eftir Ísak Regal

Úr Tímariti Máls og menningar, 1. hefti 2021

Ísak Regal // Mynd: Jon Buscall

Ísak Regal // Mynd: Jon Buscall

Ég er stödd í strætó og stór og mikil svört kona horfir á mig eins og ég sé dóttir hennar. Hún er bæði áhyggjufull og vonsvikin á svipinn. Ljósin í strætónum flökta – perurnar eru að deyja. Ég reyni að virðast eðlileg en vofan í rúðunni á vagninum kemur upp um mig. Hún er föl í framan og það eru baugar undir augunum.

Ég er á leiðinni uppí Mjódd að koppa stykki. Ég féll á benzo í gær – og mig langar að skríða inní litla skel inní mér. Mér líður eins og ég hafi ferðast nokkur ár aftur í tímann. Dagný sagðist ætla taka sýru með mér um helgina, en bara ef við erum með dísur þegar við erum að koma niður.

„Ætlaru út?“

Ung stelpa, hálfasísk í útliti, horfir á mig.

„Ha?“

„Ætlaru út?“ segir hún.

Ég skil ekki spurninguna.

„Já?“ segi ég. „Á endanum.“

„Í Mjódd?“

„Já.“

„Geturðu gert mér greiða?“ segir hún. „Geturðu fylgt mér að bílnum mínum? Ég vil ekki labba ein.“

„Uu … Jájá,“ segi ég. „Ekkert mál.“

Vagninn nemur staðar hjá strætóbiðstöðinni og stelpan stígur út á undan mér. Hún er mjög vel til fara — klædd í svartan frakka með ullartrefil um hálsinn. Skórnir hennar líta út fyrir að kosta meira en ég borga í leigu á mánuði og buxurnar eru úr þunnu, fínu efni. Hún er líka með taupoka frá Geysi á öxlinni. Ég hugsa að þetta sé skrítin leið til að klæða sig í strætó á leiðinni uppí Mjódd. Ég geng með henni í áttina að bílaplaninu fyrir framan bíóið.

„Takk kærlega fyrir,“ segir hún. „Ég vildi ekki að labba ein, kannski er það heimskulegt.“

„Það er ekkert mál,“ segi ég og sting höndum í úlpuvasa. Mér líður eins og ég hafi verið í sömu fötunum of lengi. Finn kaldan svita hríslast um líkamann.

„Hvað er bíllinn þinn að gera hér?“

„Aaa, það er löng saga,“ segir hún.

„Nú?“

„Sko,“ segir hún og réttir út báðar hendur eins og hún sé hljómsveitarstjóri. „Ég ætlaði til vinkonu minnar í kvöld þannig að ég keyrði í vinnuna, ég vinn í bíóinu, sko,“ segir hún og bendir á bíóið, „og ég og vinkona mín ætluðum að fá okkur nokkur rauðvínsglös eftir vinnu, svo ég skildi bílinn eftir af því að ég vildi ekki keyra full heim.“

„Sniðugt,“ segi ég.

„En vinkona mín var ekki heima. Ég bankaði uppá. Hringdi bjöllunni. Ég hringdi í símann hennar, ég meira að segja gekk hringinn í kringum húsið en það fannst hvorki tangur né tetur af henni!“ segir hún. Hún virðist ánægð með þetta orðalag. „Öll ljósin inni hjá henni voru slökkt.“

„Skrítið.“

„Hvað heldur þú? Hvar heldur þú að hún gæti verið?“

„Ég hef enga hugmynd,“ segi ég.

„Kannski hafa geimverurnar tekið hana,“ segir hún.

Það er eins og ég vakni úr dái.

„Hvaða geimverur?“

„Hefurðu ekki heyrt um geimverurnar?“

„Hvaða geimverur?“

„Hefurðu ekki heyrt um GEIMVERURNAR?“ segir hún og hlær dillandi hlátri. Hún hefur orku á við tíu manneskjur.

„Hvaða geimverur?“ segi ég aftur.

„Það sá einhver svona geimverudisk í Árbænum í gær. Eða svona fljúgandi furðuhlut, þússt. Nálægt Rauðavatnsskógi. Varstu ekki búin að heyra um það? Það var einhver að keyra framhjá og sá svona ljós á himninum fyrir ofan skóginn.“

Ég hlæ í gegnum nefið.

„Það eru ekki til geimverur,“ segi ég. „Og ef þær væru til þá væru þær ekki á Íslandi,“ bæti ég við. „Þeim hlýtur að hafa missést.“

„En pældíðí ef það væru til geimverur í alvörunni?“

Ég veit ekki hvað ég á að segja svo ég spyr hana hvað hún heiti.

