Bjarni Fritzson: Orri óstöðvandi

Út fyrir kassann 2018

Orri óstöðvandi: hefnd glæponannaog

Út fyrir kassann 2019

Úr Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 2020

 

Orri óstöðvandi

Orri óstöðvandi eftir Bjarna Fritzson

Enga bók hefur ritdómari lesið oftar en strákasöguna Ellefu strákar og einn knöttur eftir Hanns Vogts. Það er saga um vinahóp úr verkalýðsstétt í byrjun heimskreppunnar sem keppa fyrir hönd skólaliðsins á móti fínu yfirstéttarpiltunum úr nálægum snobbskóla og fá rækilega á baukinn. Með þrotlausum æfingum vex hópnum hins vegar ásmegin og ná strákarnir fram hefndum og vinna frægan sigur. Sagan um fótboltastrákana ellefu hafði komið út í Vestur-Þýskalandi árið 1947 og var þar margt framandi fyrir lesanda frá Reykjavík níunda áratugarins, svo sem lýsingar á því hvernig strákarnir safna pening til að kaupa treyjur með því að hirða og selja koksmola sem hrotið höfðu af járnbrautarvögnum. En það voru svo sem ekki þær frásagnir eða lítt dulbúinn sósíalískur boðskapurinn sem var aðdráttarafl bókarinnar heldur fótboltinn.

Fyrir bókaorm með fótboltadellu var barnadeildin í gamla Borgarbókasafninu við Þingholtsstræti hálfgert eyðiland. Það mátti bókstaflega telja fótboltasögurnar á fingrum annarrar handar. Auk alþýðudrengjanna frá millistríðsárunum var boðið upp á bókina um Tómas miðframherja, sem var tiltölulega ný af nálinni en þýdd á nánast óskiljanlegt hrognamál. Tvær lúnar smábækur eftir breska rithöfundinn Michael Hardcastle um strákaliðið Bank Vale United leyndust í einu horninu sem og þrjár sögur eftir Svíann Max Lundgren um Knattspyrnufélagið Hæðargerði þar sem jöfnum höndum var fjallað um fótbolta og félagsleg vandamál. Hæðargerðissögurnar voru einn þeirra bókaflokka sem ekki tókst að klára að koma út á íslensku. Fjórða og síðasta bókin lá óþýdd hjá garði, ungum lesendum til verulegrar gremju.

Þessi listi má heita tæmandi yfir boltaspark í barnabókum. Þýddu barnabækurnar fjölluðu einkum um misstálpaða krakkahópa sem flettu ofan af peningafölsurum. Engum slíkum þrjótum var til að dreifa í íslenskum barnabókum, nema þá helst fálkaeggjaþjófum, sem voru einu trúverðugu skúrkarnir í glæpasögum landsmanna um langt árabil. Að öðru leyti fjölluðu bækurnar eiginlega bara um krakka sem sendir eru í sveitina – skrifaðar fyrir samtíma sem var að mestu hættur að nota börn sem ódýrt vinnuafl í landbúnaði.

Innreið boltaíþrótta í íslenskar ungmennabókmenntir hófst að marki með bókum Þorgríms Þráinssonar. Körfubolti er í veigamiklu hlutverki í Lalla ljósastaur, en karlhetjur unglingabóka Þorgríms voru einatt strákar í fótbolta. Ástarviðföng þeirra í sögunum eru oftar en ekki stelpur sem æfa handbolta.

Það er þó fyrst með bókaflokki Gunnars Helgasonar um Þróttarann Jón Jónsson sem segja má að ný undirgrein í íslenskum barnabókmenntum hafi orðið til: samtímasögur um hressa og uppátækjasama krakka í íþróttum sem hverfast að miklu leyti um þau fjölmörgu mót sem haldin eru vítt og breitt um landið. Fyrsta bók Gunnars um Jón og félaga nefndist Víti í Vestmannaeyjum og er orðin að vinsælli kvikmynd og sjónvarpsþáttaröð, en seinni bækurnar í ritröðinni höfðu önnur fótboltamót að bakgrunni innanlands og utan.

