Fyrsta frumsýning haustsins á stóra sviði Þjóðleikhússins, ein hátíðlegasta stund ársins. Freyðivín í fordrykk, forsetinn í húsinu, margir í sínu besta pússi. Eiginlega leitt að ekki skyldi vera hlé til að maður gæti notið þess betur að horfa á hátísku haustsins 2017 allt í kringum sig. Og svo var verkið klassískt og þó brýnt: Óvinur fólksins eftir Henrik Ibsen, 135 ára að vísu en eins og skrifað beint inn í okkar tíma. Hvað á fyrsta rétt, velferð og öryggi mannfólksins eða örugg auðsöfnun hinna ríku? Á að hugsa í skammtímalausnum eða langtímalausnum?

Andstæður verksins eru auðvitað ekki alveg svona einfaldar, þá væri leikritið ekki eftir Ibsen. Það skiptir máli fyrir alla íbúa bæjarins hvort heilsuböðunum sem skapa velsældina verður lokað í tvö ár eða ekki. Og hversu alvarleg er mengun vatnsins? Voru þetta ekki bara tvö eða þrjú tilvik af magapínu? Og útbrotum? Og er niðurstaðan úr mælingum vísindamanna við háskólann einhlít? Þarf ekki að gera svona athuganir oftar og af fleiri aðilum? Það myndi þýða að fresta lokun baðanna og frestur er á illu bestur.

Óvinur fólksinsVið erum stödd í ónefndum bæ sem var óttalegt krummaskuð þangað til bæjarstjórnin undir stjórn hins röggsama bæjarstjóra Petru Stokkmann (Sólveig Arnarsdóttir) kom í framkvæmd hugmyndum bróður hennar, Tómasar Stokkmann læknis (Björn Hlynur Haraldsson), um heilsuböð. Böðin hafa orðið gífurlega vinsæl og malað gull fyrir bæinn þar sem allt athafnalíf blómstrar nú. En læknirinn hefur áhyggjur af veikindatilfellum sem hafa komið upp og daginn sem verkið hefst fær hann staðfestingu á sínum verstu grunsemdum: vatnið í böðunum er mengað og mengunin kemur frá verksmiðju Marteins Kíl (Sigurður Sigurjónsson), tengdaföður Tómasar. Raunar var vatnið í böðin ekki tekið þar sem Tómas vildi, í öruggri fjarlægð frá verksmiðjunni, og nú súpa menn seyðið af því að hafa heldur tekið ódýrari og einfaldari kost við gerð baðanna.

Nema að þeir vilja alls ekki súpa seyðið af því. Bæjaryfirvöld með Petru Stokkmann í broddi fylkingar vilja leyna vísindalegum niðurstöðum og reyna að redda málum þannig að ekki komi til lokunar baðanna. Um þetta stendur styr verksins og spennan vex stig af stigi meðan við fylgjumst með máttarstólpum samfélagsins, Ásláksen formanni Félags atvinnurekenda (Guðrún S. Gísladóttir), Hofstað ritstjóra (Snorri Engilbertsson) og Billing blaðamanni hans (Lára Jóhanna Jónsdóttir) sveiflast frá málstað Tómasar að málstað Petru þegar þau átta sig á hvað það þýðir fyrir þau sjálf ef Tómas sigrar. Á heimavelli stendur elsta dóttir Tómasar, Petra yngri (Snæfríður Ingvarsdóttir), staðföst með honum en eiginkonan Katrín (Lilja Nótt Þórarinsdóttir) vill miðla málum. Hennar er rödd efasemda og rökræðna, dásamlegt dæmi um snilldarlega persónusköpun meistara Ibsens. Eini maðurinn fyrir utan Petru yngri sem stendur heils hugar með Tómasi er skipstjórinn Jóhann Horster (Baldur Trausti Hreinsson), persóna sem minnir mann rækilega á hvað góður vinur er mikilvægur í lífi hvers manns þótt hann geti kannski ekki gert kraftaverk.

Í upprunalegu verki Ibsens eru aðalpersónurnar bræður en í leikgerð Unu Þorleifsdóttur leikstjóra og Grétu Kristínar Ómarsdóttur dramatúrgs eru þau systkini. Ég er viss um að þetta skiptir máli, jafnvel sköpum um viðtökur og gerir verkið tvíræðara. Röksemdir bæjarstjórans gegn áliti læknisins geta virkað aðgengilegri og skaplegri í munni konu en karls. Petra verður ekki eins ákveðinn fulltrúi valds og Pétur, hún er frekar fulltrúi hins almenna borgara, karla, kvenna og barna sem eiga lífsafkomu sína undir heilsuböðunum. Þannig skapast meira jafnvægi í átök leiksins og er vafalaust fremur þörf á því núna en á dögum Ibsens meðan umhverfismengun var enn fátíð. Alltént virtist mér þetta á sýningunni í gær þar sem Sólveig Arnarsdóttir ljómaði af ábyrgðartilfinningu og kærleika til síns fólks en Tómas bróðir hennar gat vel virst vera æ einóðari maður sem setti vísindin ofar velferð fólksins. Maður þurfti að minna sig á að hann hefði rétt fyrir sér og í bráð og lengd væri eina vitið að hlýða honum, loka böðunum, flytja borholuna ofar í landið og opna svo aftur með stæl. Allt fyrir hag fjöldans. Raunar varð spennan smám saman magnþrungin þegar æ fleiri sneru baki við Tómasi – hvernig myndi þetta enda?

Langmest mæðir á þeim Sólveigu og Birni Hlyni í sýningunni og átök þeirra og andstæður voru vel útfærð og sannfærandi. Maður fann jafnvel fyrir fortíðinni í lífi þeirra, hvernig þau hafa tekist á í bernsku og æsku vegna þess hve ólík þau eru – hún jarðbundin og skynsöm, hann gáfaður og háfleygur. Aðrir leikarar hringsóluðu kringum þau og fylltu vel upp í samfélagið sem varð til á hringmynduðu sviðinu. Allar persónurnar voru alltaf inni á sviðinu, til taks þegar að þeim kom að blanda sér í samtalið. Það gerði skiptingar milli atriða hraðar og skilvirkar, auk þess sem nærvera persónanna minnti á smæð samfélagsins þar sem allir fylgjast með öllum. Það er ástæðulaust að tíunda framlag hverrrar og einnar aukapersónu, en Lilja Nótt og Snæfríður verða minnisstæðar í hlutverkum mæðgnanna og Guðrún Snæfríður var ansi skemmtilega lúmsk og út undir sig í hlutverki Ásláksen.

Svið Evu Signýjar Berger er gríðarleg konstrúksjón úr stáli, mikil smíð sem virkaði að mörgu leyti ágætlega. Þó eiga andstæðurnar sem þar eru dregnar fram milli málmlitra mannvirkja og grænnar náttúru ekki uppruna sinn í verkinu, því Tómas Stokkmann er ekki endilega umhverfissinni þótt hann vilji koma í veg fyrir hættulega mengun. Búningar Evu Signýjar voru fallegir í hversdagsleika sínum, dálítið skandínavískir, litapallíettan ljós og náttúruleg, hör, bómull, leður og tvíd. Tónlist Gísla Galdurs Þorgeirssonar og hljóðmynd hans og Kristins Gauta Einarssonar fannst mér verulega áhrifamikil.

Silja Aðalsteinsdóttir