Samfarir hamfarirÞað mátti ímynda sér í upphafi sýningarinnar Samfarir hamfarir í Tjarnarbíó í gærkvöldi að ljósameistari og leikmyndahönnuður væru stoltir af sínu verki, svo lengi fengu marglit ljósin að leika um flókinn vefinn sem myndar sviðið áður en persónur komu á vettvang. Fyrst dettur manni í hug kóngulóarvefur, svo hugsar maður um net sem lokast um veiðidýr – hvort tveggja mætti til sanns vegar færa – en líklega á leikmyndin einkum að segja okkur að við séum stödd inni í heilabúi aðalpersónunnar sem hugsar til baka um líf sitt.

Hún heitir Þórunn eins og aðalleikarinn og annar höfunda verksins, Þórunn Guðlaugs. Hinn höfundurinn, Natan Jónsson, er líka leikstjóri og saman sjá þau um sviðsmyndina. Með nafni aðalpersónunnar gefa þau Natan og Þórunn skýrt í skyn að hér sé sögð saga sem snerti líf leikkonunnar sjálfrar.

Þetta er dapurleg saga. Þórunn litla er glöð og hamingjusöm lítil stúlka þegar hún missir móður sína í bílslysi og eins og oft vill verða missir hún föður sinn líka í raun og veru af því að hann verður svo hræðilega óhamingjusamur í sorginni að hann gleymir því að hann á dóttur sem þarfnast hans. Eina uppeldisráðið sem hann man eftir eru skammir. Þórunn býr sér til föðurímynd í huga sínum, yfirsjálf (Ársæll Níelsson) sem hún talar við og rífst við í raunum sínum. Hún er bara unglingur þegar hún gefst loks alveg upp á pabba sínum (Aðalsteinn Oddsson lék hann eins og alla aðra karlmenn í lífi Þórunnar) og flytur að heiman. Hún er óvarin og einmana þar sem hún hrekst á milli karlmannsfaðma, bólfélagar hennar verða smám saman að allnokkru safni skíthæla sem hún hæðist máttleysislega að við yfirsjálf sitt. Það hljómar sannarlega ekki freistandi að vera ung kona á Íslandi samtímans. En Þórunn getur líka bitið frá sér, sem betur fer, og við erum ekki vonlaus um hana að lokum.

Þó að efni verksins sé svona átakanlegt minnir leikritið á ýmsar rómantískar gamanmyndir um ungar ráðvilltar konur í makaleit og nægir að minna á Bridget Jones. Það hefur góða möguleika en er hvorki nógu þétt né nógu smellið. Leikur Þórunnar var afslappaður og eðlilegur en helst til daufur, hún tók ekki vel utan um setningarnar og talaði eins og hún væri bara að leika fyrir áhorfendur á fyrsta bekk (eða fyrir kvikmyndavél). Það var soldið svekkjandi fyrir okkur á fimmta bekk. Aðalsteinn gerði furðugóðan greinarmun á persónum sínum með sniðugum smáatriðum og Ársæll var afgerandi, aðlaðandi og áheyrilegur eins og hæfði yfirsjálfi.

Allur umbúnaður sýningarinnar var vel hugsaður, svið, lýsing (Kristinn Ágústsson), búningar (Ella Reynis), og tónlistin sem Einar Sv. Tryggvason sá um var vel samin og vel nýtt.

Silja Aðalsteinsdóttir