Fly me to the moonVið eigum írska leikskáldinu Marie Jones meira að þakka en margir átta sig á. Það er vegna hennar að við fengum að sjá Stefán Karl á sviði eftir að hann var eiginlega hættur að leika vegna veikinda og sú síðasta frábæra frammistaða komst meira að segja í sjónvarpið og er til fyrir afkomendur okkar um ómunatíð.

Þetta var vitanlega það óviðjafnanlega stykki Með fulla vasa af grjóti sem Stefán Karl og Hilmir Snær tóku þrisvar sinnum með margra ára millibili og voru alltaf jafn dásamlegir. Það verður að segjast undir eins að Fly me to the moon, sem var frumsýnt í Kassanum í gærkvöldi undir stjórn höfundarins, Marie Jones sjálfrar, er ekki sambærilegt við fyrra verkið en vandræðagangur persónanna vakti vissulega mikla kátínu gesta, að minnsta kosti framan af.

Formið á verkinu er skemmtilegt og hlífir manni við því að fylgjast með vandræðaganginum alla leið, það yrði óbærilegt fyrir meðvirkan einstakling eins og mig. Þær Francis (Ólafía Hrönn Jónsdóttir) og Loretta (Anna Svava Knútsdóttir) byrja á að stilla sér upp við sviðsbrún þar sem Loretta útskýrir fyrir okkur að allt hafi þetta byrjað með því að hún varð of sein í vinnuna. Það olli því að Francis var ein á vaktinni framan af og þurfti að rogast hjálparlaust með Davy gamla fram á klósett. Þá kemur leikið atriði þar sem við sjáum glitta í hana að bisa við farlama manninn inni á salerninu. Eftir þetta skiptast á leikin atriði og frásagnir kvennanna af þessum örlagaríka mánudegi.

Francis fær í bakið við áreynsluna og hún er bara fegin hvað Davy er óralengi á klóinu. En þegar Loretta er löngu komin og fer að undra sig á þessu gá þær loksins að gamla manninum og þá liggur hann náttúrlega dauður á gólfinu. Auðvitað er dauðsfallið ekki þeim að kenna en þær eru einfaldar sálir og af ýmsum ástæðum tekst þeim að flækja sig í lyga- og blekkingavef sem engan enda ætlar að taka. Lygavefurinn snýst um peninga, að sjálfsögðu. Geta þessar síblönku láglaunakonur kannski orðið sér úti um óvæntan aukapening ef þær makka rétt? „Frestað“ dauða Davys og tekið út ellilaunin hans og skipt þeim á milli sín? Það flækir málin að Francis er svo vel heima í lögreglustörfum eftir áratuga sjónvarpsáhorf að hún sér óþægilega marga leiki fram í tímann.

Í Með fulla vasa af grjóti léku Hilmir Snær og Stefán Karl, fjölmargar persónur. Þó að leikararnir væru bara tveir fengum við heilt þorp og heilan hóp kvikmyndagerðarmanna frá Ameríku í fangið. Hér eru persónurnar bara tvær og líf þeirra sem teiknast smám saman upp er býsna fábreytilegt. En þær eru ólíkar innbyrðis og Önnu Svövu og Ólafíu Hrönn varð ekki skotaskuld úr því að sýna það. Snorri Hilmarsson klæðir þær í sömu svörtu síðbuxurnar og bleiku hagkaupsblússurnar en til að draga fram ólíkan karakterinn setur hann Ólafíu Hrönn í hælaháa skó með þykkum sólum sem stækka hana svo að hún gnæfði yfir Önnu Svövu eins og fjall! Francis hefur líka sínar sérstöku hugmyndir um almennt siðferði sem eru á skjön við hugarheim Lorettu. Það var gaman að sjá þær takast á og smám saman í meiri og meiri æsingi en verkið hefði haft gott af að styttast og einfaldast. Það reynir of mikið á trúgirnina undir lokin – jafnvel mína.

Þýðing Guðna Kolbeinssonar er að sjálfsögðu fín og leikmynd Snorra Hilmarssonar, litla íbúðin hans Davys, er algerlega viðunandi. Davy gamli elskaði Frank Sinatra og Kristján Sigmundur Einarsson nýtir sér það í hljóðmyndinni. Þaðan er líka titill verksins því Frank gerði lagið hans Barts Howard „Fly me to the moon“ heimsfrægt á sínum tíma.

-Silja Aðalsteinsdóttir