Það er skínandi góð hugmynd hjá forráðamönnum (eða –manni) Frystiklefans á Rifi á Snæfellsnesi að endurvekja Trúðleik eftir Hallgrím H. Helgason. Hann var áður sýndur af Leikfélagi Íslands í Iðnó árið 2000 og fékk ágætar viðtökur ef ég man rétt. Annar trúðanna þá, Halldór Gylfason, er leikstóri núna á Rifi, og honum tekst að minnsta kosti álíka vel upp þar og við trúðleikinn áður.

Leikhópurinn hefur lagað umgjörð verksins að nýjum vettvangi og við erum að þessu sinni stödd á útihátíðinni „Finnskum dögum“ þar sem trúðarnir Spæli (Benedikt Karl Gröndal) og Skúli (Kári Viðarsson) eiga að skemmta okkur. En það er ekki eins og Skúli hafi hugmynd um hvað klukkan er, hann sefur inni í tjaldi alveg þangað til Spæli ryðst inn á sviðið með býsna stórkarlalegum hætti …

TrúðleikurSvo hefst sýningin eftir nokkurt japl og jaml. Spæli byrjar á því að „taka“ íþróttaálfinn og tókst þannig upp að mér svelgdist á munnvatni mínu af hlátri, hann kom yfir mig svo skyndilega. En þó að Spæli sé hrikalega sniðugur og ótrúlega fimur er hann ekki sáttur við líf sitt sem trúður og vill ræða það í fúlustu alvöru við Skúla. Honum finnst gaman þegar hlegið er að honum á hans forsendum en hundleiðinlegt og niðurlægjandi þegar hlegið er að óförum hans – til dæmis þegar Skúli hrindir honum ofan í litla barnalaug á sviðinu. Það er ómerkilegt fólk, finnst honum, sem kemur í leikhús til að hlæja að fólki sem blotnar óvart eða af hrekkjum. Augljóslega hefur Spæli aldrei áttað sig á því út á hvað akkúrat trúðleikur gengur. Hann dreymir um annað líf og öðruvísi – eins og svo marga – virðulegra líf, helst af öllu skipulagt og öruggt líf skrifstofumanns. Benedikt átti ekki í neinum vandræðum með að gefa okkur fyndna og um leið ofboðlítið hjartaskerandi innsýn í huga þessa kunnuglega karakters.

Skúli skilur ekki Spæla. Hann er hjartanlega sáttur við líf sitt sem trúður – enda hláturmildur og svo hugmyndaríkur að það er eins og hann fái nýjar hugmyndir í hvert skipti sem hann dregur andann. Stundum komu þær svo þétt að maður hafði ekki tíma til að hlæja. Alltaf tekst honum að ná Spæla með sér í leikinn en bara örskamma stund, þá áttar Spæli sig á því að það er enn verið að troða honum í gamla kjánalega hlutverkið og stoppar allt saman. Hvað vilt þú þá gera? spyr Skúli, og Spæli segist vilja æfa sig að sækja um starf. Almennilegt starf. Þá þarf Skúli að leika forstjórann sem Spæli sækir um vinnu hjá, og þegar Spæli er búinn að skamma Skúla og ögra honum langa hríð fer svo að lokum að hann fær Skúla til að verða að ströngum forstjóra, sannkölluðum harðstjóra. Stundum stutt þarna á milli, trúðsins og harðstjórans, er það ekki?

Þetta langa atriði var hápunktur sýningarinnar, bæði hrikalega fyndið og dálítið óhugnanlegt, og þar skinu þeir Benedikt Karl og Kári báðir svo eftirminnilegt verður.

Yfirbókað var á sýninguna í gær en því miður var hún sú síðasta, að sinni að minnsta kosti. Mikið væri nú skemmtilegt ef eitthvert Reykjavíkurleikhúsið byði þeim félögum að sýna hana hjá sér. Þó er ólíklegt að nokkurs staðar yrði hægt að endurtaka hið stórbrotna upphafsatriði leiksins. Þar hefur Frystiklefinn eitthvað sem varla nokkurt annað leikhús hefur, eða hvað?

Silja Aðalsteinsdóttir