Í fyrrakvöld sá ég einleik Gretu Clough Sæhjarta í Tjarnarbíó. Greta er bandarísk en rekur brúðuleikhúsið Handbendi frá Hvammstanga þar sem hún býr. Sýningin er á ensku. Egill Ingibergsson hefur búið verkinu undurfagra umgjörð sem hann gerði ennþá fegurri með mjúkri lýsingu en Sigurður Líndal Þórisson leikstýrir.

Greta situr á sviðinu í hvítum, síðum náttkjól þegar verkið hefst og hallar sér upp að kistu úr grófum viði. Eftir að sagan hefst um stúlkuna sem virðist hafa rekið á land fer þessi stóra kista að minna á söguna um selshaminn sem bóndinn fól í læstri kistu. Sögukona sækir brúðu ofan í þessa kistu sem hún hefur samskipti við og virðist túlka hennar innra sjálf eða annað sjálf. Brúðan er einföld að gerð, höfuð og síð klæði sem sögukona stingur höndum sínum undan þannig að þær verða hendur brúðunnar. En þrátt fyrir einfalda gerð er brúðan merkilega fríð og alveg heillandi. Sama má segja um alla aðra leikmuni, bát, sel og brúður, allt var það einstaklega smekklegt og fallegt þótt sumt væri það fundið í fjöru eins og söguhetjan. Og brúðan getur sýnt með fasi sínu margs konar tilfinningar – þó varla kátínu. En kannski finnst mér það bara vegna þess að hún þurfti ekki að sýna kátínu í þessari sýningu; þar var allt með döprum brag.

Sögukona lýsir óræðum uppruna sínum í byrjun frásögunnar, hana virðist hafa rekið á land á eyðilegri strönd. Maðurinn sem hún kallar „traveller“ eða förumann virðist taka hana að sér og gera hana að vinnukonu í húsi sínu. Hann segir henni ágrip af sögu Undínu sem sorgmæddur sjómaður fann í fjöru og tók að sér og unni hugástum þótt hún væri ódæl og svikul. Hvernig Undína tengist sögukonunni er óljóst. Förumaðurinn á konu og börn en sögukonan elskar hann af ástríðu og girnist hann. Lengi vel lætur hann nægja að horfa á hana en um síðir virðist hann geta henni barn. Ekki er hún þó sátt við sinn hlut því hún segist bjarga dóttur sinni frá því að hljóta sömu örlög og hún sjálf með því að skila sjónum henni.

Sæhjarta

Hér er mikið „virðist“ og „óljóst“ enda verð ég að játa að sagan var of flókin og fjarræn til að ég næði almennilega sambandi við hana. Sennilega átti tungumálið líka einhvern þátt í því. Textinn var afar ljóðrænn og dálítið hulduhrútslegur þótt oft væri hann fallegur. Ég held að Greta gerði vel í að skerpa á því sem hún vill segja með þessari sýningu, ég er viss um að efni eru til þess, og ég myndi líka skipta náttkjólum út fyrir þægilegri búning. Þessi hvíti kjóll passar hvorki við lýsingu sögukonu á fátæka kotinu þar sem hún býr né við kjör hennar.

 

Silja Aðalsteinsdóttir