HarmsagaLeikritið Harmsaga eftir Mikael Torfason var frumsýnt i Kassa Þjóðleikhússins í gærkvöldi undir stjórn Unu Þorleifsdóttur. Eins og nafnið bendir til er þetta átakanleg og býsna nöturleg mynd úr íslenskum samtíma en því miður líka óþægilega sannferðug. Sigrún (Elma Stefanía Ágústsdóttir) er lögfræðinemi og Ragnar (Snorri Engilbertsson) vinnur á fasteignasölu sem hann á part í. Þau hafa verið saman síðan þau voru unglingar og eiga tvö börn. Í svipmyndum úr fortíðinni sjáum við þau glöð og ástfangin en nú er hann fluttur út – þó að hann vilji það ekki og sé eins og grár köttur á heimilinu – og þau eru föst í vítahring ásakana, stóryrða, skamma og ofbeldis. Þó bera þau bullandi heitar tilfinningar hvort til annars, það sjáum við líka. Hvers vegna hefur farið svona fyrir þeim?

Lengi vel er óljóst hvað ber á milli en örstutt mynd af Sigrúnu nýkominni heim eftir fæðingu eldra barnsins gefur í skyn að þunglyndi hennar – kannski fæðingarþunglyndi, kannski krónískt þunglyndi – eigi hlut að máli. Þunglyndi sem eiginmaðurinn ungi hefur ekki hugmynd um hvernig á að mæta og takast á við.

Rifrildi eru ekki frjótt efni og Mikael gerir sér erfitt um vik með því að vera aðeins með tvær persónur. Í Hver er hræddur við Virginíu Woolf brýtur Albee einvígi hjónanna upp með því að senda inn á þau ungt par sem ekkert veit um fortíð eldri hjónanna. Endurtekningasöm samtöl Sigrúnar og Ragnars eru ekki „skemmtileg“ á að hlýða en atriðin úr fortíðinni létta á þeim og beiting tónlistar (John Grant og Kristinn Gauti Einarsson) og ljóss (Magnús Arnar Sigurðarson) gerði líka sitt til að mynda glæsilega listræna heild úr þessum einhæfa efniviði. Svið Evu Signýjar Berger fannst mér rosalega flott og vel hugsað; dæmalaust smart þegar blokkaríbúðin breytist í danssal með gólfljósum. Það er líka vel leyst hvernig við fáum að vita af börnunum í sínu barnaherbergi bakatil án þess að hafa þau á sviðinu.

Mestu skipti þó hvað Elma Stefanía og Snorri léku hlutverk sín af miklu öryggi og innlifun. Snorri var hreinskiptinn en skilningslítill karlmaður lifandi kominn; hann veit ekki hvað hann hefur gert rangt, skilur ekki þó að Sigrún gefi honum það í skyn með orðum og æði að hann á að láta af afbrýðisemi og ásökunum, hætta að nauða og láta hnefana tala og vera góður við Sigrúnu. Tala við hana og kannski umfram allt hlusta á hana. Ennþá meira reyndi á Elmu Stefaníu, hlutverk hennar er betur hugsað á dýptina og betur skrifað og hún sýndi að mínu mati þroskaðan og glæsilegan leik – ekki síst miðað við að hún er nýútskrifaður leikari. Leikritið gerist að kvöldlagi og það er bæði nekt og opinská ástaratlot á sviðinu auk slagsmálanna en allt það þoldu báðir leikararnir vel. Þetta er fallegt ungt fólk og vel á sig komið og virtist gersamlega ófeimið í þeirri miklu nánd sem Kassinn krefst.

Það er óskandi að þessi sýning nái til þeirra sem hún er ætluð, ungs fólks sem hefur aldrei verið sagt eða kennt hverjar skyldur þess eru í sambúð og gerir sér óraunhæfar vonir um ljúft og átakalaust líf þegar það sleppur úr foreldrahúsum. Ef lífið er dans á rósum þá eru andskoti margir þyrnar á þeim.

Silja Aðalsteinsdóttir