Sólin skein aldeilis skært á leikendur og áhorfendur í Elliðaárdalnum í gær þegar Leikhópurinn Lotta sýndi Bakkabræður í annað sinn á höfuðborgarsvæðinu. Það lá við að hitinn yrði illbærilegur þarna á Lottutúni inn á milli trjánna og ég vorkenndi leikendunum svolítið í sínum hlýlegu búningum. Svið og búningar (Kristína R. Berman) segja okkur að leikritið gerist „í gamla daga“ en sviðið er líka mjög þénugt og leyfir alls konar leik sem heldur áhuga barnaskarans vakandi.

Við þekkjum öll sögur af Bakkabræðrum og þær helstu eru rifjaðar upp í handriti Önnu Bergljótar Thorarensen: Gísli (Stefán Benedikt Vilhelmsson), Eiríkur (Andrea Ösp Karlsdóttir) og Helgi (Júlí Heiðar Halldórsson) ávarpa hver annan með öllum nöfnunum þrem og sagt er í sveitinni að þeir viti ekki sjálfir hver er hver; þeir komast ekki upp úr fótabaðinu af því að þeir eru hræddir um að villast á fótum; þeir valda dauða föður síns á sjó með því að gefa honum ekki að drekka þegar hann biður um það; þeir drepa Brúnku gömlu með því að sliga hana með grjóti í óveðri, þeir negla fyrir gluggana og reyna svo að bera sólskinið inn í bæinn í húfunum sínum og svo framvegis. Þessar sögur fáum við að heyra af munni Gróu læknis á Leiti (Andrea Ösp) og stórbóndans á Völlum (Sigsteinn Sigurbergsson) þegar þau eru að uppfræða Lilju stórbóndadóttur (Viktoría Sigurðardóttir) og skemmta henni með sögum af flónunum á Bakka.

Þessum tveim heimum lýstur saman þegar amma gamla (Huld Óskarsdóttir) ber sig illa við stórbóndann vegna fátæktar eftir að sonur hennar og faðir drengjanna (Sigsteinn Sigurbergsson) er allur og stórbóndinn ræður bræðurna í vinnu. Þá sýna bræðurnir að þeir vita vel hvaða orð fer af þeim og ætla að nýta sér það til að plata aukagreiðslur út úr vinnuveitandanum. Lilja kemst að öllu saman og verður stórhneyksluð á svikunum en hún skiptir um skoðun þegar Helgi hefur lýst fyrir henni hvernig þeir bræður eru að ósekju rægðir og gerðir að athlægi í héraðinu. Lilja sér villu síns vegar þegar hún heyrir hverjir hinir raunverulegu atburðir voru sem kveiktu sögurnar og allir ákveða að lokum að „stöðva sögusagnir“ og „leggja niður allt baktal“ eins og segir í lokasöngnum. Ef við hættum að dreifa falsfréttum lognast þær smám saman út af – „þær lifa ekki af sjálfu sér“. Mér varð samt á að vona að fólk héldi áfram að segja eftirminnilegar sögur.

Leikendur eru flestir vel kunnir fastagestum á Lottutúni og bregðast ekki frekar en áður, Sigsteinn fyrst og fremst sem leikur tvö stór hlutverk í sýningunni og skiptir á milli þeirra fyrir allra augum, Andrea Ösp, Huld og Stefán Benedikt. Júlí Heiðar og Viktoría eru frábær viðbót, leika bæði vel og syngja og dansa svo unun var á að horfa. Þórunn Lárusdóttir stýrir sýningunni og leggur áherslu á góða framsögn og fjörlegar hreyfingar. Hún leikur sér með endurtekningu á hugvitssaman og stundum drepfyndinn hátt – í huganum sé ég einn bróðurinn (hugur minn þekkir þá ekki í sundur í þessari senu) reyna að komast niður af þakinu en það er alltaf búið að færa stigann þegar hann ætlar að stíga niður í hann. Óbrigðult grín! Dansar Viktoríu voru barnslega fyndnir og býsna óhefðbundnir.

Eins og jafnan er hjá Lottu er tónlistin hressandi, höfundar Rósa Ásgeirsdóttir, Baldur Ragnarsson og Þórður Gunnar Þorvaldsson; og textar Önnu Bergljótar vel samdir og skemmtilegir. Af tónlistaratriðunum þótti mér mest koma til tvísöngs þeirra Júlí Heiðars og Viktoríu í laginu „Hvað er að mér?“ Flott rokklag og virkilega skemmtilega flutt bæði í söng og dansi.

Silja Aðalsteinsdóttir