NazaninVið skrópuðum á Lókal á laugardag en sáum í staðinn þrjár bráðgóðar nýjar íslenskar heimildarmyndir í Bíó Paradís. En í gær hlýddum við á írönsku stúlkuna Nazanin Askari segja frá lífi sínu, landi sínu og kjörum þjóðar sinnar á Lókal, í sýningu sem hún vann með Mörtu Nordal og undir stjórn hennar. Þetta er í hæsta máta tímabær sýning einmitt þessa dagana þegar íslenskt samfélag logar í umræðum um flóttamenn.

Nazanin er 27 ára, gullfalleg stúlka og talar prýðilega ensku. Hún var að lesa enskar bókmenntir við háskóla í Íran þegar Hossein Mousavi bauð sig fram til forseta 2009 og hún heillaðist af málflutningi hans. Hann var í flestu andstæður málflutningi Ahmadinejads sitjandi forseta, ekki síst um rétt kvenna til sömu réttinda og karla. Mousavi tapaði kosningunum og stjórnarandstæðingar sökuðu Ahmadinejad um kosningasvindl. Fjöldi manna mótmælti á götum úti, þeirra á meðan Nazanin sem var tekin föst og yfirheyrð. Þegar sýnt þótti að hún myndi lenda í fangelsi flúði hún til Tyrklands og þaðan áfram uns hún endaði á Íslandi tveim árum seinna.

Nazanin sagði sögu sína stillilega og yfirvegað þó vel mætti skynja geðshræringu hennar þegar hún sagði frá flóttanum. Síðan hélt hún áfram að lýsa almennum kjörum kvenna í landi sínu. Það var ljótur lestur og þyngra en tárum taki að hugsa um þessar eldfornu menningarþjóðir, þetta glæsilega, dugmikla og vel gefna fólk sem þolir stöðuga skoðanakúgun ef það tekur ekki í einu og öllu undir með yfirvöldum. Verra er ástandið þó hjá konum en körlum, það dró Nazanin vel fram í frásögn sinni. Sú frásögn var brotin upp með myndbandsverki Helenu Stefánsdóttur þar sem sjá mátti lifandi myndir frá Íran og áróðurstexta með meiru. Samleikur Nazanin og myndbandsins var vel hugsaður og fjölbreyttur en óhugnanlegast var þegar hljóðmyndin var notuð til að raungera kúgunina.

Nazanin flutti mál sitt í nýjum svörtum kassa á hæðinni fyrir ofan Grillmarkaðinn í Austurstræti sem er kallaður Skuggi en hún mun flytja sig yfir í Tjarnarbíó upp úr miðjum september. Það er óskandi að sem flestir sjái, heyri og íhugi frásögn hennar, ekki síst ungt fólk af báðum kynjum. Lýðræði er ekki sjálfsagður hlutur. Mikill minni hluti mannkyns býr við það stjórnarfar. Virðum það og varðveitum eins og lífið í brjósti okkar.

Silja Aðalsteinsdóttir