Ólafur Egill Egilsson leikstjóri tekur fyrir hvert íkonið af öðru. Fyrst var það Elly, næst Bubbi og í gærkvöldi var frumsýnd í Kassanum rannsókn hans á lífi Ástu Sigurðardóttur, rithöfundar og myndlistarkonu. Ólafur er ekki að brjóta þessar helgimyndir en hann leggur sig fram um að vera heiðarlegur gagnvart þeim og þá kemur auðvitað í ljós að þau voru engir dýrlingar. Einmitt þess vegna eru þau spennandi rannsóknar- og umfjöllunarefni.

Í ár er hálf öld síðan Ásta drakk tréspíra, líklega án þess að vita það, og dó hrikalegum dauðdaga. Hún var bara 41 árs en búin að missa allt sem gaf lífi hennar gildi. Börnin hennar fimm sem hún átti með Þorsteini frá Hamri höfðu verið tekin af henni og send í fóstur vestur á Mýrar. Elsta barnið sitt hafði hún aldrei haft almennilegt samband við. Svo þorði hún ekki lengur að sýna öðrum það sem hún var að skrifa og þó hafði hinn kunni fræðimaður Sverrir Kristjánsson sagt um hana ekki löngu áður að mörgum þætti sem „nú væri risin upp meðal vor pennafærasta kona á Íslandi“.

Ólafur Egill lætur Ástu (Birgitta Birgisdóttir) sjálfa segja sögu sína og býr henni í upphafi ramma á fundi Intelligensíufélagsins sem Bragi Kristjónsson (Hákon Jóhannesson) stýrir. Hún er fögur og glæsileg í rauðum kjól, hnyttin og kjaftfor, en ekki einu sinni í svo fínum félagsskap getur hún stýrt drykkjunni. Nöturlegt var þarna alveg í byrjun að sjá hana pína ofan í sig viskí með hráu eggi til að vinna bug á timburmönnunum

Svo kemur sagan, meira og minna í réttri tímaröð: Uppeldið á Snæfellsnesi hjá strangtrúaðri móður (Aðalbjörg Þóra Árnadóttir), róttækum föður (Hákon Jóhannesson) og Oddnýju litlu systur (Steinunn Arinbjarnardóttir). Nýfermd fer hún suður – í Kennaraskólann með sína mis-skilningsríku kennara. Fyrsta birta sagan í Lífi og list sem Steingrímur St.Th. Sigurðsson (Gunnar Smári Jóhannesson) stýrði, fyrsti barnsfaðirinn, Jóhannes Geir (Oddur Júlíusson), sem líka er sá fyrsti sem svíkur, fyrsta stóra ástin, Geir Kristjánsson (Hákon Jóhannesson) sem líka svíkur, eiginmaðurinn (Gunnar Smári), börnin fimm, bókin sem ber nafn fyrstu sögunnar, síðan hin sárustu svik þegar áfengið hefur tekið öll völd og loks grimmur dauði. Þéttan og efnismikinn textann fléttar Ólafur Egill listilega úr bréfum frá Ástu, sögum hennar og ljóðum en líka úr samtölum við ótal manneskjur sem þekktu hana. Honum til aðstoðar við rannsóknar- og textavinnuna var Andrea Elín Vilhjálmsdóttir dramatúrg.

Þetta er nöturleg saga sem ég vona að gæti ekki gerst í dag. Að nú séu til úrræði sem geta bjargað hæfileikakonu frá sjálfri sér. En sýningin er ekki eins myrk og þessi lýsing gæti gefið til kynna. Svið Sigríðar Sunnu Reynisdóttur er fjörlega hlaðið alls konar húsgögnum og búshlutum, færanlegur stigi kemur í stað hringsviðs, tjöld eru dregin fyrir og frá, hengd upp og tekin niður … Og innst á sviðinu til hægri er hljómsveit sem kallar fram minningar um fyrstu opinberu böllin mín og söngkona (Matthildur Hafliðadóttir) sem syngur lög sín og Guðmundar Óskars Guðmundssonar við ljóð Ástu. Svo er Ásta full af uppreisn og orku og yfirleitt kát meðan hún á einhverja von, alla vega inn á milli þess sem hún berst fyrir rétti sínum til að vera sú sem hún er eða losar sig við velviljaða en ágenga karla. Fegurðin sem við dáum í dag og blásum upp landsfrægar myndir af varð henni sjálfri til lítillar gæfu.

Allir leikararnir nema Birgitta taka að sér nokkur hlutverk og búa til marga minnisstæða smámyndina af fólkinu í kringum Ástu. Aðalbjörg var frábær sem móðir Ástu, gervið vel heppnað og túlkunin allt í gegn. Hún var líka óvæntur Stefán Hörður. Hákon var fínn Geir og naut sín líka sérlega vel sem Elías Mar. Steinunn lék ýmsa heldur hvimleiða fulltrúa hins opinbera og aðra góðborgara, gervið á henni í hlutverki Arnfríðar Jónatansdóttur var fullkomið, en fyrst og fremst var hún systirin, bjargvætturinn góði en líka kóarinn og skaffari vímuefna. Oddur var kostulegur Jónas Svafár og skemmti sér konunglega sem Kalli rafvélavirki. Gunnar Smári var alveg einstaklega kræsilegur Steingrímur St.Th. og hryllilega fyndin snöggu umskiptin þegar Ásta minnir á að hann hafi enn ekki greitt henni fyrir söguna sem hefur sett Reykjavík á annan endann. Gunnar var líka trúverðugur í hlutverki Þorsteins, föður barnanna, og Ólafur Egill gætir þess að dæma hann ekki.

Öll þessi smástirni svífa á sínum sporbaug kringum sólina. Birgitta fer allan tilfinningaskalann í þessu stóra hlutverki nokkrum sinnum á tveim og hálfum klukkutíma og ég hef sjaldan séð leikara taka eins á – enda er henni engin miskunn sýnd. Hraðinn í sýningunni er þó svo mikill að það gefst sjaldan tækifæri til að velta sér upp úr eymdinni; en í lokin er hægt á og þá er gengið ennþá nær, bæði leikara og áhorfendum.

Tónlistin sem Guðmundur Óskar stýrði var smekklega notuð og aldrei um of. Ég er ekki viss um að lögin við ljóðin hennar Ástu eigi sér framhaldslíf en Matthildur söng þau fallega. Búningar Sigríðar Sunnu og Sigurbjargar Stefánsdóttur voru í réttum tíðaranda og eins og vera bar skáru litríkir búningar Ástu sig úr. Eina sem ég efaðist um voru peysur barnanna í lokin. Fötin sem Ásta bjó til á börnin sín voru mjög smekkleg. Halldór Örn Óskarsson sá um lýsingu sem var flókin og tjáningarrík.

Ásta Sigurðardóttir hefði orðið níræð í fyrra hefði hún lifað og í tilefni af því stóð mikið til sem allt frestaðist. Nú hefur leiksýningin um hana verið frumsýnd og mun gleðja leikhúsgesti næstu mánuði og ár og í nóvember verður haldið málþing og gefið út ritgerðasafn um verk hennar. Við erum ekki búin að gleyma þér, Ásta.

Silja Aðalsteinsdóttir