Við göngum inn í glæsilega leikmynd á Nýja sviði Borgarleikhússins þegar við mætum á Dúfurnar, leikrit Davids Gieselmanns sem var frumsýnt í gærkvöldi. Ilmur Stefánsdóttir hefur skapað verkinu smart umgjörð með ferkílómetravís af hvítu gardínuefni, gráum og hvítum bekkjum, hvítum lömpum, hvítum leðursessum og einu glitrarndi gervijólatré innst í vinstra horni. Svo koma leikararnir inn, drjúgur partur af framvarðarsveit hússins ásamt kunnuglegum spaugstofumanni sem aldrei bregst, í búningum sem gera mann grænan af öfund – enda eru þau ekki að túlka nein fjárhagsleg smámenni.

Dúfurnar

Sviðið tekur snið sitt af heimili aðalpersónunnar og konu hans, Bertrand-hjónanna Roberts (Hilmir Snær Guðnason) og Gerlinde (Halldóra Geirharðsdóttir) og sonar þeirra (Jörundur Ragnarsson), en í rauninni erum við líka og um leið á skrifstofu fyrirtækis þeirra, inni á heimili aðstoðarforstjórans Holgers Voss (Halldór Gylfason) og Natalie konu hans (Elma Lísa Gunnarsdóttir), á stofu sálfræðings og viljugs elskhuga þeirra allra, dr. Asendorfs (Sigurður Sigurjónsson), í dúfnakofa Roberts og lúxúsveitingahúsinu þar sem þau halda veislur sínar. Þar þjónar önnur Reichert-systranna (Unnur Ösp Stefánsdóttir) en hin – sem er alveg eins – vinnur í fyrirtæki Bertrands og hefur þar að aðalstarfi að einelta vesalings Holger Voss til að reyna að fá hann til að segja upp. Inn í þessa samansúrruðu veröld skundar Imke var der Vries (Nína Dögg Filippusdóttir), óræð en ötul hollensk ljóska sem hefur úrslitaáhrif á gang mála. Allt sviðið, eða hvaða hluti þess sem er, verður vettvangur ólíkra staða til skiptis, umsvifalaust og án minnstu breytinga. Persóna lengst til vinstri á sviðinu segir kannski setningu sem sýnir að hún er stödd á heimili Bertrand-hjónanna. Henni er svarað af persónu langt til hægri, svo að allt sviðið verður að þessu heimili, og hinir leikararnir setja upp svip misspenntra áhorfenda. Svo blandar þriðji aðili sér í málið og við erum komin á allt annan stað.

“Ég verð að losna héðan,” stynur Robert Bertrand í upphafi leiks. Þó að hann eigi allt sem hægt er að eiga hefur sest að honum innilegur leiði. Hann þráir einfalt líf með dúfunum sínum sem hann ræktar á laun. Hann lætur sig hverfa, sem minnir svolítið á heimilisföðurinn í Fjölskyldunni á stóra sviðinu fyrr í vetur. Til þess þarf hann að gera ráðstafanir sem reynast auðvitað ófyrirsjáanlegar. Við erum stödd í miðjum suðupotti lyga, svika og bókhaldsglæpa svo leikhúsfélaga mínum varð á orði eftir á að þetta væri besta hrunverkið sem hann hefði séð til þessa. Leikritið er líka fantavel skrifað og prýðilega þýtt af Hafliða Arngrímssyni, og Kristín Eysteinsdóttir leikstjóri hefur skemmt sér undir drep við að stýra þessum dásamlega leikhópi í trylltum hrunadansi verksins. Ekki veit ég hvort dægurlögin sem leikararnir “taka” þegar þeir bresta í söng eru skrifuð inn í verkið en þau vöktu mikla kátínu, enda engir aukvisar á ferð í söng þar sem er jafnvel fagfólk á borð við Halldóru Geirharðsdóttur og Halldór Gylfason. Það ríkti mikil leikgleði á Nýja sviði í gærkvöldi, að ég segi ekki sturluð leikvíma, og vísast að Robert Bertrand ratist rétt á munn þegar hann stynur í leikslok: Ég slepp ekki héðan í bráð …

PS. Mér hefur borist njósn af þýsku frumuppsetningunni á Schaubühne í Berlín í fyrra. Þar voru líka sungin dægurlög sem partur af sýningunni, en ekki sömu lögin. Líklega hefur hver leikari fengið að velja lag fyrir sinn karakter í báðum sýningum  en þó haft leikstjórann með í ráðum. Tíðindamanni mínum þótti íslenska uppsetningin ekki síðri en sú þýska og mun höfundurinn, sem var viðstaddur frumsýninguna, hafa verið himinlifandi.

 

Silja Aðalsteinsdóttir