MatthildurBorgarleikhúsið frumsýndi í gærkvöldi á stóra sviðinu söngleikinn Matthildi eftir Roald Dahl (saga), Dennis Kelly (leiktexti) og Tim Minchin (tónlist og söngtextar) í þýðingu Gísla Rúnars Jónssonar. Bergur Þór Ingólfsson leikstýrir af sínu alþekkta öryggi, tónlistarstjóri er Agnar Már Agnarsson og Lee Proud semur dansana eins og viðbúið var. Þetta er gríðarmikið sjónarspil á einhverri makalausustu hringsviðsmynd sem sést hefur í íslensku leikhúsi, svo margbrotinni og viðamikilli að í rauninni hefði maður þurft að fá hálftíma til að horfa á hana eingöngu snúast og sýna allar sínar hliðar og skúmaskot. Hönnuður hennar er snillingurinn Ilmur Stefánsdóttir.

Það er býsna kaldranaleg saga sem Roald Dahl segir í Matthildi og hann hefur greinilega litla trú á að mannfólkið geti nokkuð lært eða breyst við áföll eða reynslu. Annaðhvort er maður fæddur réttsýnn og góður og heldur áfram að vera það – nú, eða ekki! Í upphafssenunni sjáum við foreldra og börn í miklu skjallbandalagi: foreldrarnir kalla börnin „kraftaverk“, „dáðadreng“, „englabossa“, „prinsessu“ og „prinsa“ og börnin taka því eins og sjálfsögðum hlut. En foreldrar Matthildar (Ísabel Dís Sheehan á frumsýningu), þau Ormur Ormars (Björn Stefánsson) og Norma Ormars (Vala Kristín Eiríksdóttir) afneita dóttur sinni strax í móðurkviði og halda því áfram hvað sem þeim er sýnt oft að barnið er undur að gáfum, innsæi og hugkvæmni. Að vísu viðurkennir faðirinn í lokin, þegar Matthildur hefur bjargað honum úr klóm rússnesku mafíunnar, að hún sé dóttir hans en ekki sonur, og það snertir mann hvað barnið er honum þakklátt fyrir þessa fáránlega litlu viðurkenningu.

En Roald Dahl hefur greinilega þá skoðun að vont uppeldi geri engan skaða ef upplagið er gott og EF BARN HÆNIST AÐ BÓKUM. Það er skilyrði fyrir því að vel fari! Matthildur er lestrarhestur – til dæmis verður hún svo hrifin af Dostojevskí á forskólaaldri að hún notar tímann fyrsta skólaárið til að læra rússnesku svo að hún geti lesið hann á frummálinu. Það kemur sér svo einkar vel þegar Ormur hefur reynt að svindla á rússneskum föntum, fyrirliði þeirra Sergei (Arnar Dan Kristjánsson) verður svo hugfanginn af stelpunni að hann sleppir pabbanum við réttláta refsingu.

Skólastýran Karítas Mínherfa (Björgvin Franz Gíslason) verður ekkert snokin fyrir gáfum Matthildar, henni er bara meinilla við stelpuna eins og alla hina krakkana í skólanum. Enda er skólastýran sadisti sem notar alla sína hugkvæmni til að hugsa upp nýjar og nýstárlegar refsingar fyrir ímynduð brot jafnt sem raunveruleg. Sem betur fer er kennarinn af allt öðru tagi, Fríða hugljúfa (Rakel Björk Björnsdóttir) er blíðan holdi klædd og tekur sérstöku ástfóstri við Matthildi. Það gerir Filipía bókavörður (Ebba Katrín Finnsdóttir) líka og hjá henni á Matthildur skjól þegar foreldrarnir flæma hana á dyr af því hvað bóklesturinn fer í taugarnar á þeim.

Ranglæti og refsigleði skólastýrunnar gengur smám saman út í meiri og meiri öfgar og svo fer að réttlætisástríða Matthildar brýst hreinlega út í yfirnáttúrulegum kröftum. Og með hjálp þeirra og öflugri samvinnu sín á milli tekst börnunum að sigra illskuna. Það eru að sjálfsögðu stafsetningaræfingar sem að lokum fara yfir þolinmæðismörk barnanna.

Þetta er mikil „barnasýning“. Í bekknum hennar Matthildar eru níu börn og auk þeirra tekur leikhópurinn að sér hlutverk eldri nemenda skólans í nokkrum atriðum. Fimi þeirra eldri kemur ekki á óvart en leikni bekkjarfélaga Matthildar í leik, söng og dansi er satt að segja aðdáunarverð. Ég er ekki nógu viss um nöfn þeirra sem voru á sviðinu í gær til að nefna þau hér, því hvert hlutverk er tvímannað, þó er ég nokkuð viss um að bestu vinkonu Matthildar, Mínu, lék Erlen Ísabella Einarsdóttir í gær og sýndi merkilega þroskað tímaskyn gamanleikkonunnar í sínu stórskemmtilega atriði.

