Borgarleikhúsið frumsýndi í gærkvöldi leikritið Enron eftir Lucy Prebble, „heitasta leikritið í heiminum í dag“, eins og leikhúsið auglýsir. Þetta er vissulega tímabært stykki, en við erum svo heppin að hafa fengið okkar eigin hrunleikrit – verk eins og Þú ert hér, Ufsagrýlur og Góðir Íslendingar, fyrir nú utan það sjónarspil sem veruleiki okkar er upp á hvern dag – þannig að hér kemur fátt á óvart.

EnronAllir vita hvað Enron var, ef ekki úr fréttum þá úr heimildarmynd sem sjónvarpið sýndi fyrir nokkrum mánuðum. Það var orkufyrirtæki sem stóð á gömlum merg þegar nýir herrar nútímavæddu bókhaldið þannig að gróðinn virtist vaxa og vaxa. Þó að það væri sýndargróði í raun trúðu bankastofnanir á hann og lánuðu raunverulega peninga sem yfirmennirnir stungu að mestum hluta í eigin vasa. Kunnugleg saga. Það sem er ekki kunnuglegt er að eftir að spilaborgin hrundi voru þessir yfirmenn dæmdir í áratuga fangelsi fyrir fjársvik og ef þeir eru ekki dauðir sitja þeir þar enn. En þó að gott væri að þessar upplýsingar kæmu fram varð halinn á verkinu eftir að Enron fór á hausinn ansi langur og maður var farinn að líta óþægilega oft á úrið áður en lauk.

Lengst af er þó sýningin á Enron undir stjórn Stefáns Jónssonar gríðarlega hröð og smart og öflug á stællegu sviði Barkar Jónssonar. Þar skiptast á raunsæilegar senur í bakherbergjum á efri hæð og kjöllurum þar sem menn ráða ráðum sínum og bítast um völdin og stílfærðar fjöldasenur á aðalgangi þar sem starfsmenn fyrirtækisins hylla guði sína, Ken Lay, fráfarandi forstjóra (Hjalti Rögnvaldsson), og þó einkum hinn nýja guð, Jeffrey Skilling (Stefán Hallur Stefánsson). Í upphafi togast þau á um hylli Kens, Jeffrey og Claudia Roe (Jóhanna Vigdís Arnardóttir), en hann er slyngari, siðlausari og veruleikafirrtari en hún og hefur að sjálfsögðu betur. Claudia virðist fá tækifæri til að þróa sínar leiðir í útibúi Enron á Indlandi en þar eð Jeffrey grefur sífellt undan henni reynir ekki á hvort þær eru skárri en hans leiðir. Mikið munar líka um hjálpina sem Jeffrey fær frá fjármálastjóra sínum, hinum fífldjarfa og siðlausa Andy Fastow (Bergur Þór Ingólfsson) sem býr af snilli sinni til hverja hjáleiguna af annarri til að taka við tapinu. Þessar hjáleigur sem éta tapið voru tákngerðar í snareðlum á sviðinu, andstyggilegum kvikindum sem við munum eftir úr Jurassic Park og höfðu þau einkenni að fara geysihratt yfir og eira engu á sinni leið.

Stefán Hallur leikur hér ekki ósvipað hlutverk því fyrsta sem ég sá hann leika í þeirri frábæru sýningu Ungir menn á uppleið hjá Stúdentaleikhúsinu fyrir tíu árum eða svo – og raunar ótrúlegt hvað það verk var tímabært. Það hentar Stefáni vel að leika ástríðufulla karaktera sem eru stöðugt eins og festir upp á þráð. Mér fannst hann halda Enron uppi í gærkvöldi og skapa sannfærandi skíthæl og lygamörð sem þó hefur þessi einkennilega lamandi áhrif á venjulegt fólk eins og maður heyrir að áhrifamiklir trúboðar hafi. Hjalti og Jóhanna Vigdís skiluðu sínum hlutverkum ágætlega og Bergur Þór var virkilega ógeðslegur Andy. Minnisstæðasta senan verður eflaust samtal hans og Jeffreys á hlaupabrettinu í ræktinni, hún sagði meira en mörg orð um samband þessara tveggja manna.

Fyrir utan aðalpersónurnar leika flestir fleiri en eitt hlutverk og vill þetta jakkafata- og dragtarklædda fólk renna býsna mikið saman á sviðinu (amk frá 14. bekk). Þó var maður ævinlega klár á því hvar Halldóra Geirharðsdóttir var stödd, einkum var sérfræðingur hennar í greiningardeildinni æðislegur. Sömuleiðis var Ellert A. Ingimundarson góður, einkum í þingmannshlutverkinu. Hilmar Guðjónsson sker sig úr hópi með sitt svipmikla andlit og þeir Walter Geir Grímsson voru skemmtilegir Lehman-bræður. Fjöldasenurnar voru smartar og má eflaust þakka þær danshöfundinum, Sveinbjörgu Þórhallsdóttur, auk leikstjóra.

Eins og vera úr öðrum heimi kom svo lítil dóttir Jeffreys (Áslaug Lárusdóttir) inn á sviðið við og við, blés sápukúlur og spurði pabba sinn krefjandi spurninga. Hún var eina vísbendingin í verkinu um að starfsfólkið hjá Enron ætti sér einkalíf og sem slík var hún dýrmæt.

Þó að hrunið hafi þegar orðið getum við ýmislegt lært af Enron (ef við getum lært eitthvað af óförum annarra yfirleitt), til dæmis að einkavæða aldrei orkufyrirtæki. Ekki rafveituna, hitaveituna eða vatnsveituna, það býður hættunni endanlega heim í stofu og eldhús.

 

Silja Aðalsteinsdóttir