Eiginlega er merkilegt að leikrit eftir David Ives skuli ekki hafa rekið á fjörur mínar fyrr en í gærkvöldi, svo vinsæll og verðlaunaður er hann í heimalandi sínu, Bandaríkjunum. Það er bæði snjallt og djarft af Eddu Björgu Eyjólfsdóttur að velja eitt hans umtalaðasta verk, Venus í feldi, til að setja upp hér á landi en verkið var frumsýnt í Tjarnarbíó fyrir síðustu helgi. Hún stýrir því sjálf en Stefán Már Magnússon þýðir, Brynja Björnsdóttir gerir einfalda leikmynd og María Ólafsdóttir sér um búningana sem eru óvæntir og sniðugir. Tónlist og hljóðmynd eru á vegum Halldórs Eldjárn en Ólafur Ágúst Stefánsson og Jóhann Friðrik Ágústsson lýsa.

Thomas Novachek (Sveinn Ólafur Gunnarsson) hefur unnið leikgerð upp úr austurrískri skáldsögu frá 19. öld og er nú að leita að leikkonu til að fara með aðalhlutverkið, Vöndu. Hann hefur prófað konur á öllum aldri allan daginn og er örþreyttur og leiður á leið heim í mat þegar ung kona stormar inn til hans. Hún segist heita Wanda (Sara Dögg Ásgeirsdóttir) – sem honum finnst merkileg tilviljun – og linnir ekki látum fyrr en hún hefur fengið hann til að taka sig í prufu. Hún er, að honum finnst, allt sem Vanda verksins er ekki, hávær og hraðmælt, alltaf á iði, baðar út höndum og hagar sér yfir höfuð eins og ágengur stelpukrakki. En þegar hún er komin með handrit í hendurnar og byrjar að fara með texta Vöndu þá verður hún önnur manneskja. Raunar verður hún alveg eins og Vanda verksins á að vera og hiklaust flettir hún utan af sér hverju laginu af flíkum á fætur öðru. Hver er hún eiginlega, þessi Wanda?

Upphaflega skáldsagan er eftir Leopold von Sacher-Masoch sem masókisminn er kenndur við og verkið snýst um völd – völd karls yfir konu og konu yfir karli. Milli Thomasar og Wöndu myndast smám saman sterk erótísk spenna og ekki kemst Thomas heim í mat á réttum tíma. Enda reynist Wanda hreint ekki öll þar sem hún er séð og er kannski frekar náttúruafl en kvenmaður.

Sveinn Ólafur leikur Thomas af skilningi á karlinum sem er orðinn leiður á að fá enga svörun við löngunum sínum og metnaði; hann er eðlilega tregur til að viðurkenna að í Wöndu hafi hann hitt ofjarl sinn. Sara Dögg skipti liðlega og kattmjúkt milli Wöndu og Vöndu og varð tvær sannfærandi persónur uns þær sameinast í eina. Það var virkilega gaman að horfa á þau takast á í nánd Tjarnarbíós sem hlýtur að vera ansi krefjandi. Þetta er fyndin og fjörug, heit og ástríðufull sýning.

„Leikrit inni í leikritinu“ er svolítið í tísku núna en þó er annað þema mun algengara á Reykjavíkursviðunum þetta misseri, nefnilega nekt. Það væri fróðlegt að halda málþing um þetta fyrirbæri. Hefur eitthvað gerst sem veldur því að leikarar eru allsendis afslappaðir gagnvart því að afklæða sig á sviðinu?

Silja Aðalsteinsdóttir