Rocky Horror ShowSöngleikurinn Rocky Horror Show eftir Richard O‘Brien var frumsýndur í gærkvöldi á stóra sviði Borgarleikhússins undir stjórn Mörtu Nordal. Fyrirfram hefði ég ekki haldið að þetta verkefni væri hennar tebolli, það virðist býsna óskylt sýningunum sem hún er rómuð og jafnvel verðlaunuð fyrir – eins og Fjalla-Eyvindi, Ofsa og Lúkas – en það gekk líka allt upp hjá henni í gærkvöldi. Glimmerið glitraði, siðleysið sleikti út um og dillaði sér, söngur, dans og daður var eins tælandi og hægt er að hugsa sér.

Sagan er dæmigerður blautur draumur borgarans. Saklausa unga parið Janet (Þórunn Arna Kristjánsdóttir) og Brad (Haraldur Ari Stefánsson) ætlar að halda upp á trúlofun sína með því að heimsækja gamlan uppáhaldskennara sinn dr. Scott (Katla Margrét Þorgeirsdóttir) langt uppi í sveit. Á leiðinni springur á bílnum þeirra nálægt kastala á afskekktum stað. Þar hitta þau fyrir samansafn af einkennilegu fólki, krypplinginn Riff Raff (Björn Stefánsson) og glæsipíurnar Magentu (Brynhildur Guðjónsdóttir) og Kólumbíu (Vala Kristín Eiríksdóttir) sem af einhverjum orsökum sýna beiðni þeirra um „að fá að hringja“ lítinn áhuga. Þau eru enn að reyna að átta sig þegar húsráðandi kemur svífandi og syngjandi niður stigann og sviptir af sér skikkjunni til að leyfa netsokkunum og ógeðslega smarta netbolnum að njóta sín. Um leið eru Janet og Brad heillum horfin. Áður en þau komast aftur burt hafa þau misst meydóm og sveindóm og geta látið sig dreyma um þessa syndugu helgi öll sín viðburðasnauðu leiðindaár. Ekki þurfa þau að óttast að hitta þetta „fólk“ aftur því það er frá plánetunni Transilvaníu og hverfur þangað í lokin.

Húsráðandi hefur nýlokið við að skapa mann þegar gestina ber að garði og þau fá að sjá þegar hann er lífgaður. Sköpunarverkið er ekkert Frankenstein-skrímsli heldur undurfagur karlmaður, Rocky (Arnar Dan Kristjánsson), sem Janet tælir til að hefna sín á Brad. Rocky er líka hrifinn af Eddie (Valdimar Guðmundsson) og vekur með því afbrýðisemi Franks sem hefnir sín með því að drepa Eddie með rafmagnssög! Í flókinn söguþráðinn heldur sögumaðurinn (Valur Freyr Einarsson), virðulegur herramaður sem tekur uppákomunum með hæðnislegri ró.

Páll Óskar Hjálmtýsson fær hér aftur tækifæri til að syngja og leika aðalhlutverkið, vísindamanninn, klæðskiptinginn, flagarann og morðingjann Frank N Furter, rúmum aldarfjórðungi eftir að hann söng hlutverkið ógleymanlega á nemendasýningu Menntaskólans við Hamrahlíð í Iðnó. Hann á auðveldara með það núna með auknum þroska að sýna Frank sem þann siðlausa óþokka sem hann er en án þess að missa hið tælandi yfirborð og ekki er söngurinn síðri.

Björn, Brynhildur og Vala Kristín skapa litríkt starfslið Franks af miklum krafti og sjarma og Þórunn Arna og Haraldur Ari eru sannfærandi einfeldningsleg í samanburði við þau. Arnar Dan er eins og falleg brúða. Öll syngja þau vel og dansa, að sjálfsögðu. Í dansatriðunum bætast einir átta dansarar í hópinn svo að kastalinn iðaði allur af glitrandi lífi.

Ilmur Stefánsdóttir byggir kastala Franks á sviðinu og þar vantaði hvorki breiðar tröppur til að svífa niður og klífa upp né skúmaskotin til að stunda siðlaust dund. Búningar Filippíu I. Elísdóttur voru allt sem draumar um dirty week-end útheimta. Hvar skyldi maður fá svona blómstraðar sokkabuxur eins og Kólumbía var í? Nýja þýðingu á texta gerir Bragi Valdimar Skúlason og tekst alveg prýðilega, enda gera leikararnir sitt besta til að láta hvert orð heyrast. Það tókst ekki alveg alltaf, oftast vegna þess að hljómsveitin var aðeins of hávær undir stjórn Jóns Ólafssonar. En skemmtileg var hún og spilaði vel og dansar Lees Proud voru eldfjörugir.

Sýningin er römmuð inn eins og bíómynd. Pía með sælgæti á bakka framan á maganum (Brynhildur Guðjónsdóttir) syngur á undan um þetta sjúskaða, sjabbí sjóv sem í vændum er og sæluhrollinn sem það mun láta hríslast niður hrygginn. Og á eftir lokar hún því á sama hátt: „Myrkrið gleypti prúða parið. / Af plánetunni – allt hyskið farið, / Ooooó … / Og svona endar þetta fremur sjabbí sjóv …“ Brynhildur var náttúrulega töfrandi. Kannski verða þetta minnisstæðustu atriði kvöldsins.

Það má vel spyrja hvort Rocky Horror Show eigi eitthvert erindi núna, 45 árum eftir frumflutning, og það í okkar heimshluta sem ekki hneykslast á neinu nema þeim sem hneykslast. Líklega ekki. En þetta er skemmtilegt verk með góðum lögum og fríkuðum persónum og Borgarleikhúsið hefur orðið sér úti um alveg einstaklega samvalið lið til að skila því með glæsibrag.

-Silja Aðalsteinsdóttir