RigolettoSagan sem ópera Verdis Rigoletto segir er mögnuð og vel til fundið hjá leikstjóranum, Stefáni Baldurssyni, að flytja hana inn í undirheima Ítalíu í nútímanum. Með því minnir hann á að enn eru þeir feður til sem halda að þeir geti verndað dætur sínar með því að loka þær inni og enn er ungum stúlkum rænt, misþyrmt og nauðgað í þessum besta heimi allra heima.

Rigoletto (Ólafur Kjartan Sigurðarson) er í uppsetningu Íslensku óperunnar skósveinn og skítverkamaður hertogans af Mantúa (Jóhann Friðgeir Valdimarsson) sem hefur um sig hirð ofbeldismanna og hispursmeyja. Þegar verkið hefst hefur hann tælt til sín unga stúlku (Sibylle Köll) sem reynist vera dóttir Monterone greifa (Bergþór Pálsson) og tekur því ekki vel þegar Monterone kemur til að sækja stúlkuna í spillingarbælið. Rigoletto finnst rosalega fyndið að Monterone skuli sárna það að stúlkan sé spjölluð af svona miklum manni og hæðist að föðurástinni. Á móti eys Monterone bölbænum yfir Rigoletto sem bregður illa við.

Rigoletto er nefnilega viðkvæmur alveg á sama stað og Monterone, í föðurhjartanu, því hann geymir í felum unga og fagra dóttur sína, Gildu (Þóra Einarsdóttir). Hún fær ekki að fara úr húsi nema til kirkju en þar kemur hertoginn auga á hana og hrífst af. Hann þykist vera fátækur námsmaður og biðlar til hennar og stúlkan lætur heillast.  Gengi hertogans með skúrkinn Marullo (Ágúst Ólafsson) í broddi fylkingar rænir Gildu, sem þeir halda að sé ástkona Rigolettos, og færir hertoganum hana. Hann er þá ekkert að hlífa stúlkunni þótt hann hafi svarið henni eilífa ást í dulargervi skömmu áður, og þegar hann hefur haft hana undir fleygir hann henni frá sér. Rigoletto ræður leigumorðingjann Sparafucile (Jóhann Smári Sævarsson) til að koma fram hefndum á hertoganum en Gilda fórnar sér fyrir elskhuga sinn og gengur fyrir hnífinn …

Sjaldan hefur annað eins rumpulið sést á fjölum Óperunnar. Glyðrulega klæddar stúlkur vefjandi sig utan um súlur og hörkulegir náungar í svörtum frökkum með sólgleraugu. Rosalega töff. Svið Þórunnar Sigríðar Þorgrímsdóttur er grátt og kalt en búningar Filippíu Elísdóttur setja smartan svip á það. Einkum var fiðrildakjóll Gildu í skemmtilegri andstöðu við umhverfið – en alveg í samræmi við þá andstæðu sem Gilda myndar við aðrar persónur verksins, svo fögur og hrein í öllu ógeðinu.

En það er ekki útlit sem skiptir máli í óperum heldur hljóð, og hljóðin voru glæsileg á sýningunni í gær. Jafnvel Jóhann Smári sem tilkynnt var að þjáðist af raddbandabólgu lét rækilega til sín heyra. Ólafur Kjartan gjörþekkir Rigoletto og var óhugnanlega sannfærandi í hlutverkinu, álappalegur og haltur, afskræmdur í framan með málningu til að skemmta húsbónda sínum, heitur í ást og heitari í hatri. Ólafur syngur hlutverkið af innlifun og snilld en þar á ofan kemur hvað hann er firnagóður leikari. Áhrifamesta atriðið fannst mér þegar hann grátbiður Marullo og gengi hans að skila sér Gildu, þeim sé alveg sama um hana en hún sé honum allt. Ég sá ekki betur en Ágúst Ólafsson kæmist líka við þegar hann hlýddi á bænir hins örvæntingarfulla föður, altént sneri hann sér undan og karlar hans líka þegar þeir afbáru ekki lengur að horfa á niðurbrotinn manninn.

Þóra Einarsdóttir hefur unaðslega rödd og er einna líkust álfamey í útliti, og hlutverk Gildu nýtir alla hennar kosti – nema húmorinn. Eins og allir vita er Rigoletto sú ópera sem flesta hefur smellina og það er ekki amalegt að hlusta á Þóru raula Caro nome þegar hertoginn/fátæki námsmaðurinn – er farinn frá henni. Jóhann Friðgeir var myndarlegur hertogi og söng sín stjörnulög af fjöri og krafti. Bergþór var líka flottur Monterone og sama má segja um Ágúst sem var djöfullegur Marullo. Kvenhlutverk eru lítil fyrir utan Gildu en óskaplega gaman var að hlusta á þau Jóhann, Ólaf, Þóru og Sesselju Kristjánsdóttur í hlutverki Maddalenu, systur leigumorðingjans, syngja saman Bella figlia dell‘amore. Lagið er eitt en persónurnar fjórar syngja hver sinn texta: Hertoginn er að manga til við Maddalenu, Maddalena efast um alvöru hans og skopast að honum, Gilda grætur og segir að einmitt svona hafi hann talað við sig og Rigoletto segir bíddu bara, ég hefni þessa fyrir þig. Þetta var alger gæsahúðarflutningur og annar hápunktur kvöldsins. Utan um allt saman hélt Daníel Bjarnason hljómsveitarstjóri með auga á hverjum fingri og hljóðfæraleikararnir hlýddu möglunarlaust hverri hans bendingu. Sýning Íslensku óperunnar á Rigoletto er afar vel heppnuð; ég öfunda þá sem eiga eftir að sjá hana.

 

Silja Aðalsteinsdóttir