Sæmundur fróðiÞað fór kannski ekki mjög hátt en í gærkvöldi var frumsýnd í Iðnó ný íslensk ópera, Sæmundur fróði eftir Þórunni Guðmundsdóttur. Hún er löngu þekkt meðal leikhúsáhugamanna – að minnsta kosti Hugleikhúsáhugamanna – fyrir leikrit sín, óperur og söngleiki, síðasta verk hennar af því tagi var Stund milli stríða sem var valin besta áhugaleikhússýningin í fyrra. Sýningin er á vegum Leikfélagsins Hugleiks og Tónlistarskólans í Reykjavík og Þórunn stýrir henni sjálf en tónlistarstjóri er Hrafnkell Orri Egilsson.

Verkið er rammað inn af atriðum úr elli Sæmundar fróða í Odda (Einar Þór Guðmundsson) en eftir örstutt upphafsatriði erum við komin í Svartaskóla þar sem ríkir hávær útskriftargleði. Það gladdi mig að sjá að nemendur voru af báðum kynjum, og aðeins seinna kemur í ljós að það er skólameistarinn líka. Kölski er sem sagt tvískiptur í verkinu og sunginn af Gunnlaugi Bjarnasyni og Lilju Margréti Riedel. Kvenkölskinn Regína notar eðlilega aðrar aðferðir til að fleka Sæmund en karlkölskinn en Sæmundur sér við öllum brögðum. Þetta gerir baráttu Sæmundar við Kölska ansi miklu fjölbreytilegri og meira fyrir auga og eyra en mátti búast við fyrirfram.

Eftir útskrift þarf einn að vera eftir í skólanum, eins og allir vita, og Sæmundur býðst til þess. Lausn hans úr þeirri prísund var svolítið klaufaleg og ekki í nógu góðu samræmi við söngtextann sem segir: „Þar skall helvítis hurð nærri hælum“. En margar aðrar lausnir voru snilldarlega útfærðar, einkum ferðalag Sæmundar heim til Íslands á selnum. Kvennafansinn sem bæði söng yndislega og var afar ásjálegur lék þar öldurnar í bláum silkiklæðum svo bæði vakti aðdáun og kátínu.

Ekki lætur Kölski Sæmund í friði eftir að hann er sestur að í Odda og verður í sýningunni mest úr atriðinu þegar Þóra vinnukona (Tinna Þorvalds Önnudóttir) grípur púkablístruna sem Kölski býður henni og magnar fram þrjá púka sem láta ófriðlega. Það verður Þóru til bjargar að Guðrún stallsystir hennar (Þórgunnur Anna Örnólfsdóttir) er fljót að hugsa og lætur púkana fá verkefni sem friðar þá. Guðrún færir sig þá upp á skaftið, hvött áfram af Regínu, og ögrar Sæmundi í flottu atriði en hann kveður hana niður eins og hvern annan púka. Hann sér þó eftir því og Guðrún verður bjargvættur hans í fallegu lokaatriði.

Óperan er öll sungin og voru bæði stök lög og söngles afar áheyrileg og oft skínandi falleg. Til dæmis var heillandi aría Sæmundar þegar hann lýsir heimþrá sinni til Íslands, Regínu ástkonu sinni til mikillar reiði. Texti Þórunnar er algert dýrindi, hnyttinn og vel ortur en misjafnt var hve vel hann komst til skila. Við hjónin hefðum fegin lesið texta fyrir ofan sviðið eða til hliðar eins og í Óperunni, bara til að njóta kveðskaparins. Iðnó er líka illa fallið til óperusýninga, án hljómsveitargryfju og of lítið svið til að auðvelt sé að koma tíu manna hljómsveit fyrir þar. Undirleikur hennar lendir því óhjákvæmilega á milli söngvaranna og hluta af áheyrendum.

Einar Þór kom textanum þokkalega til skila og syngur vel þó að röddin hefði mátt vera sterkari eins og hljómsveitin var staðsett. Þessar aðstæður trufluðu ekki Gunnlaug í hlutverki Kölska, hann var stjarna sýningarinnar, góður leikari, prýðilegur söngvari og framburðurinn og krafturinn með ágætum. Sama má segja um Þórgunni Önnu í hlutverki Guðrúnar og Ólaf Torfa Ásgeirsson í hlutverki Hálfdáns, skólabróður Sæmundar, þau bæði syngja vel og hafa mikla útgeislun á sviði. Lilja Margrét er glæsileg á sviði og hefur mikla og fína rödd en bjagar því miður sérhljóðin í söng þannig að erfitt var að skilja textann hennar, og sama var um Tinnu. Kórinn var prýðilegur, bæði karlar og konurnar sem áður var minnst á, og oft auðveldara að skilja textann í samsöng þeirra en hjá stökum söngvurum. En eins og ég segi þá hefði ekki komið að sök þótt textinn heyrðist ekki nema af því hvað hann er andskoti skemmtilegur.

Öll umgerðin um sýninguna var fín, hljómsveitin óaðfinnanleg, búningarnir drógu vel fram muninn á íslensku bændafólki og hátignum úr neðra, leikmyndin einföld eins og nauðsynlegt er því sviðið þurfti að rúma upp undir tuttugu og fimm manns þegar flest var. Verkið verður ekki sýnt oft og menn verða að hafa hraðan á ef þeir ætla ekki að missa af því.

Silja Aðalsteinsdóttir