Verið gæti að Finnski hesturinn eftir Sirkku Peltola sem Þjóðleikhúsið frumsýndi í gær verði fremur við smekk sjálfstæðismanna og vinstri grænna en samfylkingarmanna því þar er ekki alltaf talað vel um Evrópusambandið. En húmorinn mun áreiðanlega höfða til allra jafnt, einkum þó óborganleg persóna ömmunnar sem Ólafía Hrönn skapar á sviðinu og fylgir manni út í rigninguna og er enn efst í huganum á nýjum degi.

Finnski hesturinnVið erum stödd í finnskri sveit meðal finnskra sveitamanna sem eru búnir að tapa jörðinni sinni. Áhrifamesta einræðan í verkinu er sú sem gamla konan heldur yfir fyrrverandi tengdasyni sínum, Lassa (Kjartan Guðjónsson) um hvernig var í sveitinni þegar kornið bylgjaðist á akrinum og allir voru uppteknir við fjölbreytt búskaparstörf frá morgni til kvölds. Nú er ekkert eftir, engin störf og engin skepna nema Gráni gamli sem nú á að selja fyrir evrur. Hvað verður þá eftir?

Finnski hesturinn er frámunalega fyndið verk. Ég hélt hvað eftir annað að maðurinn við hina hliðina á mér myndi veikjast úr hlátri. Það er allt fyndið: sviðið hennar Ilmar Stefánsdóttur, alrýmið á finnska bóndabýlinu með eldhúsi, borðstofu og rúminu hennar ömmu, samskipti ömmu við dóttur sína Aili (Harpa Arnardóttir) og hennar fyrrverandi sem ekki hefur efni á að flytja burt þótt þau séu skilin og hann kominn með aðra, samskiptin við barnabörnin Kai (Jóhannes Haukur Jóhannesson) og Jöönu (Þórunn Arna Kristjánsdóttir) og jafnvel aðskotakindurnar Mervi, kærustu Lassa (Þórunn Lárusdóttir) og Kirsikaiju, vinkonu Jöönu (Lára Sveinsdóttir). Jafnvel efnið er fyndið: óburðugar og hörmulega misheppnaðar tilraunir Lassa og Kai til að komast yfir skjótfenginn auð – til að eyða honum svo umsvifalaust og áður en mál eru frágengin. Þá getur nú komið sér vel að gamla konan skuli hafa safnað sér fyrir eikarlíkkistu.

Þetta er sem sagt allt fyndið þangað til kemur í ljós hvað það er harmrænt. Alveg eins og leikritið er hversdagsraunsætt þangað til það verður ofurraunsætt. Fyrst heldur maður að það hafi orðið óhapp á sviðinu, en látið það ekki blekkja ykkur. Hér er allt sem sýnist.

Það er virkilega frískandi að fá að sjá svona leikrit, beint upp úr flórnum, ef svo má segja, og María Reyndal stýrir því af tilgerðarlausri návæmni og skilningi. Þýðing Sigurðar Karlssonar er blæbrigðarík og mikið má vera ef verkið er fyndnara á frummálinu. Leikurinn er afbragðsgóður hjá öllum þó að Ólafía Hrönn standi þar ansi langt upp úr, enda fær hún þvílíkar setningar upp í sig að maður hefur sjaldan heyrt annað eins.

Silja Aðalsteinsdóttir