Ég vissi ekkert um Eldhaf eftir Wajdi Mouawad áður en ég fór á frumsýninguna á Nýja sviði Borgarleikhússins í gærkvöldi og það reyndist vera svo áhrifamikið – að vita ekki neitt fyrirfram – að mér er skapi næst að segja ekkert um verkið eða höfund þess í þessum pistli. Láta duga að hvetja alla sem áhuga hafa á góðri leiklist, pólitík og mannúðarmálum að fjölmenna á sýninguna. Hér á eftir verður fátt annað gefið upp af beinum upplýsingum um efnið en það sem kemur fram í fréttatilkynningu leikhússins.

EldhafAðalpersóna Eldhafs er Nawal (Unnur Ösp Stefánsdóttir). Í nútíma verksins er hún nýdáin og tvíburarnir hennar, Jeanne og Símon (Lára Jóhanna Jónsdóttir og Guðjón Davíð Karlsson), eru kallaðir á skrifstofu lögbókanda (Bergur Þór Ingólfsson) til að hlýða á erfðaskrá hennar. Það kemur fljótt í ljós að þau systkinin hafa haft lítið samband við móður sína eftir að þau urðu fullorðin og er Símoni sérstaklega uppsigað við minningu hennar. Þau eru alin upp í vissu þess að faðir þeirra sé látinn og verða því kjaftstopp þegar í ljós kemur að hún vill að þau færi föður sínum bréf frá henni og líka bróður sínum sem þau vissu ekki að væri til. Sagan segir síðan af ferðalagi þeirra til fjarlægs föðurlands móðurinnar og leit þeirra að þessum huldupersónum og þar með að ævi og sögu móðurinnar sem við fáum líka að sjá mögnuð atriði úr inn á milli.

Öll sköpuðu leikendurnir afar sterkar persónur og var aðdáunarvert að fylgjast með Unni Ösp sýna okkur Nawal á ólíkum æviskeiðum, allt frá þeirri barnslegu unglingsstúlku, vart af fermingaraldri, sem hún er þegar saga hennar hefst, og að þeirri sterku miðaldra konu sem ber vitni í réttarhöldum yfir stríðsglæpamanni (Þórir Sæmundsson) undir lok ævi sinnar. Tvíburarnir urðu skýrar persónur, einkum varð Jeanne vel mótuð, marghliða og spennandi í meðförum Láru. Birgitta Birgisdóttir og Jörundur Ragnarsson léku ýmsar aukapersónur og gerðu það með prýði. Sérstaklega minnisstæð verður Sawda, vinkona Nawal, í túlkun Birgittu.

Þetta er býsna ólíkt verk í stíl því sem við erum vön og Hrafnhildi Hagalín þýðanda hefur verið nokkur vandi á höndum. Ekki aðeins eru iðulega langar einræður í textanum heldur er hann oft á ljóðrænu máli með myndhverfingum og líkingum. Hvort tveggja minnir þetta á gríska harmleiki og líka það að aðalatburðir verksins gerast utan sviðs, á sviðinu er talað um þá, bæði fyrir og eftir að þeir gerast. Ekki þarf að undrast hve ágætlega Hrafnhildur kemst frá verki sínu, það hefur hentað henni vel.

Eitt enn sem gerir Eldhaf „gamaldags“ er djúp einlægni þess. Vissulega er kímni í verkinu en hún er fyrst og fremst bundin við eina persónu, lögbókandann Lebel sem Bergur Þór leikur af mikilli kúnst. En hér er engin írónísk fjarlægð eins og við erum vön enda ætti það afar illa heima. Þetta gerir eflaust mörgum vesturlandabúum erfitt um vik að taka á móti átakamestu atriðum Eldhafs, viðbúið að þeir dragi sig inn í skel sína og neiti að láta sér koma þetta við. En Jón Páll Eyjólfsson leikstjóri hikar ekki við að ganga brautina sem höfundur markar og bendir okkur með því á að ef við látum berast á straumi skáldskaparins og leyfum okkur að finna til með öðru fólki þá verðum við betri manneskjur eftir.

Leikmynd Ilmar Stefánsdóttur og hljóðmynd Halls Ingólfssonar eru báðar alveg rosalega flottar og áhrifamiklar og þá ekki síður myndband Arnars Steins Friðbjarnarsonar, en um leið og ég færi að lýsa þeim kæmi ég upp um of mikið. Einnig þær bíða ykkar á Nýja sviðinu. Látið þær ekki bíða lengi.

Silja Aðalsteinsdóttir