Góðar viðtökur bókaflokksins hafa ekki farið fram hjá útgefendum og rithöfundum, enda höfum við á liðnum árum séð allmargar íslenskar barnabækur sem byggja að mismiklu leyti á sömu uppskrift. Sögurnar um Orra óstöðvandi eftir Bjarna Fritzson mega teljast skýrt dæmi um slíkt, þó með því fráviki að  íþróttavísanirnar eru jöfnum höndum í fótbolta og handbolta, en Bjarni var sjálfur kunnur handboltakappi með ÍR.

Líkt og Gunnar Helgason, sem er gallharður stuðningsmaður Þróttar, gerði söguhetju sína að Þróttara skapar Bjarni Fritzson handboltastrákinn Orra sem býr í einbýlishúsi í Seljahverfinu og leikur með ÍR. Tilvera Orra er þægileg. Hann er ellefu ára gamall, á efnaða foreldra og nýtur vinsælda í skólanum. Að auki nýtur hann kvenhylli þrátt fyrir ungan aldur og á kærustu í öðru hverfi, handboltastelpuna Birtu úr Val, sem hann spjallar reglulega við á Snapchat.

Faðir Orra er snjall lögfræðingur og móðirin glaðlyndur millistjórnandi hjá Actavis með mikið keppnisskap. Eitt einkenni bókanna er raunar hversu tamt höfundi er að flétta nöfn raunverulegra fyrirtækja og einstaklinga inn í söguþráðinn. Þá á Orri eldri bróður, Sigga, sem er nýnemi í Verzlunarskólanum og er afar upptekinn af útliti sínu og líkamsburðum. Fjölskyldan er samhent, eins og sést á stöðugum ferðalögum og veiðiferðum.

Auk þessarar fjögurra manna kjarnafjölskyldu og Birtu Valsstelpu, er vinkonan Magga Messi eina persónan sem verulega kveður að í fyrri Orra-bókinni. Magga er hrokkinhærður fótboltasnillingur með „Maradona-lokka“ (líking sem væntanlega fer ofan garðs og neðan hjá stórum hluta lesenda). Hún er besti leikmaður ÍR-liðsins í knattspyrnu og besta vinkona Orra frá því að þau voru bleyjubörn ef marka má síðu 24 en frá fimm ára aldri miðað við síðu 133. Auk þess að vera frábær í fótbolta er Magga einstaklega hugrökk og hugmyndarík – fífldjörf mætti jafnvel segja. Orri keppist við að hlaða hana lofi og dásama vináttu hennar, en tekur þó reglulega fram hversu erfitt það sé að eiga stelpu að besta vini án þess að sérstaklega sé útskýrt í hverju þau vandamál séu fólgin.

Sagan er sögð í fyrstu persónu, þar sem söguhetjan Orri ávarpar lesandann öðru hvoru og lýsir því hvernig hann sé að skrifa bók um sitt ævintýraríka líf. Í seinni sögunni, Hefnd glæponanna, er fyrri bókin komin út og Magga Messi áformar að semja sína eigin bók sem slá skyldi verki Orra við. Þessi postmóderníska flétta, þar sem persónurnar eru meðvitaðar um stöðu sína sem söguhetjur í barnabók minnir á skemmtilegar sögur Magneu frá Kleifum frá níunda áratugnum um Krakkana í Krummavík (sem að sjálfsögðu gerðust í sveitinni).

Orri óstöðvandi - Hefnd glæponanna

Orri óstöðvandi – Hefnd glæponanna eftir Bjarna Fritzson.

Orri er afar meðvitaður um styrkleika sína og veikleika. Hann lýsir sér sem uppátækjasömum, fyndnum, jákvæðum og heiðarlegum – en stundum svolítið varkárum gaur. Hann hefur sterka réttlætiskennd og kemur til varnar þeim sem eru minnimáttar. Þessi ítarlega sjálfskoðun söguhetjunnar skýtur oft upp kollinum í bókunum. Ítrekað stendur Orri frammi fyrir erfiðum aðstæðum, hvort sem það er gegn ofurefli í æsilegum handboltaleik eða í vandræðalegri stöðu í partýi þar sem hann mætir í grímubúningi einn gesta. Viðbrögðin eru ætíð á sömu lund: Orri umbreytir sér í huganum í hliðarsjálf sitt „Orra óstöðvandi“ sem er einhvers konar ofurhetjuútgáfa hans. Orri óstöðvandi hefur óbilandi sjálfstraust og er aldrei hræddur við að „gera sig að fífli“ og uppsker einatt aðdáun fyrir sjálfsöryggi og frumleika.

