Það er býsna djarft að skíra óperu eftir þögninni, fátt virðist óskyldara en þær tvær. En þetta gera Árni Kristjánsson handritshöfundur og Helgi Rafn Ingvarsson tónskáld því ný ópera þeirra, sem var frumsýnd í Tjarnarbíó í gærkvöldi undir stjórn höfundanna og á vegum sviðslistahópsins Hófstillt og ástríðufullt, heitir einfaldlega Þögnin.

Það er ekki bókstafleg þögn sem um ræðir heldur þögnin sem stundum verður í samskiptum náinna ættmenna, í þessu tilviki milli feðga. Ekkillinn Hjálmar (Bjarni Thor Kristinsson) er löngu horfinn inn í þögnina í einmanaleik sínum en þegar hann heyrir lát Áróru (Björk Níelsdóttir), ástkonu sinnar forðum tíð, sækja að honum afturgöngur fólksins sem hann sveik. Hann yfirgaf Áróru ólétta og gekkst aldrei við syninum sem hún fæddi honum vegna þess að hann lofaði Báru (Elsa Waage), konunni sem hann kvæntist, að skipta sér ekki af honum. Nú er komið að skuldadögum. Hjálmar langar til að fylgja Áróru til grafar og eftir jarðarförina getur hann ekki stillt sig um að fara í erfisdrykkjuna – því auðvitað þráir hann innst inni að hitta soninn sem hann hefur aldrei séð. Og sonurinn þráir fyrir sitt leyti að faðirinn „sjái“ hann og er fús til að fyrirgefa áratuga hunsun. Það er hinn fallegi og manneskjulegi boðskapur verksins. Spurningin er hvort fyrirgefningin sigrar þögnina.

Inn í þennan söguþráð er fléttað minningum Hjálmars úr fortíðinni, beiskum ávítum Báru yfir brotum hans og ástríkum minningum hans um Áróru sem Björk syngur engilfagurt. Tónlistin er mjög fjölbreytt og hæfir efninu vel, er tilfinningarík og seiðandi, og spannar allan tilfinningaskalann frá blíðum strokum á sellóið til hvellra tóna trompetsins, þó dempaðir væru. Píanóið, þriðja hljóðfærið á sviðinu, túlkar auðveldlega hvort tveggja. Fleiri voru hljóðfærin ekki en hljómuðu auðveldlega eins og heil hljómsveit.

Bjarni Thor syngur stærsta hlutverkið og ber í raun og veru óperuna uppi, enda skínandi góður leikari auk þess að vera frábær bassasöngvari. Önnur hlutverk eru líka vel skipuð, Elsa Waage hádramatísk bitur eiginkona, Gissur Páll mildin sjálf sem sonurinn en einkum var Björk töfrandi í hlutverki Áróru.

Tjarnarbíó er dásamlegt leikhús en það er ekki hannað fyrir óperusýningar. Þó að hljómsveitin væri ekki stór yfirgnæfði hún oft textann vegna þess að hún var nær okkur áheyrendum en söngvararnir. Textinn í Þögninni er markviss og skiptir máli þannig að maður vill helst ná honum öllum. Sem betur fer gekk vel að skilja báða karlsöngvarana; erfiðara var að skilja konurnar, einkum Elsu því að röddin hennar féll saman við sellóið, sem var nokkuð ráðandi hljóðfæri. Það er Guðný Jónasdóttir sem leikur listavel á sellóið, aðrir hljóðfæraleikarar eru Eiríkur Rafn Stefánsson á trompet og Matthildur Anna Gísladóttir á píanó.

Í dag verða tvær sýningar á Þögninni, kl 16 og kl. 20. Sú fyrri er hluti af Menningarnótt og þá er ókeypis aðgangur. Íslensk ópera er sjaldgæfur viðburður og húsið var troðfullt í gær. Allt tónlistaráhugafólk sem vettlingi getur valdið ætti að drífa sig í dag!

Silja Aðalsteinsdóttir og Sigþrúður Gunnarsdóttir