Blóðuga kanínan

Í gærkvöldi frumsýndi leikhópurinn Fimbulvetur leikritið Blóðugu kanínuna eftir Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur í Tjarnarbíó, leikstjóri er Guðmundur Ingi Þorvaldsson.

Þegar við komum inn er á sviðinu lítið kaffihús með fáeinum misstórum borðum, afmarkað af þykkum bakvegg úr litríkum púðum. Handan við vegginn bíða fimm skuggar en til vinstri á sviðinu er píanó. Við það situr Sirkusstjórinn (Borgar Ao) og leikur á það en Dísa (Þóra Karítas Árnadóttir) er að búa salinn undir komu gesta. Hún pússar borðin og strýkur svuntu sína með þráhyggjukenndum takti, gengur svo að hljóðnema og fer að syngja: „Picture you upon my knee,/tea for two and two for tea,/me for you and you for me …“ En áður en hún lýkur erindinu á orðinu „alone“ verður sprenging og hún þarf að byrja upp á nýtt – með sama snubbótta endi. Við sjáum engan gest í salnum en þegar Trúðurinn (Ævar Þór Benediktsson) kemur inn með Barnið (Íris Tanja Flygenring) og biður um borð segir Dísa að það sé því miður allt fullt, „Hann“ sé með öll borðin. Hér er ekki allt með felldu.

Smám saman verður ljóst að „sirkusinn“ sem hér er sýndur er hugarheimur Dísu og stríðið sem sprengjurnar votta er styrjöldin í sálarlífi hennar. Ólíka þætti persónu hennar túlka Trúðurinn áðurnefndi og Barnið, sömuleiðis Fáráðlingurinn (Aðalbjörg Þóra Árnadóttir), Píslarvotturinn (Íris Tanja), Hetjan (Ólafía Hrönn Jónsdóttir) og Skrímslið (Davíð Freyr Þórunnarson). Með aðstoð þessarar hjálparsveitar förum við í gegnum líf Dísu, áföllin í bernsku og síðar á ævinni og freistum þess að vinna úr þeim með henni. Þar er líka mikil stoð í Tárinu (Ólafía Hrönn) sem titrar og glitrar, nærir og huggar.

Þetta virkar kannski óárennilegt enda er hér beitt ekki ólíkum súrrealisma og í verki Caryl Churchill, Ein komst undan. En þetta er líka fagurt verk, textinn ljóðrænn og sterkur og opnar á hyldýpi sálar. Sýning er öll fantavel hugsuð af Guðmundi Inga. Hver partur Dísu var unninn af vandvirkni og alúð; Trúður Ævars Þórs ýtinn, óþekkur en líka smeykur, Fáráðlingur Aðalbjargar frekur og ófyrirsjáanlegur, Hetja Ólafíu Hrannar þétt á velli og í lund og sem Tárið var hún tært yndi. Íris Tanja var einlægt og gott Barn en líka frábær Píslarvottur, túlkaði eðli hans á heillandi hátt með hreyfingum og svipbrigðum. Allur leikur þeirra var satt að segja hrífandi.

Átök Dísu og Skrímslisins eru hápunktur verksins enda verulega óþægilegt að hugsa sér að við tökum ofbeldismann okkar inn á okkur þannig að hann yfirgefi okkur í rauninni aldrei. Davíð Freyr var frábær í hlutverki sínu og gervið á honum úthugsað. Þóra Karítas vinnur leiksigur í hlutverki Dísu sem allan tímann er vitundarmiðja sýningarinnar, óróleg, angistarfull, þjáð en þó öll af vilja gerð.

Í leikmynd Þórunnar Maríu Jónsdóttur ægir öllu saman eins og eðlilegt er í rugluðum kolli Dísu og búningarnir, sem Þórunn María á líka, eru ævintýri líkastir. Hver karakter fékk sinn einkennisbúning en sú mynd var brotin upp í dýrlegu millispili með gulum sólblómum og tveim yndislegum fiðrildum! Það atriði var eins og sérstakt ljóð inni í þessum mikla bálki. Hljóðmyndin sem Borgar Ao skapar jafnóðum var beinn þátttakandi í leiknum, auk þess sem Borgar var áhrifamikið mótvægi við Dísu með sína hljómmiklu, karlmannlegu rödd og yfirvegaða fas.

Elísabet Kristín Jökulsdóttir hefur verið vaxandi höfundur í vitund þjóðar sinnar á undanförnum árum. Það stafar ekki af því að hún sé nýbyrjuð að skrifa heldur tók það fólk furðulangan tíma að átta sig á því hvað hún hafði margt að gefa. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þetta nýja eða nýfundna verk mun laða aðdáendafjölda í Tjarnarbíó.

 

Silja Aðalsteinsdóttir