ToscaEfnið í óperunni Toscu eftir Giacomo Puccini virðist mun nær manni núna en áður; kannski vegna þess hvað ofbeldi gegn minni máttar hefur verið mikið í umræðunni. Greg Eldridge bendir líka á í grein í leikskrá að pólitísk ólga í heiminum núna minni á aðstæðurnar í óperunni. Í Toscu er listmálari fangelsaður fyrir að leyna pólitískum flóttamanni. Kærustu málarans býðst að leysa hann úr haldi með blíðu sinni en þegar á hólminn er komið eru loforð yfirvaldsins einskis virði og málarinn er tekinn af lífi. Huggun harmi gegn má það þó vera að kærastan drap yfirvaldið þegar það ætlaði að heimta sín laun fyrir hið ónýta loforð.

Við sáum Toscu í gær, nýjasta afrek Íslensku óperunnar í Eldborg Hörpu. Verkið gerist á þrem stöðum eins og skýrt varð á sviðinu, í kirkju í Róm þar sem Cavaradossi listmálari (Kristján Jóhannsson) er að mála mynd af konu, í embættisbústað yfirvaldsins Scarpia (Ólafur Kjartan Sigurðarson) og í fangelsisgarðinum. Sviðið hannaði Alyson Cummins af mikilli kúnst; sömu einingarnar eru notaðar en á nýjan hátt í hvert sinn þannig að hæfði sögusviðinu, geysistórar einingarnar urðu eins og kubbar í höndum barns. Verulega snjallt og hentugt þó að hléin tvö yrðu nokkuð löng meðan verið var að raða kubbunum. Upprunalega sagan á að gerast árið 1800 en leikstjóri flytur atburði til fasískrar Ítalíu 20. aldar. Búningar Nataliu Stewart passa allvel við þann tíma nema búningar Toscu sjálfrar (Claire Rutter) sem koma úr eldri tíma.

Puccini fékk hugmyndina að Toscu úr samnefndu leikriti eftir Victorien Sardou og óperan ber þessum uppruna sínum greinilegt vitni. Hún er sungið leikrit. Leikmanni finnast aríur fáar miðað við ýmsar aðrar óperur – að vísu fáránlega flottar en fáar – mest tala persónur saman í vel sömdu resítatívi eða sönglesi. Hæst ber tvær aríur sem Kristján söng af list og innlifun, „Recondita armonia“ þegar hann ber saman björtu aðalsmeyna sem hann er að mála og dökku söngstjörnuna Toscu sem hann elskar, í skemmtilegu samtali við Sagrestano (Bergþór Pálsson) í fyrsta þætti, og ástar- og saknaðararíuna „E lucevan le stelle“ frammi fyrir dauðanum í þriðja þætti. Og þegar Tosca fær næði til að hugsa um svívirðilegt tilboð Scarpia í öðrum þætti syngur hún hina undurfögru „Vissi d‘arte“ og spyr Drottin almáttugan hvers vegna hann launi sér á þennan hátt fyrir allt það góða sem hún hafi látið af sér leiða í lífinu með list sinni og örlæti. Í þeim þætti var lýsing Þórðar Orra Péturssonar sérlega eftirtektarverð en hún var alltaf listilega hugsuð og unnin.

Það er gríðarleg ástríða í þessari óperu og þó að ég sæi ekki textana þaðan sem ég sat og gæti því ekki fylgst með því sem persónurnar voru að segja frá orði til orðs, skorti ekki neitt á skilning minn á tilfinningum aðalsöngvaranna þriggja, Kristjáns, Claire Rutter og Ólafs Kjartans. Þau eru öll mikil á velli og hafa raddir sem hljóma glæsilega í þessum stóra sal. Leikstjórinn leggur líka mikið upp úr því að virkja tilfinningar óperugesta að öðru leyti; hrottar Scarpia voru vígalegir, pyntingasenan sem opnað var á óhugnanleg en þar á móti komu blíðar ástir Toscu og Cavaradossis meðan allt leikur í lyndi og barnafjöldinn í kirkjunni, glaður og bjartur. Kórarnir sungu óaðfinnanlega undir stjórn Magnúsar Ragnarssonar (Kór Íslensku óperunnar) og Steingríms Þórhallssonar (Drengjakór Reykjavíkur) en best af öllum var auðvitað hljómsveit Íslensku óperunnar sem túlkaði tónlist Puccinis af sönnum glæsileik undir blæbrigðaríkri stjórn Bjarna Frímanns Bjarnasonar.

Í lokin langar mig að hnykkja á því að finna þarf leið til að birta textana á skýrari hátt, staðsetja þá neðar og með stærra letri en jafnan er gert í Eldborg Hörpu. Þeir eru forsenda þess að við flest getum fylgst fyllilega með framvindu sögunnar sem verið er að segja, og sagan er mikilvæg í óperum. Ekki hægt? Jú, það hlýtur að vera, menn þurfa bara að gera ráð fyrir textunum þegar sviðsmyndin er hönnuð.

Silja Aðalsteinsdóttir