Nýr heimur - ÉG BÝÐ MIG FRAMÞað var hressandi að láta óska sér til hamingju með afmælið við komuna í leikhúsið í gærkvöldi. Sú sem það gerði var í grænum búningi, ákaflega glaðleg á svipinn og sleikti sleikibrjóstsykur í óða önn og engin leið önnur en þakka fyrir hamingjuóskirnar þótt ég ætti ekki afmæli. Einnig tóku á móti gestum tveir óléttir kátir karlar og óperusöngkona ofan í stórkostlegri tertu, syngjandi aríu. Og þetta var bara byrjunin.

Þau eru reglulega fim og fær krakkarnir í sýningunni Ég býð mig fram í Tjarnarbíó. Þetta er í fjórða sinn sem Unnur Elísabet Gunnarsdóttir leikstýrir örverkum í Tjarnarbíó undir þessum titli en nýja sýningin, Nýr heimur, er talsvert ólík þeirri einu sem ég hef séð áður. Sú var eins konar örleikritasafn þar sem hvert verk var sjálfstætt að formi og flutningi en þetta sem ég sá í gærkvöldi hafði yfir sér mun meiri heildarsvip þó að margar sögur væru sagðar. Heildarsvipurinn kom einkum til af því að sömu leikarar tóku þátt í öllum verkunum, að líkindum bæði samningu og flutningi, með leikstjórann sjálfan, Unni Elísabetu, og tónskáldið, Önnulísu Hermannsdóttur, í broddi fylkingar. Höfundur  leikmyndar og litsterkra og einkennandi búninga er Sara Hjördís Blöndal.

Sú grænklædda, Berglind Halla Elíasdóttir, átti eftir að gleðja mig oftar, aðallega í stórskemmtilegri örrannsókn á ólíkri upplifun kvenna á að ganga með barn og ala það. Þær Unnur Elísabet (bláklædd) fóru á tíu mínútum eða svo gegnum vesenið, óþægindin, hamingjuna og stoltið sem fylgir þessari hversdagslegu en þó einstæðu framkvæmd og það var bæði fyndið og vekjandi.

Önnur hversdagssaga fjallaði um ástir tveggja gítarleikara sem hittast, verða ástfangin, gifta sig og lifa í löngu hjónabandi uns þau skilja að lokum, allt á tíu mínútum! Þau Unnur Elísabet og  Friðrik Margrétar- Guðmundsson sungu sig í gegnum söguna og textinn var morðfyndinn.

Af öðrum fínum atriðum má nefna fyrirlesturinn um „gibberish“ sem fluttur var á ensku en Unnur Elísabet og Anaïs Barthe (í bleiku) dönsuðu þýðinguna. Dansinn var afar skemmtilegur en ég hef trú á að atriðið hefði notið sín betur hefði fyrirlesturinn verið á íslensku. Innskot dansaranna hefðu fyllilega gefið í skyn að hér væri verið að gera grín að sjálfskipuðum mannkynsfrelsurum sem fara um heiminn og boða kenningar sínar. Líka skemmti ég mér stórvel yfir viðbrögðum Guðs (Bryndís Ósk Þ. Ingvarsdóttir í gulum búningi) við relli mannanna og röskum svörum hennar við því. Loks voru loftfimleikar eitt flottasta atriðið en þeir voru sýndir í svo miklu myrkri að ég er alls ekki viss um hverjir voru þar að verki.

Ekki var sýningin eintómt grín og gaman. Júlíanna Ósk Hafberg myndlistarmaður trúði salargestum fyrir djúpri þrá sinni eftir samkennd og fór ekki bónleið til búðar. Og lokaatriðið fjallaði svo um sjálfan heimsendi – en sem betur fór gleymdu þær Unnur Elísabet og Tinna Þorvalds Önnudóttir (í bláu og grænu) ekki húmornum í umfjölluninni um hann.

Annalísa Hermannsdóttir hefur samið smekklega og vel passandi tónlist við sýninguna og syngur sjálf skínandi vel. Sá galli var þó á einsöng hennar að textinn barst illa til mín þangað sem ég sat – og miðað við aðra hluta sýningarinnar hefði ég viljað heyra hann allan. Sem betur fór heyrðist þó textinn vel við titillagið, „Nýjan heim“, sem er flott lag og textinn smellinn. Þar telja þær upp allt sem mannskepnan gerir í hvunndegi sínum og spyrja áleitinna spurninga: Er einhver tilgangur með þessu rugli? Er kannski eitthvað hærra og æðra?

Ég býð mig fram – Nýr heimur er reglulega eftirminnileg leikhúsupplifun.

 

Silja Aðalsteinsdóttir