Og hvað með það...Sá dásamlegi listamaður og leikari Árni Pétur Guðjónsson fær leikfélaga við hæfi í sýningunni … og hvað með það sem var frumsýnd í Leikhúsinu í Kópavogi (Funalind 2) í gærkvöldi. Þetta er samsköpunarverkefni, samið af Rúnari Guðbrandssyni leikstjóra, Árna Pétri sjálfum og leikfélaganum, Sigurði Edgar Andersen, dansara og boylesque-listamanni. Arnar Ingvarsson sér um ljós og hljóð en leikmyndin var einföld, lausir veggir til að hverfa á bak við og koma fram undan.

Þetta er spunaverk en skaparar þess leita í ýmis leikverk sem fjalla um samkynhneigð svo að úr verður eins konar örleikritasafn sem sýnir vel hvað þeir geta þessir tveir ólíku flytjendur, annar orðinn fullorðinn, virðist vera þungur á sér en reynist sprækari og léttari en hann lítur út fyrir; hinn ungur og íturvaxinn og getur gert allt sem honum sýnist við kroppinn á sér – sveigt hann, teygt, spennt og hrist svo aðdáun vekur.

Ég þóttist þekkja fyrsta atriðið úr leikritinu Englar í Ameríku eftir Tony Kushner – ögrandi en átakanleg skyndikynni tveggja manna í myrkri næturinnar. Þeir eru fullir af þrá en það er óleyfileg þrá og þeir eiga engan stað til að uppfylla hana. Þá er að notast við það sem þeir hafa en það gefur lítið annað en vonbrigði og vanlíðan.

Í þessu atriði voru Árni Pétur og Sigurður Edgar fullklæddir – og þó var það djarfast af þeim öllum – en eftir það fækkuðu þeir fötum, voru ýmist í veisluklæðum sem lítið huldu, berir að ofan eða bara á brókinni. Þeir rifjuðu upp atvik frá æskuárum, veltu fyrir sér hvernig lífið hefði getað verið ef það þætti og hefði alltaf þótt alveg sjálfsagt að vera samkynhneigður – ef litlir drengir (og stúlkur) hefðu opinskátt mátt tjá tilfinningar sínar til vina sinna. Svo sýndu þeir myndir af samböndum með ólíkum valdahlutföllum, víxluðu hlutverkum þannig að húsbóndi varð hjú og hjú húsbóndi og í annan tíma gerði hjúið beiska uppreisn gegn ofbeldi og hunsun. Þessi atriði hafa kannski komið úr öðrum verkum – í kynningu segir að einnig séu notuð brot úr Ástarsögu 3 eftir Kristínu Ómarsdóttur og Bent eftir Martin Sherman en ég þekkti þau ekki fyrir víst.  Aðallega var gaman að horfa á þá tvo leika sér, spinna og spila á áhorfendur.

Fatnaður Sigurðar var til þess gerður að koma fram í kabarettum, buxur gátu breyst í eins konar pils með einu handtaki eða flest utan af honum. Ljóslega voru slíkar flíkur honum kunnugar, hann lék sér að þeim eins og hann lék sér að því að dansa kabarettdansa og teyma Árna Pétur með sér í dansinn, ýmist tregan eða fullan af löngun til að þóknast þessum fallega unga manni.

Áhugafólk um búrleska list ætti ekki að láta þessa sýningu fara framhjá sér.

Silja Aðalsteinsdóttir