„Sara,“ segir hún og réttir mér fínlega hönd.

„Andrea,“ segi ég.

„Gaman að kynnast þér,“ segir hún.

„Sömuleiðis,“ segi ég. „Hvar er bíllinn þinn?“

„Þarna,“ segir hún og bendir út í enda bílaplansins.

Það er dimmt úti og ekki sála á ferli.

„Hvert varst þú að fara?“ spyr hún.

„Hmm? Já, öh … ég var að fara að kaupa gras,“ segi ég og finn um leið að ég roðna.

„Mmm. Ég skil þig,“ segir hún. „Ég reyki ekki gras.“ Það er engin dómharka í röddinni. Hún bara gerir það ekki.

Ég finn allt í einu að ég öfunda hana – sakleysið hennar. Það er svo margt sem hún hefur ekki séð og mun ekki sjá. En því er öðruvísi háttað með mig. Mér líður eins og ég hafi séð of mikið nú þegar, eins og það verði ekki aftur snúið úr þessu.

„Ég gerði það einu sinni,“ segir hún, „en síðan varð ég alltaf bara svo kvíðin þegar ég reykti.“

„Það kemur fyrir,“ segi ég.

Ég finn skyndilega, án þess að hafa nokkra hugmynd um ástæðuna, að ég verð óstjórnlega kvíðin. Hjartað hamast í brjóstinu. Það blikkar í hausnum á mér.

Sara horfir á mig.

„Hvað er að?“

„Ég veit það ekki,“ segi ég og nem staðar. Ég finn hvað ég anda þungt.

„Mér líður … bara eitthvað skringilega,“ segi ég.

Líkaminn skelfur.

„Ég finn fyrir stressinu í þér,“ segir Sara. „Taktu í höndina á mér og leyfðu því að losna frá og leka úr fingrunum. Leyfðu því að fljóta hjá. Verða að engu.“

„Ha?!“

„Þetta er svona upptaka sem ég hlusta á þegar ég verð kvíðin.“

„Getum við sest niður einhvers staðar?“

„Við getum farið inní bíl. Hann er bara þarna …“

„Nei,“ segi ég. „Getum við bara komið okkur fyrir einhvers staðar? Getum við … Getum við sest á gangstéttina bara eða …“ Ég bendi á glugga þar sem stendur NUDDSTOFA stórum stöfum.

Það er slökkt inni.

Við setjumst á gangstéttina fyrir framan nuddstofuna. Fyrir ofan okkur er lítið þil sem skýlir okkur fyrir köldu næturloftinu og birtunni sem streymir frá ljósastaurunum. Andardráttur minn er hraður en stöðugur. Ég vil ekki heyra neinn tala. Ég finn blíðlegt augnaráð Söru hvíla á mér.

„Þetta verður allt í lagi,“ endurtek ég við sjálfa mig á milli andardrátta. „Þetta verður allt í lagi.“

„Ég vona það,“ segir Sara. Ég skynja glettni í röddinni. Hún ranghvolfir augunum og ég finn að ég slakna við það – við léttleikann í henni.

„Hvað gerðist annars?“ spyr hún „Ég hef aldrei lent í …“

Ég gríp fast í úlnliðinn á Söru.

Á himninum fyrir ofan okkur skína björt, græn og hvít ljós. Þau eru í laginu eins og einhver form sem ég man ekki hvað heita. Þau fljóta, frekar en svífa. Það sést í útlínur á hlut sem er svo afbrigðilegur að það er engin leið að lýsa honum.

Ljósin fljóta yfir okkur í einhvern tíma. Sara ætlar að standa upp en ég rígheld í úlnliðinn á henni, eins og í lítið barn sem ætlar að æða yfir götu á rauðu ljósi.

„Sara,“ segi ég eins lágt og ég mögulega get.

Hjartað æpir í hálsinum á mér.

Mér heyrist einhver segja eitthvað. En enginn gerir það.

Ég heyri hjartað í Söru slá. Líkami hennar er eins og lítið annað en hulstur fyrir það. Hún læsir rauðum nöglunum í húðina á mér. Augu mín eru galopin. Ég finn hjartað dæla blóði um allan líkamann.

Við horfum saman á ljósin hverfa út í nóttina. Verða að henni.

Í nokkrar mínútur gerum við ekkert nema anda að okkur svörtu næturloftinu.

„Sara,“ segi ég svo. „Getum við farið heim til þín?“

Við stöndum upp og skottumst í áttina að bílnum eins og við séum að reyna okkar besta til að vera ósýnilegar.

