Sjaldan hef ég á langri leikhúsævi séð leikara „taka salinn“ eins og Atli Rafn Sigurðarson gerði í gær á frumsýningu Engla alheimsins á stóra sviði Þjóðleikhússins. Ekki aðeins ávarpa salinn og gera hann að trúnaðarmanni sínum heldur stjórna honum eins og stórum kór eða sinfóníuhljómsveit. Enda „átti“ Atli Rafn sviðið alla sýninguna út í gegn í hlutverki Páls Ólafssonar, ríkti yfir því – eins og Páll gerir að sínu leyti í samnefndri sögu Einars Más Guðmundssonar sem hvert mannsbarn þekkir.

Englar alheimsinsÞorleifi Arnarssyni var vissulega vandi á höndum að sviðsetja þetta verk. „Allir“ hafa lesið bókina og „allir“ hafa líka séð bíómyndina sem Friðrik Þór Friðriksson gerði eftir bókinni og handriti Einars Más. Í þetta sinn kom Einar Már ekki að handritsgerð – þó að sjaldan sé farið út úr texta hans – heldur gerði Þorleifur leikgerðina sjálfur ásamt Símoni Birgissyni. Þeir fara þá leið að hafa allar þessar upplýsingar uppi á borðinu. Páll Ólafsson er staddur í Þjóðleikhúsinu, núna, þar er hann að segja fólkinu í salnum frá lífi sínu (og dauða), á gólfi er búin til mósaíkmynd úr hundruðum eintaka af einni útgáfu sögunnar og hann fléttar líka bíómyndina inn í sögu sína, bæði til að minna á að saga hans hefur verið sviðsett áður og til að deila við þá útfærslu á henni sem hann gefur í skyn að hafi verið helst til einföld eða sársaukalítil. Þrátt fyrir þennan ramma „raunsæis“ náði Atli Rafn að laða áheyrendur inn í sögu Páls og sýna þeim inn í þann stóra heim þjáningar sem Páll býr í og hvernig hann eyðileggur hreinlega allt í kringum sig með ofstopa sínum og sjúklegri sjálfsmaníu. Þetta var gríðarlega áhrifaríkt.

Atli Rafn hefur skinið í mörgum ólíkum hlutverkum á undanförnum árum, ég get nefnt Játgeir í Lé konungi, Georg í Öllum sonum mínum, Edmund í Dagleiðinni löngu og Skarphéðin í Svörtum hundi prestsins, öll í Þjóðleikhúsinu, og Ólaf útrásarvíking í Eilífri óhamingju sem Þorleifur Arnarsson stýrði á litla sviði Borgarleikhússins. En túlkun hans á hamsleysi – takmarkaleysi – hins geðveika fór jafnvel fram úr þessum prestasjónum.

Eins og eðlilegt er fengu engir aðrir að skína í þessu verki en margir verða samt minnisstæðir í litlum hlutverkum. Sólveig Arnarsdóttir fór afar vel með erfitt hlutverk Guðrúnar, móður Páls, sem segir okkur bæði í byrjun og enda sýningar drauminn um hestana fjóra og þar af einn – þann skjótta – sem „hagaði sér undarlega“. Snorri Engilbertsson snart mann djúpt í hlutverki geðsjúklingsins Péturs, Ólafur Egill Egilsson var fyndinn og brjóstumkennanlegur Óli bítill, hlutverk Brynjólfs geðlæknis varð þakklátt í höndum Eggerts Þorleifssonar og ástarsena þeirra Páls og Dagnýjar, sem Ágústa Eva Erlendsdóttir lék af miklum krafti, var einn af hápunktum sýningarinnar. Nær öll textameðferð var til fyrirmyndar eins og skylt er þegar farið er með annan eins snilldartexta. Helst að maður heyrði ekki alltaf orðasskil hjá Jóhannesi Hauki í hlutverki Viktors – sem var leitt.

Svið og búningar voru í höndum langreyndra snillinga, Vytautas Narbutas og Filippíu I. Elísdóttur og þarf þá ekki að sökum að spyrja. Sviðið var afar margslungið og flókið framan af en varð einfaldara eftir því sem örlagasögu Páls vatt fram og mætti eyða löngu máli í öll táknin sem þar var að sjá. Búningar voru í anda sögutíma þó að ekki væri hikað við samtímavísanir í leikgerðinni. Bítlatónlistin var auðvitað áberandi í hljóðheimi sýningarinnar en frumsamdir tónar voru eftir hljómsveitina Hjaltalín og söngvari hennar, Högni Egilsson, lýkur sýningunni með glæsibrag.

Þetta er fyrsta verkefni Þorleifs Arnarssonar hjá Þjóðleikhúsinu. Ég spái að það verði ekki hið síðasta.

Silja Aðalsteinsdóttir