Hugvekjur sem þessar, kryddaðar með heilræðum hins geðgóða föður Orra sem hvetur hann til þess að setja sér markmið og skrá niður á lista, gera það að verkum að ævintýri Orra minna á köflum á sjálfshjálparbók. Það ætti raunar ekki að koma á óvart, enda hefur bókarhöfundur verið iðinn við að halda námskeið við góðar undirtektir fyrir börn og unglinga sem miða að því að auka sjálfstraust.

Í þessari umfjöllun hafa verið dregin fram líkindi milli Orra óstöðvandi og bókaflokks Gunnars Helgasonar um Þróttarann Jón Jónsson. Munurinn á þessum bókum er þó margvíslegur. Fyrir það fyrsta eru bækur Gunnars með mun lengri og flóknari texta, einkum eftir því sem líður á sagnaflokkinn. Í þeim samanburði er Orri óstöðvandi nánast léttlestrarbók með stóru letri, stuttum setningum og einföldum orðaforða. Myndmál er fyrirferðarmikið og prýðilegar teikningar Þorvaldar Sævars Gunnarssonar á nálega annarri hverri opnu gegna veigamiklu hlutverki. Yfirbragð og uppsetning minna um margt á vinsæla þýdda bókaflokka um þá Kidda klaufa og Kaftein ofurbrók.

Kaflarnir eru stuttir, rétt um tuttugu síður hver og innihalda flestir sjálfstæðar sögur af fyndinni eða æsilegri uppákomu, þar sem hrekkir koma oftar en ekki við sögu. Hrekkirnir eru missakleysislegir og ganga stundum of langt, en jafnvel í þeim tilvikum hafa þeir jákvæðar afleiðingar í för með sér.

Hrekkjusvín bekkjarins verður skelfingu lostið þegar Orri heimsækir hann að næturlagi með hryllilega trúðagrímu fyrir andlitinu og tekur í kjölfarið upp betri siði og verður hvers manns hugljúfi. Leiðinlegir foreldrar fyrirliðans í Víkingi (erkifjenda ÍR í handboltanum) sem skamma son sinn í sífellu fá makleg málagjöld með vænum skammti af laxerolíu og láta sér það að kenningu verða. Bræðurnir Orri og Siggi keppast líka við að hrekkja hvor annan. Þegar gamanið fer stöku sinnum yfir strikið dugir yfirleitt einföld afsökunarbeiðni auk þess sem hinn bróðirinn jafnar metin innan tíðar.

Þessir örstuttu og laustengdu kaflar valda því að bækurnar virðast stundum samhengislausar, auk þess sem hraðinn í frásögninni verður á stundum yfirgengilegur. Þannig líða í seinni bókinni tólf blaðsíður frá því Orri, Magga og Siggi bróðir uppgötva soltinn ísbjörn í miðri veiðiferð, þar til þau hafa nýtt sér veikleika hans til að flýja – þökk sé handboltahæfileikum Orra og visku Möggu, sem einmitt hafði skrifað skólaritgerð um hátterni ísbjarna – því næst stungið björninn af á fjórhjóli og loks kallað til yfirvöld með ríkislögreglustjóra í broddi fylkingar sem svæfa dýrið. Liðin er sú tíð þegar æsilegur ísbjarnaslagur náði að bera uppi heila bók um þá Nonna og Manna.