„Hvað í FOKKANUM var þetta!?“ segi ég þegar við erum komnar út á veginn.

Sara svarar mér ekki.

„Mér líður ekki vel,“ segir hún.

„Ókei,“ segi ég. „Reyndu bara að keyra og ekki hugsa um neitt annað.“

Sara keyrir eins og hún sé í ökutíma.

Ég set vinstri hönd á ennið, kreisti gagnaugun eins fast og ég get.

„Er ekki eitthvað loftvarnardæmi?“ segir Sara.

„Hvað meinaru?“

„Loftvarnareftirlitið eða eitthvað?“ segir hún.

„Ég hef ekki hugmynd. Hvað er það?“

„Ég veit það ekki.“

Ég horfi á bílrúðuna fyrir framan mig. Hún verndar mig fyrir nóttinni. Hleypir henni ekki að mér.

„Það eru ekki til neinar …“ Við vitum báðar hvað hún ætlar að segja. En hún sleppir ekki orðinu.

„Hvar áttu heima?“

„Árbænum.“

„Ókei, það er ekki langt. Getum við tjillað þar?“

Sara kinkar kolli.

Ég kreppi fingurna í hnefa og hvíli höfuðið á honum. Horfi á veginn og Söru til skiptis. Hún deplar varla augunum.

„Býrðu ein?“ spyr ég.

„Nei, hjá foreldrum mínum,“ segir Sara. „En þau eru í Grikklandi, svo ég er ein heima núna.“

„Gott.“

Ég er fegin að þurfa ekki að útskýra neitt fyrir þeim. Hvernig gæti ég útskýrt þetta?

Við keyrum inn í stillt og þögult úthverfi sem ætti að vera öruggt. En ekkert verður nokkurn tímann öruggt fyrir mér. Þegar við erum komnar leggur Sara í innkeyrsluna við hús sem lítur út fyrir að vera klippt út úr amerísku úthverfi. Hún gengur inn á undan mér og þjófavarnarkerfið hrekkur í gang. Ég fylgist með henni stimpla inn númerið. Og við stöndum í myrkrinu þar til hljóðin þagna. Sara kveikir ljósin og íbúðin ljómar. Innréttingin er hvít og nýtískuleg. Ég klæði mig úr skónum og segi Söru að mér finnist íbúðin flott, en það er eins og hún heyri ekki í mér. Mig langar að spurja hana að einhverju hversdagslegu, hrósa henni fyrir fatastílinn eða spurja hana hvað foreldar hennar vinna við, en það er eins og það sé ekki hægt að segja neitt, ekkert – sem gæti látið heiminn meika sens aftur.

Sara kveikir á katlinum og við fáum okkur sæti inní eldhúsi. Hönd hennar skelfur þegar hún tekur tvo bolla úr skápnum fyrir ofan vaskinn og setur tepoka ofan í þá.

„Þetta verður allt í lagi,“ segi ég við bakið á Söru. „Það er örugglega góð útskýring á þessu. Ég meina, hvað sáum við – einhver ljós? Það eru oft ljós á himninum. Þetta hefur bara verið einhver … ný þyrla eða eitthvað.“ Ég heyri að það er engin sannfæring í röddinni og ég tek eftir því að ég er byrjuð að naga á mér naglaböndin.

„Eigum við að hringja á lögguna?“ segir Sara.

„Og segja hvað?“

„Að við sáum eitthvað?“

„Hvað sáum við?“

„Kannski …“

En áður en hún kemst lengra er bankað á útidyrnar. Klukkan er tólf á miðnætti.

„Áttu von á einhverjum?“ spyr ég, vitandi svarið.

Sara hristir höfuðið.

Það er bankað aftur.

Fastar.

„Það er gægjugat,“ hvísla ég. „Notaðu gægjugatið.“

Ég krosslegg fæturna og naga á mér naglaböndin af meiri ákafa. Sara horfir bara á mig. Hún er hrædd. Gufa liðast uppúr katlinum. Vatnið er heitt. En hvorug okkar hreyfir sig.

Það er bankað aftur.

„Ég skal,“ segi ég.

Sara grípur stóran hníf sem hangir á vegg fyrir aftan teketilinn.

Ég stend á fætur og geng hægum skrefum í áttina að útidyrunum. Ég reyni að taka á mig rögg. Virðast djörf. Hugsa með mér að kannski sé þetta bara nágranni að biðja um bolla af sykri. Þegar ég kem að dyrunum lyfti ég mér uppá tábergið og halla öðru auganu að gægjugatinu.

