Tell me love is realEins og leik- og dansáhugamenn vita standa nú yfir tvær samtengdar hátíðir í borginni, leiklistarhátíðin Lókal og danslistahátíðin Reykjavík Dance Festival. Glöggir lesendur mínir hafa líka tekið eftir því að ég hef ekki reynt að skrifa um neinn dansviðburð þótt þar hafi mátt velja á milli margra athyglisverðra sýninga. Þetta stafar ekki af því að mér finnst leiðinlegt á danssýningum heldur af því að ég treysti mér illa til að skrifa um dans – þó að einu sinni, fyrir næstum heilli öld, hafi ég dansað dálítinn ballett á vorsýningu Barnaskóla Akureyrar.

Meðan við biðum eftir að sýning gærkvöldsins á Tell me love is real hæfist í Tjarnarbíó fékk ég allt í einu kvíðakast út af því að ég hafði ekki hugmynd um hvað ég væri að fara að sjá. Kannski væri Zachary Oberzan dansari og ég myndi ekkert vita hvað ég ætti að gera við hann. Svona er þessi tvöfalda hátíð dásamleg: Maður veit aldrei á hverju maður má eiga von!

Zachary Oberzan dansaði ekki. Hann talaði við okkur bæði frá sviði og kvikmyndatjaldi, söng og spilaði á gítar, lék Whitney Houston af ósvífinni dirfsku og sagði sögur. Maðurinn er dásamlegur uppistandari, fyndinn, bæði opinskátt og lúmskt, og góður tónlistarmaður. Enskan hans er falleg og hann talar hægt og skýrt, enginn vandi að skilja hann. Þannig sýnir hann fólki virðingu sína í landi sem ekki er (enn) enskumælandi. Hann blandar saman skáldskap og veruleika þannig að maður veit ekkert hverju maður á að trúa en það skiptir ekki máli. Símasamtal hans til dæmis við kvikmyndaleikarann Claude van Damme er alveg jafn hryllilega hlægilegt hvort sem það er leikið eða ekta – en ég hef raunar sterklega á tilfinningunni að það hafi verið ekta. Svo vann hann sér inn þó nokkur prik með því að láta fleytifullan sal syngja með sér lagið hans Serge Gainsbourg, Je t‘aime moi non plus. Og klippið úr spjallþættinum með Gainsbourg og Whitney Houston var ótrúlegt.

Ég skemmti mér stórvel og myndi langa til að sjá og heyra meira af Zachary Oberzan. Er stúrin yfir því að hafa ekki séð hann hér á Lókal 2008 með Nature Theater of Oklahoma – sem sessunautur minn sagði að hefði verið mikil upplifun. Samt fann ég stundum óþægilega fyrir því að ég væri ekki í markhópi hans; allt of margar vísanir í persónur og listaverk (einkum tónlistaverk) fóru fyrir ofan og neðan minn garð, einkum af tveim orsökum: Ég er ekki nógu ung fyrir hann og ekki nógu amerísk. Spurning hvort mætti laga annað hvort?

Silja Aðalsteinsdóttir