En þó áherslan á handbolta- og fótboltamót Orra og félaga felli bækurnar í hinn nýja íþróttabókaflokk sem fjallað hefur verið um, þá sverja þær sig líka í ætt við Enid Blyton og Karls Blómkvist-hefðina í barnabókum, þar sem vaskir krakkar kljást við harðsvíraða fullorðna glæpamenn. Í upphafi fyrri bókarinnar rekst Orri bókstaflega á skuggalegan náunga sem reynist tilheyra gengi innbrotsþjófa sem heldur Reykvíkingum í heljargreipum. Undir lok bókarinnar tekst Orra og Möggu að afhjúpa þrjótana. Þau lenda í æsilegum eltingarleik í Elliðaárdalnum, uns lögreglan skerst í leikinn. Sögunni lýkur svo með heimsókn Guðna forseta, sem útbýtir fálkaorðum.

Síðar á Guðni eftir að koma aftur við sögu, þá sem foreldri á fótboltamóti á Akureyri sem stöðvar slagsmál strákahópa. Fleira frægðarfólki bregður fyrir. Þannig hleypur landsliðsfyrirliðinn Aron Einar í skarðið sem dómari í fótboltaleik. Krakkarnir hlusta á nýjustu dægurlögin frá stærstu stjörnunum í vinsælustu útvarpsþáttunum. Bjarni Fritzson er afar meðvitað að skrifa fyrir samtíma sinn og hugsar lítið út í hvernig bækurnar muni eldast. Jafnvel líkingamálið er á köflum bundið við tíma og rúm. Þannig er maður sem sprautað var yfir með dufthylki sagður hvítari en tennurnar á Jürgen Klopp þjálfara Liverpool!

Innbrotsþjófarnir þrír fá aukið hlutverk í seinni bókinni um Orra óstöðvandi, sem ber raunar undirtitilinn Hefnd glæponanna. Bókin er fleyguð með nokkurs konar dagbókarfærslum eins þrjótanna, sem lýsir útsmognum flótta þeirra frá Litla-Hrauni, með það að markmiði að ná sér niðri á Orra og Möggu.

Dramatískt lokauppgjör á sér stað, þar sem höfundur sækir grimmt í söguþráð Home Alone-myndanna, þar sem barnung söguhetja hrellir óbótamenn með hvers kyns gildrum. Á þessum tímapunkti er allt raunsæi í frásögninni látið lönd og leið en ærslagrínið nær yfirhöndinni. Bókarhöfundur viðurkennir fúslega hvaðan innblásturinn er fenginn og lesandinn veit strax hvað klukkan slær. Allir krakkar þekkja myndirnar Home Alone.

Ný ævintýri eru boðuð í lok seinni bókarinnar og gefið í skyn að Orri og Magga muni næst lenda í ævintýrum á ferðalagi. Eftir að hafa tvívegis fangað glæpagengi og haft betur í viðureign við ísbjörn er vandséð hvernig krakkarnir eiga að geta trompað sjálf sig, milli þess að sigra á helstu boltaíþróttamótum landsins. Hver veit nema eldsumbrot komi við sögu?

Hin áhyggjulitla veröld Orra óstöðvandi ristir kannski ekki sérlega djúpt en sögurnar eru líflega skrifaðar og af allnokkru hugmyndaflugi. Helsti mælikvarðinn hlýtur þó að vera undirtektir sjálfs viðtökuhópsins.

Á heimili ritdómara er pjakkur sem er nýorðinn ellefu ára og lifir lífi sem hverfist um fótbolta og handbolta. Þrátt fyrir að hafa snemma orðið fluglæs, hefur hann lítið fengist til að lesa og haft takmarkaðan áhuga á þeim aragrúa barnabóka sem að honum hefur verið otað. Helstu undantekningarnar eru allt sem snýr að fótbolta, svo sem bókaflokkurinn sem Illugi Jökulsson hefur tekið saman um einstaka knattspyrnukappa og bækur Gunnars Helgasonar – þó með því að fletta hratt yfir allt sem snýr að ástarlífi söguhetjunnar.

Það var því þröngt nálarauga sem Orri óstöðvandi þurfti að smjúga í gegnum, en sögurnar stóðust þá prófraun með glans. Báðar bækurnar voru lesnar í striklotu og fengu bestu meðmæli, þótt augljóslega væru þær ekki fyllilega raunsæjar… það dettur auðvitað engum í hug að ÍR-ingar geti verið svona góðir í alvöru!

Stefán Pálsson