lögum. Og hún efast jafnvel ekki eftir þriggja ára fjarveru hans um að hann muni koma aftur og viðurkenna son þeirra (Tómas Ingi Harðarson) sem hann veit ekki að er til.

En Pinkerton var aldrei alvara og þegar hann kemur aftur hefur hann bandaríska eiginkonu sína með sér, Kate (Karin Torbjörnsdóttir), sem fyrir sitt leyti veit ekki um Butterfly. Þetta getur að sjálfsögðu ekki farið vel. Þegar menningarheimar rekast á verða óhjákvæmilega fórnarlömb. Ættingjar Butterfly afneita henni með frændann Bonze (Viðar Gunnarsson) í broddi fylkingar og þau einu sem hafa raunverulega samúð með henni eru þjónustustúlkan Suzuki (Arnheiður Eiríksdóttir) og bandaríski konsúllinn Sharpless (Hrólfur Sæmundsson). Suzuki reynir að sýna Butterfly fram á með dæmum að amerískir hermenn snúi aldrei aftur til japanskra „eiginkvenna“ sinna en Sharpless finnur svo mikið til með henni að hann hefur ekki brjóst í sér til að segja henni sannleikann um hinn svikula „eiginmann“.

Madama Butterfly er nærri því einnar konu ópera, svo stórt er titilhlutverkið. Það gerir líka afar miklar kröfur til söngkonunnar, bæði raddarinnar og leikhæfileikanna. Hye-Youn Lee er ekki fimmtán ára enda er mér til efs að svo ung manneskja gæti sungið þetta hlutverk. En það gat Hye-Youn Lee og gerði afar vel. Frægustu aríu óperunnar, „Un bel di, vedremo“ (Einn góðan veðurdag munum við sjá) lék hún sér að svo að áhorfendur fögnuðu. Rödd hennar er tær og skýr alveg sama hversu hátt upp hún fer. Röddin er ekki mjúk og undirgefin enda veit Butterfly hver hún er og hvað hún vill þó að hún hafi látið blekkjast, mjúku röddina átti aftur á móti Arnheiður í hlutverki Suzuki sem hún túlkaði afar vel. Hún var líka aðlaðandi á sviði, hljóp léttilega sinna erinda fram og aftur og blómadúett þeirra stallssystra var undurfallegur.

Egill Árni var sannfærandi sjóliðsforingi, uppfullur af sjálfum sér og viss um að hann hefði allan rétt til að taka sér það sem hann vill af gæðum hersetna landsins. Hann hefur mikla tenórrödd og góða og ástardúett (eða tál-dúett) þeirra Butterfly í lok fyrsta þáttar var virkilega fallegur – þegar Pinkerton er óþolinmóður eftir að fá stúlkuna með sér í rúmið („Komdu nú!“) en hún vill treina stundina og njóta friðar kvöldsins og fegurðar stjörnuhiminsins (eða kannski er hún bara kvíðin). En hlutverk Sharpless konsúls er eiginlega stærra en Pinkertons og Hrólfur fór afar vel með það, söng vel og var skemmtilega klaufalegur í samskiptum sínum við ungu stúlkuna en fullur hlýju og meðaumkunar.

Raunar var það guðsþakkarvert í öllum þessum harmi hve vel leikstjórinn nýtti sér öll tækifæri til gamans og glens. Þar má fyrst nefna Snorra Wium í hlutverki hjónabandsmiðlarans Goro sem sest upp á ástarhreiðrið eins og ólukkukráka þegar hann hefur komið „brúðkaupinu“ í kring og Suzuki á í mesta basli með að berja hann þaðan niður! Kórinn var alveg dásamlegur í atriðinu i fyrsta þætti þegar ótrúlega margir ættingjar Butterfly koma til að vera við giftinguna. Það var sannarlega von að Pinkerton brygði við allt það stóð! Og svo var Jón Svavar Jósefsson svo álappalegur í hlutverki Yamadori prins, vonbiðils Butterfly, að það hálfa hefði kannski verið nóg – en hann var fyndinn og allt það atriði.

Ekki er á mínu færi að fjölyrða um tónlist Puccinis en líbrettó Luigis Illica og Giuseppe Giacosa er þétt og dramatískt, dregur vel fram hinar ólíku hliðar á þessari harmsögu. Hljómsveitin lék prýðilega en svo háttar að þessu sinni að hún er ekki í gryfjunni heldur á bak við skilvegg á sviðinu. Það var ef til vill ástæða þess að fyrir kom að hún var helst til hávær og yfirgnæfði sönginn. Þess var þó gætt á viðkvæmum augnablikum að hann nyti sín að fullu. En kosturinn við þessa ákvörðun er sá að það var hægt að byggja eins konar bryggjusporð frá sviðinu út í sal sem kom að afar góðum notum þegar mest lá við.

Þetta var glæsilegt kvöld og ástæða til að óska Íslensku óperunni og öllum aðstandendum innilega til hamingju.

Silja Aðalsteinsdóttir