Ljómi liðinna daga

Czar dawnych lat / Ljómi liðinna daga – Beata Malczewska

Í gærkvöldi var gestaleikur frá Póllandi Gaflaraleikhúsinu í Hafnarfirði. Þar sagði ein þekktasta gamanleikkona Pólverja, Beata Malczewska, áheyrendum langa og tragíkomíska ástarsögu undir heitinu Ljómi liðinna daga, og skreytti hana með söngvum. Sagan er gamalkunnug en þó alltaf ný. Hún segir frá feitlaginni sveitastelpu sem fer til borgarinnar og verður yfir sig og sjúklega ástfangin af ljóshærðu skáldi en því miður er ástin ekki endurgoldin. Það breytir þó ekki því að ljóshærða skáldið notfærir sér konuna og tilfinningar hennar þangað til hún fær sig að lokum fullsadda á honum. Sveitastelpan verður skýr persóna í sýningunni, hæfilega gróf í tali, hreinskilin bæði um sjálfa sig og skáldið sitt og oft verulega fyndin.

Beata er hörkuleikkona og syngur sérstaklega vel, hefur vítt raddsvið og tjáningarríka rödd. Ekta kabarettsöngkona. Það var gaman að sitja í leikhúsinu og horfa og hlusta á þessa hæfileikaríku konu segja frá í tali og tónum í nærri tvo klukkutíma án hlés. En það hefði gert upplifunina mun skemmtilegri ef við hefðum fengið að vita hvað hún var að syngja. Talaði textinn var þýddur og honum varpað á tjald fyrir aftan hana en söngtextarnir voru óþýddir. Þó var ljóst að þeir skiptu ekki minna máli en prósinn. Skjátextinn var líka ekki nógu vel unninn, stundum komu of langir bútar í einu og ekki alltaf nógu samtímis talaða textanum. En óneitanlega var skondið að fylgjast með þegar evrópsk tökuorð urðu þekkjanleg í munni leikkonunnar vegna þess að þýðingar þeirra voru komnar á skjáinn.

Silja Aðalsteinsdóttir