Tvö augu stara á mig. Síðan fjarlægjast þau. Og ég sé að það standa tveir menn fyrir utan. Þeir eru í öllu svörtu og með svartar skikkjur. Og Zorró-hatta á höfðinu.

„Við vitum að þið eruð heima. Sara og Andrea.“

Þeir biðja um að fá að koma inn. Ég neita en tek um leið eftir því að hönd mín lyftist upp og tekur úr lás fyrir þeim – opnar dyrnar.

Mennirnir svífa inn.

Þeir eru með náföla húð, langa fingur og varirnar eru eins og teiknaðar. Augun eru of stór fyrir andlitin.

Sara stendur stjörf inní eldhúsi. Ég stíg nokkur skref aftur á bak og tek mér stöðu við hlið hennar. Mennirnir, eða hvað sem þeir eru, spyrja okkur hvað við höfum séð fyrr um kvöldið. Þeir ítreka við okkur að segja engum frá því sem við sáum. Augun í þeim eru alls ekki augu. Alls ekki.

Þeir biðja Söru um að draga símann uppúr vasanum. Hún gerir það og heldur á honum í útréttum lófa hægri handar.

Síminn byrjar að snúast í lófanum á henni. Hann snýst – hraðar og hraðar, og skiptir svo litum; verður brúnn, fjólublár, og mosagrænn áður en hann hættir að snúast og breytist í leðju.

Mennirnir segja að þeir geti látið hjörtun í okkur gera það sama og síminn í lófanum á Söru.

„Þið munuð aldrei vita,“ segir annar þeirra.

Síðan eru þeir komnir út. Dyrnar lokaðar.

Skyndilega finn ég hvað ég er sljó og dösuð. Það er eins og ég sé að vakna af draumi um miðja nótt. Hálsinn verður þurr og nóttin fyrir utan gluggann virðist óraunveruleg. Móða leggst yfir mig – ég gleymi hvar ég er.

Ég veit ekki hve langur tími líður áður en ég átta mig.

„Sara,“ segi ég. „Sara, er allt í lagi?“ Það er eins og ég sé að tala við stein. Ég tjékka púlsinn hennar til að vera viss.

„Sara?“ segi ég og slæ hana létt í andlitið.

„Ég held ég ætti að fara að sofa,“ segir hún.

„Sara.“

„Ég held ég ætti að fara að sofa.“

„Sara. Hvað er í gangi? Er í lagi með þig?“

„Já. Það verður allt í lagi með mig,“ segir hún. Hún deplar augunum og brosir. En það er dapurlegt bros.

„Viltu að ég gisti? Það er ekkert mál, sko,“ segi ég.

„Nei,“ segir hún. „Það er allt í lagi.“

„Ertu alveg viss?“

„Já.“

„Ókei,“ segi ég og þrýsti á henni handlegginn. „Ertu viss um að það sé í lagi með þig?“

„Já,“ segir hún. „Ég þarf bara að sofa.“

„Ég tjékka á þér á morgun,“ segi ég. En ég veit að ég mun ekki gera það.

Ég faðma Söru að mér áður en ég fer. Hún bregst varla við faðmlaginu. Ég bið hana um númerið hennar og spyr hvað hún heiti fullu nafni svo ég geti addað henni seinna.

„Sara Eiríksdóttir,“ segir hún.

Nóttin er dimm. Það heyrist suð í loftinu. Ég geng hratt í áttina að næsta strætóskýli. Mig langar að hringja í Dagnýju en ég held á símanum í hendinni á meðan ég geng án þess að stimpla inn númerið. Ég hugsa með mér að ég sjái hana fljótlega hvort eð er. Við ætluðum að taka sýru um helgina, en bara ef við erum með dísur þegar við erum að koma niður. Það eru tíu mínútur í næsta strætó svo ég stimpla inn annað númer.

„Jó, blessaður, ertu fresh?“

Á sama tíma og ég sit í strætó á leiðinni heim sit ég inní herbergi heima hjá Dagnýju viku seinna. Skær skjábirta skín á andlitið á mér. Dagný situr á rúminu og rúllar jónu eins og henni einni er lagið. Það er tónlist í loftinu og Dagný hreyfir sig eins og þyngdarlaust í takt við ljúfa tónana og raular lágt með.

Alltaf þegar ég horfi svona á hana er eins og allar áhyggjur og sjálfshatur losni frá mér og leki úr fingrunum. Fljóti hjá. Verði að engu. Og ég gleymi hvað í fokkanum ég var eiginlega að segja.