Ævi Jóhannesar Sveinssonar Kjarvals virðist í fljótu bragði ekki henta sérlega vel í barnasýningu. Stórviðburðir æsku hans voru átakanlegir og sem fullorðinn maður hafði hann litla hugmynd um hvernig ætti að vera góður eiginmaður og faðir. Engu að síður hefur verið skrifuð bók fyrir börn um ævi hans og lífsstarf (Margrét Tryggvadóttir, 2019) og hún gaf Stefáni Halli Stefánssyni ýmsar hugmyndir í sviðsverkið sem Leikfélag Reykjavíkur frumsýndi í dag á Litla sviðinu: Kjarval. Stefán Hallur leikstýrir sjálfur, Úlfur Eldjárn semur ljúfa tónlist og Pálmi Jónsson sér um lýsingu og gerir myndbönd, en í þetta skipti er það leikmyndateiknarinn sem stelur senunni í orðsins fyllstu merkingu. Á baksviðið hefur Guðný Hrund Sigurðardóttir málað mörg kunnugleg verk Kjarvals í stóru formati og ekki nóg með það: hún heldur áfram hringinn í kringum áhorfendasalinn! Það var sjón að sjá þegar kastljósin beindust að þessum myndum í rás sýningarinnar og opinberuðu snilld þessa íslenskasta allra listmálara. Auk málverkanna var litríkur, hrynjandi foss á sviðinu, stórir og litlir steinar í Kjarvalslitum og jafnvel myglaðar flatkökur!

Þetta svið gerir það að verkum að björninn er unninn að minnsta kosti að hálfu. Áhorfendur sjá með eigin augum hvað það var sem þessi merkilegi maður gerði og hvers vegna hann er efni í bækur og leikrit. En auðvitað þarf líka texta og Stefán Hallur fer þá leið að láta tvo sögumenn, þá Gilla og Gogg (Haraldur Ari Stefánsson og Þuríður Blær Jóhannsdóttir) segja frá Kjarval. Það gera þau á nýstárlegan og skapandi hátt, langt frá venjulegum ömmusögum við rokkinn, nota til dæmis dans og látbragðsleik. Þau byrja á því að setja fyrsta fund Kjarvals og Tove, konu hans, á svið á rómantískan hátt en brjóta senuna snögglega upp áður en fyrsti kossinn næst (félaga mínum tíu ára til léttis). Svo lýsa þau lífsháttum hans, vinnuaðferðum og ýmsum sérviskum á kómískan en þó upplýsandi hátt og bregða á leik við hvert tækifæri. Þau draga fram erfiðleikana sem hann mætti með barnslegum viðmiðunum. Til dæmis giska þau á að það taki þrjá daga að fara á rafskútu milli Meðallands og Borgarfjarðar eystri en þegar Jóhannes litli fór þetta á hestbaki fjögurra ára tók ferðin þrjár vikur. Það verður Gilla næstum ofraun að bera Gogg alla þá leið! Kjarval fer til Englands og þaðan til Danmerkur í listaskóla og þar hittir hann Tove. Eftir það er farið hratt yfir sögu en það helsta er samt með.

Haraldur Ari og Þuríður náðu góðu sambandi við salinn með þessari fjörlegu og síbreytilegu frásögn nema helst yngstu börnin. Þau höfðu eflaust gaman af sprellinu og leiknum en ég geri ekki ráð fyrir að þau nái sögunni. Það gerði félagi minn og þótti gaman.