Ísabel Dís var sannfærandi í krefjandi aðalhlutverkinu, kotroskinn mannkynsfrelsari lifandi kominn. Þolinmóð er hún líka eins og hún endist til að leiðrétta pabba sinn sem kallar hana í sífellu strák: „Ég ER stelpa!“ segir hún aftur og aftur fyrir daufum eyrum. Og eins er þegar Sergei Rússi fer rangt með nafnið hennar: Matthilda, segir hann, -ur, segir stelpan, da, samsinnir hann. Það var greinilega séríslensk viðbót þýðandans og drepfyndið. Ekki náði ég alltaf söngtextunum hjá Ísabel enda ástæða til að tuða eins og venjulega yfir því hvað hljómsveitin leikur hátt. Hún yfirgnæfir allt of oft söng þótt hann sé rafmagnaður. Það gerir að vísu minna til í þessu verki en stundum áður því þótt leiktexti Gísla Rúnars sé skemmtilegur eru söngtextarnir oft óttalegt klúður. Mesta furða hvað krakkarnir gátu lært þá. Stórkostlegust var Ísabel þegar Matthildur segir Filipíu bókaverði söguna löngu og átakanlegu af sjónhverfingamanninum (Arnar Dan) og loftfimleikakonunni hans (Viktoría Sigurðardóttir). Sagan sú lifnaði ekki aðeins í frásögn telpunnar heldur breyttist sviðið eins og fyrir kraftaverk og fór allt að ljóma í ljósum og litum meðan sirkusfólkið lék listir sínar í kringum barnið og bókavörðinn.

Ebba Katrín og Rakel Björk voru yndislegar sem góðu konurnar í lífi Matthildar. Rakel útskrifast af leikarabraut í vor en mér fannst ég kannast við hana samt. Hún lék aðalkvenhlutverkið í uppsetningu Herranætur á Vorið vaknar fyrir nokkrum árum en varla gat hún verið svona minnisstæð fyrir það. Leikskráin upplýsti mig þá um að hún hefði leikið Katrínu forsætisráðherra í Áramótaskaupinu og þá var ekki að undra þótt hún sæti í minninu. Rakel er líka verulega góð söngkona.

Foreldraómyndirnar hennar Matthildar eru í góðum höndum Björns og Völu Kristínar sem bæði njóta þess að leika þessi óbermi. Sérstaklega fær Vala Kristín að skína sem salsadansandi móðirin og dans-ból-félaga hennar leikur Þorleifur Einarsson af kómískum þrótti. Arnar Dan var fínn sem fæðingarlæknir og sjónhverfingamaður og er aldeilis frábær Sergei.

Aðalfautann, sleggjukastarann og skólaharðstjórann Karítas Mínherfu, túlkar Björgvin Franz í hrikalegu gervi Margrétar Benediktsdóttur leikgervahöfundar og Maríu Th. Ólafsdóttur búningahönnuðar. Hann er stór, gnæfir yfir kennarann og börnin, vald hans er óskorað (þangað til börnin gera uppreisn gegn honum) og illska hans er endalaus í orði og verki. En ég hef á tilfinningunni að Björgvin Franz sé of væn manneskja til að gangast að fullu upp í hlutverkinu. Auk þess sem hann minnir oft á mömmu sína í töktum og hreyfingum og þá er illskan alveg fyrir bí!

Ég hreifst ekki af tónlistinni í þessum söngleik þótt hún hafi fengið verðlaun og viðurkenningar, og kannaðist raunar ekkert við hana þótt hún hafi nú verið til í veröldinni í nærri því áratug. En upp á flutninginn var ekki neitt að klaga fyrir utan helst til mikinn hávaða. Danssporin hans Lee Proud voru stórkarlaleg í skólasenunum eins og efnið krafðist, krakkarnir voru stundum eins og lítil tröll í hreyfingum. Danssenur móðurinnar og viðhaldsins voru algerlega á pari við fagmenn í samkvæmisdansi. Búningar Maríu Th. skiptu tugum og voru afar fjölbreyttir og viðeigandi. Þórður Orri Pétursson hannaði flókna lýsinguna sem hjálpaði til að gera sviðsmyndina að því endalausa undri sem hún var.

Ég gat þess fyrr að þetta væri kaldranalegt verk, jafnvel grimmt. En það bendir samt á þann fallega og brýna sannleika að við eigum ekki að þola órétt, við eigum að vera óþekk ef okkur er misboðið og samstaðan getur gert kraftaverk.

Silja Aðalsteinsdóttir