Ef einhver heldur að það sé leiðinlegt að vinna á skrifstofu – með lágum skilrúmum sem leyna ekki neinu og yfirmanni sem situr á palli og sér yfir allt svæðið – skyldi sá hinn sami fara á verðlaunasýningu Akureyringsins Kristjáns Ingimarssonar, BLAM!, á stóra sviði Borgarleikhússins. Þar má sjá hvernig hversdagslegt skrifstofudót getur á undrastuttri stundu breyst í eitthvað allt annað, gatari í skammbyssu, sakleysislegar hvítar möppur í gervi á róbota, fatastandur í hríðskotabyssur og svo framvegis og svo framvegis.

BLAM!Kristján og félagar hans í BLAM!, Lars Gregersen, Didier Oberlé og Joen Højerslev, eru ábyggilega duglegir skrifstofumenn en þeir eru líka strákar – og strákar eru og verða strákar sem kunnugt er. Þegar yfirmaðurinn lítur af undirmönnum sínum – til dæmis þegar hann á bágt inni á klósetti – bregða undirmennirnir á leik og ég geri ráð fyrir að margir í salnum í gærkvöldi hafi þekkt kvikmyndahetjurnar betur en ég sem birtust þar í hverju háskalega hasaratriðinu af öðru. En það skiptir engu máli hvort maður hefur séð bardagamyndir frá Hong Kong, Rambó, Bourne-myndirnar (einn strákanna minnti talsvert á Matt Damon) eða ekki, menning okkar er svo gegnsýrð af þessu efni að það liggur flatt fyrir gríninu. Ég vissi ekki að ég gæti hlegið svona mikið.

Eins og hugmyndarík börn sköpuðu félagarnir allt úr engu og það var satt að segja undursamlegt að sjá hvað hægt er að gera við vatnskút og tvo skrifborðslampa sem saman urðu töfrandi ást- og dansmey sem stórslasast og er við dauðans dyr þegar reynt er að bjarga henni með mikilli skurðaðgerð í stórfenglegu klassísku spítalaatriði. Eða meinleysislegar pottaplöntur, blýantar, að ég tali ekki um gulu post-it miðana, þeir komu sér vel, ekki síst í æðislegu pókeratriði þar sem leikmyndin fór heldur betur af stað. Og hélt því áfram!

Strákarnir eru gríðarlega fimir og geysilega góðir í jafnvægislist enda hver einasti þeirra ábyggilega þjálfaður áhættuleikari. Stundum missti maður andann af skelfingu um leið og maður ætlaði að kafna úr hlátri. Kristján er fremstur meðal jafningja, ekki síst af því hvað hann er sláandi í útliti og hefur sérstætt fas og líkamstjáningu. En þeir hinir mynda flott munstur í kringum hann.

Jesper Pedersen skapaði þetta dásamlega leikverk með Kristjáni og Simon Boberg stýrir því með honum. Ekki missa af því.

Silja Aðalsteinsdóttir