Leikhópurinn Elefant frumsýndi í gærkvöldi í Kassanum eigin leikgerð af skáldsögu Halldórs Laxness frá 1943–6, Íslandsklukkunni, í samstarfi við Þjóðleikhúsið. Leikstjóri er Þorleifur Örn Arnarsson sem einnig gerir leikgerðina ásamt Bjarti Erni Bachmann, Salvöru Gullbrá Þórarinsdóttur og leikhópnum.

Íslandsklukkan er stór skáldsaga með fjölmörgum persónum og miklum atburðum sem ýmist eru sögulegir eða skáldaðir og hún er löngu sest að í þjóðarsálinni.  Hún var sýnd við opnun Þjóðleikhússins og kennd í skólum og enn eru margir til sem kunna þetta verk utanbókar. Þegar maður hugsar um hana löngu eftir lesturinn eru það þó fyrst og fremst aðalpersónurnar sem sitja eftir í minninu og þetta notfæra þau sér, ungmennin í Elefant. Þau eima verkið niður og gefa okkur nýja sýn á það með því að draga betur fram persónurnar sem þeim finnst skipta mestu máli. Þær eru fimm en þrjár þeirra verða sterkastar. Kannski einkum tvær, kjarni þjóðar, Jón Hreggviðsson og Snæfríður Íslandssól. Íslandsklukkan verður örlagasaga einstaklinga sem kemur okkur við, hér og nú.

Sagan byrjar á botninum, það á að höggva Jón Hreggviðsson á Þingvöllum. En eins og ævinlega er með hans líka þá sleppur hann – og heldur áfram að komast undan út allt verkið. Hallgrímur Ólafsson var ný túlkun á  Jóni Hreggviðssyni, húmorískur og spaugsamur, seiglan og þrjóskan uppmáluð en viðkvæmur þrátt fyrir margbarða skelina. Útsmoginn en trygglyndur. Hann fór ákaflega vel með textann – sagði þessar margtilvitnuðu setningar eins og þær hefðu verið skrifaðar í gær. Enda voru þær það.

Næst hittum við vísindamanninn Arnas Arnæus (Jónmundur Grétarsson) þar sem hann heimsækir Jón í greni hans á Skaganum ásamt barnungri ástkonu sinni, Snæfríði Eydalín lögmannsdóttur (María Thelma Smáradóttir). Ég var minnt á það í gær að þegar María Thelma flutti einleikinn sinn, Velkomin heim, fyrir fjórum árum á þessum sama stað hefði hún talað um þann draum sinn að leika Snæfríði Íslandssól, svo hugfangin var hún af persónunni í bók Laxness. Það var draumur sem hún hafði enga von um að myndi rætast. En hann rættist samt og einhvern veginn skiptu litarorðin sem stöðugt eru höfð um persónuna litlu máli í stóra samhenginu. Því að María Thelma lifði sig af innileika inn í persónuna og gaf henni bæði sannfærandi innri styrk og ytra útlit. Snæfríður er kona sem elskar frá unga aldri mann sem ekki velur að elska hana og hún er full af skömm. Svo mjög skammast hún sín að hún er alla ævi að refsa sjálfri sér, giftist þeim versta, ofbeldismanninum Magnúsi júngkæra í Bræðratungu (Davíð Þór Katrínarson) í stað þess næstbesta, dómkirkjuprestsins í Skálholti (Bjartur Örn Bachmann). Og hún heldur sig við Magnús gegnum meiðingar og niðurlægingar og það sem meira er: hún skilur hann og fyrirgefur honum því að hún hefur lofað honum því sem hún getur aldrei gefið. Hún á ekkert eftir fyrir hann. Makalaus persónusköpun sem lifnaði á sviðinu.

Davíð Þór sótti í sig veðrið sem Magnús í Bræðratungu. Þetta er hrikalega erfitt hlutverk en hann skilaði því af þrótti og sannfæringu svo aðdáunarvert var.

Jónmundur Grétarsson leikur Arnas Arnæus, manninn sem tekur bækurnar fram yfir konuna. Hann varð ekki eins mikilvæg persóna í þessari uppsetningu og venjan er, einkum vegna þess að hér er pólitíkinni að mestu sleppt. Ef aðaláherslan er lögð á Snæfríði þá er eðlilegt að Arnas sé mikið til fjarverandi, hann býr í öðru landi, þar er hans líf. Bestur var Jónmundur þegar þau Snæfríður tókust á eins og samtímapar.

Bjartur Örn kom verulega á óvart í litlu hlutverki Sigurðar dómkirkjuprests, einkum í senunni í Skálholti. Svo út undir sig og svipbrigðin svo andstyggilega lúmsk að það var erfitt að slíta augun af honum!

Ekki væri þetta sýning eftir Þorleif Örn Arnarsson ef ekki væri atriði úr allt annarri átt einhvers staðar í henni. Hér er það E. Camilo Aldazábal Valdes sem ekki aðeins leikur sér að Jóni Grindvicensis í örstuttu atriði heldur fær að túlka tilfinningar verksins, reiði, ranglæti, harm og sársauka í mögnuðu dansverki. Ef til vill snart það atriði dýpst.

Leikmynd og búninga hannar Guðný Hrund Sigurðardóttir og hvort tveggja er óvænt og frumlegt. Þar er pappír meginuppistaðan og er algert undur hvað leikararnir geta búið til glæsilegar flíkur utan á sig fyrir allra augum! Tónlistin er í flinkum höndum Unnsteins Manuels Stefánssonar sem líka átti til að ýta undir húmorinn í verkinu á óvæntan hátt.

Þetta reiknast mér til að vera áttunda Íslandsklukkan sem ég sé á sviði og án efa sú óvæntasta og óvenjulegasta. Sýningin er orðin til af ástríðufullum áhuga á verkinu sem skilar sér í hverju atriði, ekki síst hitanum og alvörunni í leiknum.

Silja Aðalsteinsdóttir