LoddarinnLoddarinn (Tartuffe) hans Molières var frumsýndur á stóra sviði Þjóðleikhússins í gærkvöldi í nýrri bráðskemmtilegri þýðingu Hallgríms Helgasonar og undir stjórn Stefans Metz. Sean Mackaoui sér um leikmynd og búninga eins og áður þegar Stefan hefur leikstýrt hér og Ólafur Ágúst Stefánsson hannar lýsinguna. Manni verður strax hugsað til síðasta verkefnis þeirra þriggja sem var harmleikurinn áhrifamikli Horft frá brúnni á sama sviði 2016. Elvar Geir Sævarsson gerði hljóðmyndina.

Þó að Guðjón Davíð Karlsson taki á móti gestum í búningi hirðmanns á dögum Molières og skemmti sér og okkur með því að fagna þeim sem njóta sérstakrar náðar hans er það blekking. Þegar tjaldið er dregið frá mætir okkur litapalletta sjötta áratugar 20. aldar, hreinir fletir, skýrar andstæður, dökkgrænir veggir, bleikt höfuð af hreindýrstarfi á bakvegg, gulur legubekkur, rauður bolti … Og fatastíllinn er frá sömu árum. Hreinasta augnayndi. Við erum sem sé ekki stödd á tímum Loðvíks fjórtánda heldur kalda stríðsins. En fólk var alveg eins viðkvæmt fyrir loddaraskap þá og bæði fyrr og síðar.

Auðmaðurinn Orgeir (Guðjón Davíð Karlsson) hefur hrifist af sjálfsafneitun og siðprýði flækingsins Guðreðurs (Hilmir Snær Guðnason), eins og Tartuffe heitir hjá Hallgrími Helgasyni, tekið hann upp á arma sína og boðið honum að búa hjá sér. Orgeir á indæla og fjöruga fjölskyldu sem er eiginlegt að dansa og skemmta sér, en honum finnst hún of léttúðug og vonar að Guðreður siði hana til, ef ekki með beinni kennslu þá með heilögu líferni sínu og guðsótta. Fjölskyldan er fljót að átta sig á því að heilagleikinn er bara yfirborð en Orgeir vill ekki heyra neitt misjafnt um sinn mann. Þar er móðir Orgeirs, frú Petrúnella (Ragnheiður Steindórsdóttir), alveg á sama máli og sonurinn og arkar burt í fússi þegar heimilisfólkið kvartar undan því við hana að Guðreður slökkvi alla gleði. Þegar Orgeir kemur úr ferðalagi hefur hann engan áhuga á að heyra Dóru vinnukonu (Kristín Þóra Haraldsdóttir) segja frá heilsufari Elmíru konu sinnar (Nína Dögg Filippusdóttir) en spyr bara um Guðreð, Dóru til innilegrar hneykslunar. Ekki batnar ástandið þegar Orgeir býður Guðreði hönd Maríönnu dóttur sinnar (Lára Jóhanna Jónsdóttir), sem þó var þegar lofuð Völu (Dóra Jóhannsdóttir), og ánafnar honum að auki allar eigur sínar. Guðreður hefur engan áhuga á Maríönnu en þeim mun meiri á Elmíru eins og sonur Orgeirs, Danni (Oddur Júlíusson), kemst að og klagar í pabba sinn. Loddarinn bregst við uppljóstruninni með því að opinbera hiklaust sinn innri mann, en árangurinn verður bæði enn meiri aðdáun á honum og brottrekstur sonarins af heimilinu. Þá eru góð ráð dýr og snöggur viðsnúningur verður á áliti Orgeirs á Guðreði þegar Elmíru tekst að láta mann sinn verða vitni að ruddalegri ágengni hans. En þá er allt um seinan.

Á heimasíðu Þjóðleikhússins er fróðleg grein eftir Guðrúnu Kristinsdóttur Urfalino um þetta verk, „Tartuffe í sögu og samtíð“, þar sem kemur fram að leikritið var bannað í Frakklandi, meira að segja tvívegis, vegna þess að klerkastéttin skildi það strax sem harkalega árás á sig. Það er þriðja endurritun Molières sem er hin eina sem enn er til, en ljóst er af þessari uppsetningu og öðrum sem Guðrún segir frá í grein sinni að eldri gerðirnar hafa ennþá sín áhrif á endi verksins.

Þýðing Hallgríms er öll í rímuðum og stuðluðum tvíhendum sem orka dálítið framandi á eyru manns en venjast furðu fljótt og gefa sýningunni fáránleikablæ sem fer henni vel. Bragurinn er yfirleitt lipur og oft mjög fyndinn. Leikararnir virkuðu svolítið óöruggir fyrst en náðu sér á strik og eftir hlé var eins og þeim væri alveg eðlilegt að tala í bundnu máli. Fyndnasta textann fær vinnukonan Dóra sem Kristín Þóra lék af miklum krafti og innlifun. Hún er eins konar málpípa höfundar í verkinu, segir það sem hann vill leggja sérstaka áherslu á, og hún skefur ekki af fordæmingu sinni á heimsku húsbóndans: „En svo um leið og Guðreður gekk hér inn / í grasasna þá breyttist húsbóndinn!“ Kristín Þóra er áberandi ólétt og Stefan og Hallgrímur notfæra sér það í viðbótartexta, því auðvitað hneykslast Guðreður á því að stúlkan skuli eiga von á barni í lausaleik.

Stefan Metz hefur áður valið Hilmi Snæ í stór hlutverk, Eddie Carbone í Horft frá brúnni og John Proctor í Eldrauninni. Guðreður er alls óskyldur þeim báðum en Hilmir er eins og fiskur í vatni í hlutverkinu, enda með skemmtilegri hlutverkum leikbókmenntanna. Nína Dögg var verðugur andstæðingur hans í hlutverki frúar hússins og atriðið þar sem hún tælir hann til að opna augu Orgeirs var dýrleg skemmtun. Gói hefur sjaldan verið betri en í hlutverki heimilisföðurins hálfblinda og það gustaði af Ragnheiði Steindórsdóttur sem frú Petrúnellu. Textameðferð þeirra allra var skýr og áheyrileg. Baldur Trausti Hreinsson var myndarlegur Klængur, bróðir frú Elmíru, sem reynir að standa við hlið systur sinnar gegn vitleysisganginum í húsbóndanum. Og ungmennin nutu sín líka vel í þessari svimandi hröðu hringekju.

Loddarinn hefur samkvæmt áðurnefndri grein Guðrúnar verið sérstaklega vinsæll á evrópskum leiksviðum undanfarin ár. Það liggja sennilega augljósar ástæður til þess.

-Silja Aðalsteinsdóttir